Raunveruleikastjarnan og snyrtivörumógullinn Kylie Jenner tilkynnti á Instagram í gær að sonur hennar heitir ekki lengur Wolf.
Kylie og rapparinn Travis Scott buðu annað barn sitt velkomið í heiminn þann 2. febrúar síðastliðinn. Hann fékk nafnið Wolf en að sögn Kylie fannst foreldrunum nafnið ekki passa við hann eftir að hafa kynnst honum betur.
„Bara svo þið vitið þá heitir sonur okkar ekki Wolf lengur. Okkur fannst bara eins og þetta væri ekki bara hann,“ sagði hún og bætti við að hún vildi koma þessu á framfæri þar sem hún sér nafnið Wolf alls staðar þegar það er verið að tala um son þeirra.
Kylie opinberaði ekki nýja nafnið en birti nýtt YouTube-myndband tileinkað syni þeirra. Þau gerðu það sama þegar dóttir þeirra, Stormi, kom í heiminn. Hún varð fjögurra ára þann 1. febrúar síðastliðinn.