Linda Pétursdóttir, lífsþjálfi og fyrrverandi Ungfrú Ísland og Ungfrú Heimur, fjallar um vinslit og margt fleira áhugavert í nýjasta hlaðvarpsþætti sínum, Podcastið með Lindu Pé. Linda talar opinskátt um sambönd, fordóma, breytingar og hvernig sumir vinir þola illa velgengni annarra.
Nýlega hélt Lindu ráðstefnu í Cannes í Frakklandi, Framúrskarandi konan, í þriðja sinn. Á ráðstefnu mæta konur sem eru í PML prógrammi Lindu. Fjórða ráðstefnan verður haldin á næsta ári.
„Og hún tókst svo vel og var svo gaman og hún var svo flott þessi ráðstefna og ég er gríðarlega stolt af henni og og það gefur mér svo mikið að vera innan um allar LPM konurnar mínar og vera að gera þessa valdeflandi sjálfsvinnu sem við gerum á ráðstefnunni. Þannig að það var alveg frábært og ég gef mig alla í það þannig að ég er ansi orkulítil, orkulág oft eftir ráðstefnurnar. Ég gef mér ágætis tíma svona eftir á til þess að slaka á og og hlaða batteríin og ég er búin að vera að gera það.“
Linda segir fólkið okkar, tengslanetið og vini einnig skipta máli. Það hafi hún og konurnar hennar einmitt rætt á ráðstefnunni.
„Vorum að tala um þetta að það eru ekki allir vinir sem að fylgja okkur fyrir lífstíð og ég held að þetta sé bara eitthvað sem gerist alveg óháð því hvar á aldursskeiðinu við erum. Það geta orðið vinaslit hvenær sem er á lífsleiðinni auðvitað. Og ég segi það bara að í staðinn fyrir að reyna að rembast að láta einhvern vinskap ganga eftir bara því að þið eruð búin að vera vinkonur eða vinir í svo langan tíma að hlusta frekar á það sem er að gerast og hvaða orka er í gangi. Af því að þó að einhver sé búinn að vera vinur þinn til langs tíma þá þýðir ekki það að viðkomandi verði vinur þinn það sem eftir er. Og líka svona þegar maður gerir þessa sjálfsvinnu og uppfærir sjálfsmyndina sína, þá svona gerast alls kyns hlutir og það er oft einmitt fólkið í kringum okkur sem að kann því ekki vel þegar að við erum að gera þessar breytingar, þegar við erum að uppfæra líf okkar.
Og svo náttúrulega annað sem að gerist líka, að þegar þér fer að vegna vel, þá kemstu virkilega að því hverjir eru raunverulegir vinir af því að það er oft talað um að þú komist að því hverjir eru raunverulegir vinir þegar þú gengur í gegnum erfiðleika og ég trúði því líka að þú kæmist að því þegar þú gengur í gegnum erfiðleika en reynsla mín er núna seinustu ár að þú kemst eiginlega ennþá betur að því hverjir eru raunverulega vinir þínir þegar þú upplifir velgengni. Af því að það eru ekki allir í kringum þig sem að vilja að þér vegni vel og alls ekkert betur en þeim. Þeir vilja ekki sjá ljós þitt skína, þeir hræðast að þá verði þeir í skugganum. Og það eru sumir sem að vilja ekki sjá þá breytingu sem að þú ert að gera því þá sést svo vel að þeir sjálfir hafi ekki gert þessa vinnu.“
Linda segir að á slíkum tímapunkti sé upplagt að átta sig á því að stundum þurfi að kveðja vini, jafnvel þó vinskapurinn hafi varað í langan tíma. Þannig skapist rými fyrir nýjan vinskap og fólk til að koma með nýja orku í líf okkar. Sjálf hafi hún reynslu af því.
„Svona síðastliðin kannski þrjú ár og ég er nú eiginlega bara að tala um þetta í fyrsta skipti. Ég til dæmis átti vinkonu sem að var búin að vera besta vinkona mín eða sem sagt bara æskuvinkona í rúm fjörutíu ár. Og svo gekk mér eitthvað illa að ná í hana og hún var ekki að svara skilaboðum þar til bara einn góðan veðurdag þá sagði hún mér það bara að hún þyrfti bara pásu því að hún einfaldlega þyldi ekki að sjá mig á samfélagsmiðlum. Og svo var annað miður fallegt sem fylgdi þar á eftir sem ég ætla ekki að hafa eftir hér.“
Linda segir að þetta hafi sært hana, en þegar einhver tali svona við mann þá sé það alltaf að koma út frá skortsorku. Enginn sem hafi stundað alvöru sjálfsvinnu myndi tala svona við aðra.
„Þetta kemur út frá skorti, hræðslu af því að þér vegni of vel, það er allt í þannig dúr. Þetta særði mig og þá bara sleppti ég og skapaði rýmið bara fyrir aðra vini. Og ég er búin að eignast nýja vini sem eru á sama level og ég og sem hræðast ekki velgengni mína og ég hræðist ekki velgengni þeirra. Og mér finnst svo mikilvægt að vera með fólkið í kringum mig og náttúrulega bara sérstaklega í í vinkonuhópnum mínum og það séu konur sem að vegna vel.“
Nefnir Linda að í 35 ár hafi hún verið í saumaklúbbi með konunum sem tóku þátt með henni í Ungfrú Ísland árið 1988. Hópurinn hafi hist mánaðarlega nær allan tímann. Þar sem Linda hafi ekki alltaf verið búsett á Íslandi hafi hún ekki alltaf getað mætt, en stundum verið með á Facebook.
„Og þessi hópur kvenna, þær eru algjörlega einstakar. Ef ég er til dæmis með eitthvað örnámskeið eða eitthvað í gangi, þá eru þær fyrstar að skrá sig. Og þær hvetja mig og ef að einhver sér eitthvað sem að ég er að gera, þá lætur hún hinar vita. Og þær mæta og þær fylgjast með mér, og þær eru svo glaðar fyrir mína hönd. Og það er svo gott að upplifa svona. Þetta eru konur sem vegnar öllum vel á sínu sviði og þetta er bara frábær frábær hópur vinkvenna sem eru búnar að þekkjast svona lengi og við styðjum hver aðra. Ég hef aldrei fundið fyrir öfund eða afbrýðisemi, það er bara alltaf hvatning og það er verið að samgleðjast. Og þannig manneskjum vil ég vera í samskiptum við.“
Linda eignaðist jafnframt nýja vinkonu í Bretlandi, sem er einnig lífsþjálfi, og þær kynntust í náminu. Þær hvetji hvor aðra stöðugt og segir Linda það gott að finna að finna fyrir svona vinskap og við getum eignast nýja vini hvenær sem er á ævinni.
Nánari upplýsingar um lífið með Lindu P prógrammið finnur þú á heimasíðunni lindap.com.