Leikarinn Sean Penn hefur loksins ákveðið að opinbera skoðun sína á Óskarslöðrungnum fræga, reyndar rúmu ári eftir að atvikið alræmda átti sér stað en víst er seint betra en aldrei. Umræddur kinnhestur var rekinn á Óskarsverðlaunahátíðinni í kjölfar þess að grínistinn Chris Rock hæddist að blettaskalla leikkonunnar Jada Pinkett Smith. Það var eiginmaður Jada, Will Smith, sem beitti ofbeldinu eftir að hafa gargað yfir salinn að grínistanum væri ekki heimilt að hæðast að konu hans. Will reis í kjölfarið á fætur og strunsaði upp á svið hátíðarinnar og löðrungaði forviða grínistann.
Segja má að skellurinn frá högginu hafi heyrst um heiminn og átti málið eftir að draga töluverðan dilk á eftir sér og þurfti Will í kjölfarið að skríða á hnjánum til að komast aftur í náðina, en hann mun þó enn eiga nokkuð í land með að bæta ráð sitt.
Sean Penn hefur nú tjáð sig um löðrunginn, þó seint sé, en umræðuefnið kom upp þegar Sean var að lýsa yfir óánægju sinni með að Úkraínuforseta Volodimýr Zelenskí var ekki leyft að fara með ræðu á Óskarnum. Sean Penn er mikill talsmaður Úkraínu í stríði þeirra við Rússland.
„Framleiðendur á Óskarsverðlaunahátíðinni hugsuðu – Oh þessi Zelenskí er ekki nógu léttur og hress. Og hvað fékk fólkið í staðinn? Will Smith,“ sagði Sean við Variety og mun hann hafa roðnað af reiði er hann rifjaði þetta upp.
„Ég þekki Will Smith ekki neitt. Ég hef bara hitt hann einu sinni. Hann virkaði skemmtilegur þegar við hittumst og hann var helvíti góður í myndinni King Richard. Svo hvers vegna þurfti hann að drulla á sig og á alla aðra með þessari helvítis uppákomu. Hvers vegna fór ég í fangelsi fyrir að gera það sama og hann? Og hann er bara ennþá hérna? Hvers vegna eru allir að standa og klappa fyrir verstu stund hans sem manneskju?“
Vísaði Sean þar til þess þegar hann var handtekinn og hnepptur í fangelsi árið 1987 fyrir að kýla aukaleikara í kvikmynd sem hann lék í.
„Þetta djöfulsins kjaftæði hefði ekki átt sér stað hjá Zelenskí. Will Smith hefði aldrei staðið upp úr sæti sínu til að fremja heimskulega líkamsárás. Þetta hefði aldrei gerst,“ sagði Sean sem sagðist það súr yfir uppákomunni að hann sjái ekkert annað í stöðunni en að taka óskarsverðlaunin sem hann hefur hlotið og eyðileggja þau.
„Ég hugsaði – Fjárinn, skiljið þið? Ég ákvað að gefa þau til Úkraínu. Þar má bræða stytturnar og nota í skot sem þeir geta skotið á Rússa,“ sagði Sean svo.
Sean gerði þetta að veruleika síðasta haust þegar hann skellti sér til Úkraínu og gaf Zelenski aðra styttuna sína. Í staðinn fékk hann heiðursorðu frá forsetanum. Leikarinn taldi þetta góð skipti.