„Ég hélt að foreldrar mínir væru í fullkomnu hjónabandi,“ segir 17 ára drengur í bréfi sem hann sendi á kynlífs- og sambandsráðgjafa The Sun. Drengurinn komst nýlega að því að hið fullkomna hjónaband foreldranna er byggt á lygum. „Ég komst að því að pabbi minn er að halda framhjá.“
Sonur hjónanna útskýrir fyrir ráðgjafanum hvernig staðan er. „Ég er 17 ára drengur, mamma er 45 ára og pabbi er 51 árs. Ég vildi alltaf vera í sambandi eins og þau, alltaf kúrandi með hvoru öðru og alltaf að gera grín saman,“ segir hann.
„Mamma vinnur oft að heiman og pabbi hefur verið að koma seint heim á hverju kvöldi. Í morgunmatnum í gær var hann fastur í símanum. Þegar hann fór að klæða sig sá ég tilkynningu frá konu sem hann vinnur með á símanum hans. Ég kafnaði næstum því þegar ég las það sem stóð í skilaboðunum,“ segir drengurinn en skilaboðin báru augljósan vott um viðreynslu.
Drengurinn veit nú ekki hvað hann á að gera og leitar því ráða hjá ráðgjafa The Sun. „Ég veit að ég hefði ekki átt að gera það en ég skoðaði símann hans betur – lykilorðið hans hefur alltaf verið afmælið mitt – og út frá helling af skilaboðum frá henni er það á kristaltæru að hann er að halda framhjá mömmu með henni. Ég get ekki horft á hann. Á ég að koma upp um hann? Á ég að segja mömmu frá þessu? Eða á ég að halda þessu fyrir sjálfan mig?
„Segðu honum hvað þú sást“
Ráðgjafi The Sun svarar honum og segir hvað hann getur gert. „Þó svo að þú ættir auðvitað ekki að fara í síma pabba þíns þá geturðu auðvitað ekki gleymt því sem þú sást þar. Auðvitað veistu ekki hvað er í raun og veru í gangi á milli foreldra þinna en það að vita af framhjáhaldi hjá pabba sínum getur haft gríðarlega slæm áhrif,“ segir ráðgjafinn.
„Segðu honum hvað þú sást og biddu hann um að hætta framhjáhaldinu og einbeita sér að hjónabandinu. Ef hann getur ekki gert það, þá verður hann að koma hreint fram og segja mömmu þinni frá þessu,“ segir ráðgjafinn svo og bendir honum að það geti hjálpað að tala við hjálparlínu um málið.