Góðgerðarfélagið Lífskraftur í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, 66°Norður og Krabbameinsfélagið standa fyrir Lífskraftsdeginum sem haldinn verður þann 28.september næstkomandi í landi Helgafells í Hafnarfirði. Markmiðið með deginum er að sýna samstöðu gegn krabbameinum ásamt því að minna á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu meðan á veikindum stendur og/eða eftir veikindi. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar opnar dagskránna kl 10 og fulltrúar Krabbameinsfélagsins og Lífskrafts munu segja nokkur orð. Snjódrífurnar sem standa að baki Lífskrafti munu leiða gönguleið, hlaupaleið og hjólaleið og munu allir hóparnir leggja af stað kl. 10:30 við bílastæðið við Helgafell. Gestir og gangandi eru hvattir til að taka þátt og finna sinn lífskraft.
Bleika Lífsskraftspeysan verður til sölu meðan á viðburðinum stendur en hún er framleidd af 66°Norður. Allur ágóði af sölunni rennur til forvarnarverkefna á vegum Krabbameinsfélagsins á leghálskrabbameini.
„Það var frábært að heyra að Lífskraftur skyldi ákveða að styrkja Krabbameinsfélagið í ár. Markmið félaganna fara svo sannarlega saman því Lífskraftur leggur áherslu á hreyfingu sem hefur heilmikið forvarnargildi gegn fjölda krabbameina auk þess að bæta líðan fólks með krabbamein og að lokinni krabbameinsmeðferð. Markmið Krabbameinsfélagsins eru mjög skýr, að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa af og að bæta lífsgæði þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra. Hreyfing hjálpar til við að ná öllum þessum markmiðum. Takk kærlega fyrir – kæru Lífskraftskonur og vonandi verður Helgarfellið allt iðandi af fólki á hreyfingu,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins
„Það er aðdáunarvert þegar fólk tekur sig saman og lætur samfélag sitt sig varða rétt eins og Snjódrífurnar gera með Lífskraftsdeginum. Framtak þeirra og samstaða gegn krabbameini minnir okkur á mikilvægi þess að hreyfa sig og lifa heilbrigðu lífi sem og að styðja við góð málefni. Heilsubærinn Hafnarfjörður tekur stoltur þátt í þessu verkefni nú þegar Snjódrífurnar halda viðburð sinn í hafnfirskri náttúru. Þetta er gott tækifæri til að styrkja sig og styðja við mikilvægt málefni og hvet ég sem flesta til að taka þátt í skemmtilegri og gefandi útiveru,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar
„Það er nauðsynlegt að efla og styrkja Lífskraftinn sinn með hreyfingu. Útivist er frábær leið til þess og erum við svo ótrúlega heppin að búa í landi sem býður upp á magnaða náttúru í bakgarðinum okkar. Með því að stunda reglulega hreyfingu og huga að heilbrigðum lífstíl erum við að sinna forvörnum og bæta lífsgæðin okkar um ókomna tíð. Við vonum að sem flestir mæti og hreyfi sig með okkur til stuðnings baráttunnar gegn krabbameinum,“ segir Sirrý Ágústsdóttir Snjódrífa og stofnandi Lífskrafts.