Kvíaholtsbræður á Mýrum, Eyjólfur Ágúst, 16 ára, og Jóhannes Þór, 18, ára, Hjörleifssynir, hafa verið með hár sitt bleikt allan októbermánuð.
Jóhannes er á þriðja ári í vélstjórnarnámi í VMA og í október fyrir tveimur árum spreyjaði hann einnig hár sitt bleikt. Eyjólfur hóf nám í VMA núna í haust og er í grunndeild málmiðnaðar. Í framhaldinu stefnir hann líka í vélstjórn. Þeim bræðrum, sem báðir búa á Heimavist VMA og MA, vilja með bleika hárinu minna á mikilvægi þess að styðja við bakið á konum sem hafa greinst með krabbamein og efla forvarnir gegn krabbameini.
„Hvers vegna ákváðuð þið að lita hárið bleikt í þessum mánuði?“
Vegna þess að okkur þykir ósköp vænt um bestu mömmu í heimi og viljum síýna henni og öðrum konum sem glíma við krabbamein að við stöndum með þeim í blíðu og stríðu. Mamma greindist í fyrra skiptið árið 2016 og markaði það upphaf stærðarinnar kafla í okkar lífi lituðum af krabbameini, húmor, sorg, gleði og erfiðleikum. Það er mikilvægt að sýna þeim sem standa manni næst að maður sé alltaf til staðar. Mjög gott að segja það, en best að láta gjörðirnar tala,“ segja bræðurnir í samtali við DV.
„Fólki finnst þetta mjög flott hjá okkur,“ segja þeir aðspurðir um hvaða viðbrögð bleika hárið hefur fengið. „Viðbrögðin hafa verið góð og langflestir sem hafa minnst á hárið finnst það frábært að við skulum gera þetta fyrir mömmu. Stundum erum við spurðir kaldhæðnislega af hverju við séum með bleikt hár en svo þegar að maður segir bleikur október eða að mamma sé með krabba þá roðnar fólk hressilega og segir okkur góða fyrir að gera þetta.“
„Hversu mikilvægt er að sýna samstöðu á Bleika deginum?“
„Við erum aðstandendur og vitum því ekki hvernig það er að vera með krabbamein en við vitum hversu þreytt mamma getur verið á erfiðum dögum og hversu mikið þetta tekur á líkama og sál. Við viljum létta þungann með því að sýna henni hversu mikið við erum með henni og öðrum í lið. Látum dæluna ganga og stöndum saman við bakið á þeim sem glíma við krabbamein.“
#látumdælunaganga
Móðir þeirra bræðra, Anna Dröfn, er á Instagram og hvetja þeir bræður fólk til að fylgjast með móður sinni. „Ef að fólk vill fylgjast með mömmu og fá keiminn af undarlegu heimilislífi með tvo hunda, kött, kindur og krabbamein þá getur það kíkt á instagram hjá mömmu og skoðað.“
View this post on Instagram