Þegar farið er í brúðkaup heyrast oftar en ekki sömu lögin þegar gleðin tekur völd og fólk fer að týnast á dansgólfið. Þetta eru oftar en ekki stuðmiklir slagarar þar sem ástin kemur við sögu með einum eða öðrum hætti.
Vefsíðan Breezit sem sérhæfir sig í ýmsu sem tengist brúðkaupum lagðist í smá rannsóknarvinnu fyrir skemmstu þar sem skoðaðir voru spilunarlistar á Spotify sem settir hafa verið saman fyrir brúðkaupsveislur. Var markmiðið að skoða hver vinsælustu lögin eru í brúðkaupum.
Það er skemmst frá því að segja að það lag sem oftast rataði á listana var 80‘s slagarinn I Wanna Dance With Somebody með Whitney Houston.
Á 2.000 listum sem skoðaðir voru þetta lag að finna á 484 listum. Á listunum var samtals að finna 40.091 lag.
Í öðru sæti á listanum var lagið Dancing Queen með Abba en lagið kom út árið 1976. Dancing Queen var að finna á 394 listum. Það kemur kannski einhverjum á óvart að lagið í þriðja sæti er eftir bandaríska tónlistarmanninn Usher og kom út árið 2004. Um er að ræða einn af hans helstu smellum, Yeah! en með honum í laginu eru Lil Jon og Ludacris.