fbpx
Laugardagur 17.maí 2025
Fókus

„Ósýnilega teymið“ hefur 35 sekúndur til að skipta um sett á Eurovisionsviðinu – „Við köllum þetta Formúlu-1 dekkjaskipti“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 16. maí 2025 18:30

Stiginn í atriði Spánar er einn af mörgum leikmunum sem van Rouwendaal (í hringnum) og hans teymi þurfa að koma á svið og setja saman meðan atriðið er í gangi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrjátíu og fimm sekúndur. Það er tíminn sem gefst  til að skipta um sett í Eurovision.

Þrjátíu og fimm sekúndur til að ná einu setti flytjenda af sviðinu og koma þeim næstu á réttan stað.

Þrjátíu og fimm sekúndur til að tryggja að allir séu með réttu hljóðnemana og heyrnartólin.

Þrjátíu og fimm sekúndur til að tryggja að leikmunir séu á sínum stað og vel festir.

Á meðan þú situr heima og horfir á kynningarmyndböndin, sem kallast póstkort, streyma tugir manna yfir sviðið og taka niður sviðsmyndina og setja upp aðra fyrir næsta atriði.

„Við köllum þetta formúlu-1 dekkjaskipti,“ segir hollenski sviðstjórinn Richard van Rouwendaal sem sér til þess að allt gangi eins og smurð vél.

„Hver einstaklingur í teyminu getur bara gert einn hlut. Þú hleypur á sviðinu með eina ljósaperu eða einn hlut. Þú gengur alltaf á sömu línu. Ef þú ferð út af brautinni muntu hlaupa niður annan í teyminu. Þetta er svolítið eins og að vera á skautum,“ segir van Rouwendaal í umfjöllun BBC.

Smíði á sviðinu hófst í apríl, nokkrum vikum áður en flytjendur og föruneyti mættu á svæðið.

Teymið byrjar að æfa „F1 dekkjaskiptin“ nokkrum vikum áður en keppendur koma á svæðið.

Sérhvert land sendir ítarlegt skipulag um sína uppsetningu og Eurovision ræður inn starfsfólk sem staðgengla flytjenda. Sem dæmi má nefna að í keppninni í Liverpool árið 2023 voru ráðnir nemendur úr sviðslistaskólanum á staðnum, á meðan sviðsmenn byrja að vinna að því að tími milli skiptinga sé sem stystur.

„Við höfum um tvær vikur,“ segir Van Rouwendaal. „Fyrirtækið mitt samanstendur af 13 Hollendingum og 30 starfsmönnum búsettum í Sviss. Á þessum tveimur vikum þarf ég að finna út hver er rétt starfsmaður í hvert verk. Einn er góður í að hlaupa, annar er góður í að lyfta, einhver er góður í að skipuleggja baksviðssvæðið. Þetta er svolítið eins og að vera góður í Tetris því þú þarft að stilla öllu upp í litlu rými, á hinn fullkomna hátt.“

Um leið og lag klárast er teymið tilbúið að skipta. Auk sviðsmanna er starfsfólk sem ber ábyrgð á að staðsetja ljós og stilla flugelda; og 10 starfsfólk sér um að sópa sviðið með moppum og ryksugu á milli laga.

„Hreingerningafólkið mitt er alveg jafn mikilvægt og sviðsliðið. Þú þarft hreint svið fyrir dansarana – en líka, ef það er myndataka yfir höfuðið af einhverjum sem liggur á gólfinu þá vill maður ekki sjá skóför á gólfinu.“

Atriði Frakklands er áskorun þar sem nokkrum kílóum af sandi rignir yfir í flutningi lagsins. Lausnin var að setja sérstakt undirlag á sviðið sem hægt er að brjóta saman og bera af sviðinu, með sem mestu af sandinum á.

Athygli á smáatriðum er mikil. Baksviðs hefur hver flytjandi sinn eigin hljóðnemastand, stilltan í rétta hæð og átt til að tryggja að hver frammistaða sé fullkomin fyrir myndavélarnar.

„Stundum kemur sú staða upp að listamaðurinn vill vera í öðrum skóm fyrir stóra kvöldið,“ segir Van Rouwendaal. „En ef það gerist þá er hljóðnemastandurinn í rangri hæð, þannig að við erum með vandamál sem þarf að leysa.“ 

Áskoranir eru margar. Í keppninni í Tórínó á Ítalíu árið 2022 var sviðið 10 metrum hærra en baksviðssvæðið. Fyrir vikið þurftu starfsmenn að ýta þungum leikmunum á svið og af – þar á meðal vélrænu nauti – upp brattan ramp á milli atriða.

„Við vorum þreytt á hverju kvöldi. Þetta ár er betra. Við höfum meira að segja fengið aukatjald baksviðs þar sem við undirbúum leikmuni,“ segir Van Rouwendaal.

Leikmunir eru stór hluti af Eurovision. Hefðin hófst í annarri keppninni árið 1957, þegar hin þýska Margot Hielscher söng hluta af laginu sínu Telefon í síma. Síðustu áratugina hefur sviðsetningin orðið sífellt stærri og vandaðri. Árið 2014 festi Mariya Yaremchuk frá Úkraínu einn af dönsurum sínum í risastóru hamstrahjóli, meðan  Rúmenía mætti með fallbyssu árið 2017.

Í ár má meðal annars sjá diskókúlur, matvinnsluvél, sænskt gufubað og ljósakrónu.

„Það er í rauninni mikið átak að skipuleggja alla leikmunina,“ segir Damaris Reist, staðgengill framleiðsludeildar keppninnar í ár. „Þetta er allt skipulagt í eins konar hring, leikmunirnir koma inn á sviðið frá vinstri og eru síðan teknir af sviðinu til hægri. Baksviðs er leikmunum sem notaðir hafa verið ýtt aftast í röðina og svo framvegis. Þetta er allt mikið skipulag.“

Atriði Bretlands.

„Smyglleiðir“

Til að auðvelda teyminu vinnuna þá eru nokkrir leynilegir gangar og „smyglleiðir“ til að koma leikmunum inn og út af sviðinu, sérstaklega þegar atriði þarf nýja leikmuni í miðjum flutningi. 

Nefna má sem dæmi atriði hins breska Sam Ryder árið 2022 þar sem hann var einn á sviðinu að syngja og allt í einu birtist rafmagnsgítar sem Ryder byrjaði að spila á. „Ég er töframaður,“ segir van Rouwendaal hlæjandi. „Nei, nei, þetta var samstarf myndatökustjórans, bresku sendinefndarinnar og sviðsteymisins.“ Með öðrum orðum, van Rouwendaal skaust á sviðið með gítarinn í hendi á meðan leikstjórinn skaut í vítt skot og leyndi nærveru van Rouwendaal fyrir áhorfendum heima.

„Útsendingu er leikstýrt upp á millimetra,“ segir hann. „Við erum ekki ósýnileg, en við verðum að vera ósýnileg.“

Hvað ef allt fer úrskeiðis?

„Það eru ákveðnar brellur sem áhorfendur munu aldrei taka eftir,“ segir Van Rouwendaal.

Ef hann tilkynnir „sviðið ekki klárt“ í míkrafóninn þá lætur útsendingarstjórinn taka skot yfir áhorfendur, eða slíkt skot er lengt. Ef óhapp verðir– „myndavél getur brotnað, leikmunur geta dottið“ – þá er klippt yfir til kynningaraðila í græna herberginu, sem getur fyllt upp í nokkrar mínútur í útsendingu.

Í stjórnklefanum spilar upptaka af lokaæfingunni í takt við beina útsenindu, sem gerir útsendingarstjóra kleift að skipta yfir í upptekið myndefni ef upp koma stórvægileg atvik eða óhöpp.

Sjónrænn galli er þó ekki nóg til að kveikja á upptöku, líkt og Zoë Më frá Sviss komst að því í fyrri undankeppninni í ár. Flutningur hennar var rofinn í stutta stund þegar straumurinn frá myndavél á sviðinu fraus, en framleiðendur klipptu einfaldlega í breitt skot þar til það var lagað. „Það er í raun verið að grípa til fjölda aðgerða til að tryggja að hægt sé að sýna hvern flutning á sem bestan hátt,“ segir Reist.

„Það er fólk sem kann regluverkið utanbókar, hefur verið að spila í gegnum það sem gæti gerst og hvað við myndum gera í ýmsum aðstæðum. Ég mun sitja við hliðina á framleiðslustjóranum okkar og ef það koma upp aðstæður þar sem einhver þarf að hlaupa, þá er það kannski ég!“

Það getur verið ótrúlega stressandi að setja upp þriggja tíma útsendingu í beinni útsendingu með þúsundum hreyfanlegra hluta. Á þessu ári hafa skipuleggjendur kynnt ráðstafanir til að vernda velferð flytjenda og föruneyta þeirra, þar á meðal æfingar fyrir luktum dyrum, lengri hlé á milli sýninga og að búa til „aftengt svæði“ þar sem myndavélar eru bannaðar.

Þrátt fyrir það segir Reist að hún hafi unnið hverja helgi undanfarna tvo mánuði, á meðan Van Rouwendaal og teymi hans eru reglulega að vinna 20 tíma vinnudag.

Vaktirnar eru svo langar að árið 2008 byggði Eurovision framleiðslugoðsögnin Ola Melzig pláss undir sviðinu með sófa, PS3 leikjatölvu og tveimur espressóvélum.

„Ég er ekki með falda aðstöðu eins og Óla. Ég er ekki kominn á það stig ennþá!“ hlær Van Rouwendaal

„En baksviðs er ég kominn með pláss með teyminu mínu. Í síðustu viku var konungsdagur í Hollandi, svo ég bakaði pönnukökur fyrir alla. Ég reyni að gera þetta skemmtilegt. Stundum förum við út og fáum okkur í glas og gleðjumst því við áttum frábæran dag. Já, við verðum að vera á toppnum, og við verðum að vera mjög einbeitt, en að skemmta okkur saman er líka mjög mikilvægt.“

Og ef allt gengur að óskum muntu ekki sjá Van Rouwendaal og teymi hans þegar þú horfir á lokakvöld Eyrovision.

Hér eru nokkur atriði í ár sem nýta leikmuni:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Egill birti þras sem skapaði líflegar rökræður – „Það fer ofsalega í taugarnar á mér þegar byrjað er að slá gras“

Egill birti þras sem skapaði líflegar rökræður – „Það fer ofsalega í taugarnar á mér þegar byrjað er að slá gras“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Áhrifavaldur sætir harðri gagnrýni: „Þetta er bókstaflega hættulegasta kynjaveisla sem ég hef séð“

Áhrifavaldur sætir harðri gagnrýni: „Þetta er bókstaflega hættulegasta kynjaveisla sem ég hef séð“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nágranni Einars kvartaði mikið undan uppátækjum hans – Brá heldur í brún þegar hann leit út um eldhúsgluggann

Nágranni Einars kvartaði mikið undan uppátækjum hans – Brá heldur í brún þegar hann leit út um eldhúsgluggann
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aðsend grein: Heyrir þú raddir?

Aðsend grein: Heyrir þú raddir?