„Þessa nótt gat ég ekki meira, fór því fram úr rúminu og klæddi mig í fötin án þess að eiginkonan og Snúlli rumskuðu. Að því búnu gekk ég fram, ritaði stutt kveðjubréf, sem ég skyldi eftir á eldhúsborðinu, og læddist loks út úr íbúðinni.“ Þessi orð skrifar Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur í grein sinni í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar, um eina af fjölmörgum sjálfsvígstilraunum sínum.
Í greininni kemur fram að hann hafi verið uppfullur af slíkri örvæntingu að hann ákvað að feta í fótspor ógæfumanns úr ljóði Arnars Arnarssonar, „Martröð“, en þó ekki fyrr en ég hafði hugleitt kvæðið í skamma stund, sérstaklega annað erindið sem hljóðar svo:
Svalt er í sjónum,
sefur þar enginn rótt.
krabbar með klónum
klipu mig dag og nótt.
Týndi ég höfði og hönd
í hafölduróti.
Bylgjur, sem ber að strönd,
berja mig grjóti.
Þær berja mig grjóti.
„Ég lét drungalegt innihald ljóðsins ekki aftra mér, klæddi mig úr fötunum, braut þau saman í snyrtilega hrúgu á brúnni og stökk út í helkalt djúpið. Ég fann hvernig boðaföllin báru mig hratt út eftir voginum á sama tíma og ískaldar greipar hafsins reyndu að toga mig undir yfirborðið. Ægir og maðurinn með ljáinn höfðu sem betur fer ekki erindi sem erfiði því áður en kuldinn dró úr mér allan mátt skutust upp í hugann myndir af fjölskyldunni og ákvað ég þá að gefa lífinu enn eitt tækifæri. komst ég við illan leik að landi, klifraði upp grýttan og brattan bakkann og gekk skjálfandi að brúnni. Þar klæddi ég mig í fötin og rölti niðurlútur heim. Þegar þangað kom reif ég kveðjubréfið, klæddi mig úr fötunum og lagðist upp í rúmið án þess að eiginkonan rumskaði. Ég sagði henni frá atburðinum einhverjum dögum síðar,“ skrifar Steindór.
Steindór hefur glímt við mikið þunglyndi um árabil og hefur fengið takmarkaða og oft ranga þjónustu í heilbrigðiskerfinu í gegnum árin. Hann var gestur í Helgi-spjalli Samstöðarinnar þar sem hann ræddi við Gunnar Smára Egilsson um líf sitt, áföllin, veikindi, sjálfsvígshugsanir og þrautagöngu innan heilbrigðiskerfisins en líka vonina og gjafir lífsins.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.