fbpx
Sunnudagur 29.nóvember 2020
Fókus

Hrönn í Bretlandi: „Hér er ótrúlegur fjöldi ungs, heilbrigðs fólks sem hefur látist af völdum Covid“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 13. nóvember 2020 12:53

Hrönn Harðardóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrönn Harðardóttir, sem margir landsmenn þekkja úr The Biggest Loser Ísland, hefur búið í Brighton í Bretlandi í tæp fjögur ár. Þann 5. nóvember tók mánaðarlangt útgöngubann gildi í Bretlandi.

Við heyrðum í Hrönn sem sagði núverandi útgöngubann vera skárra en það sem tók gildi í mars og varði í sex vikur. Þá máttu Bretar fara út í aðeins eina klukkustund á dag.

Hrönn segir að það sé mikilvægt að halda góðri rútínu og minna sig á að það sé eðlilegt að líða alls konar, enda fordæmalausir tímar og skiljanlegt að fólk sé kvíðið.

Skrifstofan lokuð í tæpt ár

Hrönn vinnur hjá alþjóðlegu fyrirtæki sem aðstoðar ungt fólk alls staðar að úr heiminum við að koma í háskólanám til Bretlands.

„Eins og gefur að skilja hefur því heimsfaraldur gríðarleg áhrif á starfsemina þar sem hingað til hefur allt byggst á því að fólk geti ferðast á milli landa. Síðustu ár höfum við verið að aðstoða þúsundir nemenda á hverju ári og fjarkennsla hefur ekki verið í boði. Í febrúar/mars þurftum við að biðja alla þá nemendur sem mögulega gætu að fara heim og það þurfti að þróa og koma á laggirnar fjarkennslu á mettíma. Skrifstofum og skólum var lokað en í haust opnuðu skólarnir aftur en þó með takmarkaðri starfsemi og eins og er eru flestir nemendur enn að stunda námið frá sínu heimalandi,“ segir Hrönn.

Hrönn Harðardóttir. Aðsend mynd.

„Skrifstofunni minni var lokað í mars og verður ekki opnuð aftur fyrr en í fyrsta lagi í janúar. Ég gæti þó trúað að þegar hún opnar aftur verði þó allt með breyttum hætti. Það vinna almennt þrjú til fjögur hundruð manns í byggingunni og ég held það verði langt þar til við verðum öll aftur á staðnum á sama tíma. Líklega verður þessu skipt einhvern veginn upp og fólki boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma og möguleika á að halda áfram að vinna að heiman.“

Hrönn er með bakgrunn í markaðsfræði og fyrir utan sína hefðbundnu vinnu hefur hún og vinkona hennar á Íslandi verið að bjóða góðgerðafélögum og sjálfstæðum atvinnurekendum, sem hafa verið í vandræðum í þessu ástandi, upp á fría ráðgjöf varðandi markaðssetningu á samfélagsmiðlum.

„Svo hef ég líka verið með vikulega íslenskukennslu fyrir Breta sem er að flytja til Íslands á næsta ári svo ég hef nóg að gera,“ segir Hrönn.

Hrönn fór á skrifstofuna sína um daginn til að sækja nokkra hluti. „Það var heljarinnar ferli. Yfirmaður minn þurfti að biðja um leyfi fyrir mig, ég þurfti svo að senda póst til að fá úthlutað tíma þar sem ég þurfti að hitta öryggisvörð fyrir utan sem fylgdi mér síðan inn og um bygginguna og út aftur,“ segir hún.

Eðlilegt að líða alls konar

Aðspurð hvernig henni líður segir Hrönn að henni líði almennt vel.

„Þó að eðlilega sveiflist það aðeins. Ég hef verið mjög meðvituð frá því þetta byrjaði að passa upp á andlegu heilsuna mína en ég hef glímt við kvíða í mörg ár. Fyrsta útgöngubannið hér tók fyrst gildi í mars og varði í allavega sex vikur. Við máttum við fara út í klukkustund á dag og bara til að stunda hreyfingu. Lögreglan var á ferli og gaf fólki áminningar og jafnvel sektir ef það svo mikið sem tyllti sér á bekk í almenningsgarði. Á þessum tíma passaði ég mig mjög vel á að halda eins mikilli rútínu og mögulegt var, nota þennan klukkutíma sem maður hafði til að fara út, gera jógaæfingar heima, hugleiða, lesa og í rauninni hvað sem er til að hjálpa mér við að halda sönsum.“

Eins og fyrr segir tók nýtt útgöngubann gildi í Bretlandi þann 5. nóvember síðastliðinn. Það verður mánaðarlangt en er þó ekki jafn strangt og útgöngubannið sem var fyrr á árinu.

„Þetta er þó allt annað þar sem það eru engin takmörk á því hvað má vera mikið utandyra og það munar mjög miklu. Það má hitta eina aðra manneskju utandyra en þó halda fjarlægð, svo það er hægt að fara í göngutúr með vini. Það er þó almennt allt lokað nema matvöruverslanir, apótek og skólar,“ segir Hrönn.

„Eins og áður reyni ég að gera það sem ég get til að líða vel en það koma tímabil sem eru erfið og þá leyfi ég mér bara að eiga þannig daga. Það að vera komin í annað útgöngubann minnir mann á hversu alvarleg staðan er og það er því fullkomlega eðlilegt að vera lítill í sér, upplifa alls konar tilfinningar og líða alls konar. Ég reyni að einblína á það jákvæða og þakka fyrir það sem ég hef og yfirleitt gengur það bara nokkuð vel.“

Hrönn Harðardóttir. Aðsend mynd.

„Ótrúlegur fjöldi ungs, heilbrigðs fólks sem hefur látist af völdum Covid“

Hrönn segir að það sé erfitt að segja til um hvort að Bretar séu að taka vel á ástandinu eða ekki, og nefnir kost sem Íslendingar hafa umfram Breta.

„Ég held að eins og staðan er núna viti í rauninni enginn í heiminum hvernig rétt er að taka á þessu og ég er svo sannarlega enginn sérfræðingur. Aðgerðirnar hér hafa verið umdeildar, eins og hefur verið í flestum löndum held ég, og mikið af sjálfskipuðum sérfræðingum út um allt. En á meðan ég hef hvorki sérfræðiþekkinguna né forsendur til að meta hvernig best er að bregðast við þá fylgi ég bara þeim tilmælum sem við fáum. Mér finnst þó galli hér að ákvarðanirnar í tengslum við þetta finnst mér oft virka of pólitískar og stjórnvöld ekki fara eins mikið eftir ábendingum sérfræðinga. Þar held ég að Íslendingar séu að standa sig betur,“ segir Hrönn.

„Annars verðum við bara að muna að þetta er tímabundið ástand, það er heimsfaraldur og ef helsta vandamálið er að geta ekki ferðast eða að komast ekki í ræktina til dæmis þá getum við bara verið þakklát. Hér er ótrúlegur fjöldi ungs, heilbrigðs fólks sem hefur látist af völdum Covid svo á meðan ég hef heilsuna mína og fólkið mitt þá reyni ég bara að brosa og láta mig hlakka til þess tíma þegar ástandið batnar. Það er ekki þannig að stjórnvöld, sóttvarnarteymi eða sérfræðingar geti komið okkur út úr þessu, við þurfum öll að gera okkar og eins og er snýst það helst um að vera skynsamur og hlusta á sérfræðingana.“

Jólin

Hrönn vonast til að koma heim til Íslands um jólin.

„Ég er ekki búin að bóka flug enda er mikið verið að aflýsa flugum núna svo ég hef ákveðið að bíða aðeins með það. Ég var svo heppin að geta farið til Íslands í tíu vikur í sumar en ég vann bara þaðan og gat því átt góðan tíma með fólkinu mínu. Ég er mikið jólabarn svo tilhugsunin um að komast mögulega ekki heim um jólin er mjög erfið fyrir mig. En ég er enn þá vongóð um að ég komist, að flugin verði í lagi og verðið á þeim rjúki ekki upp úr öllu valdi. Svo ég krossa bara fingur og vona það besta,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Konan sem uppljóstraði um framhjáhald í Reykjavík Síðdegis fræg á ný – „Klárlega í topp 5“

Konan sem uppljóstraði um framhjáhald í Reykjavík Síðdegis fræg á ný – „Klárlega í topp 5“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðmundur glímdi við klám- og tölvuleikjafíkn

Guðmundur glímdi við klám- og tölvuleikjafíkn