Skúli Mogensen fyrrverandi forstjóri WOW air selur glæsihýsi sitt við Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnanesi. Húsið hefur verið auglýst til sölu á Oceanvillaiceland.com, en það virðist að síðan hafi aðeins verið stofnuð fyrir sölu hússins. MBL greinir frá.
„Ein af stórbrotnustu villum Íslands er nú til sölu,“ stendur á síðunni. Á síðunni er hægt að lesa ítarlega um húsið, staðsetninguna, hverfið og einnig er sér undirsíða um af hverju kaupandinn ætti að velja Ísland.
Húsið var byggt árið 2008 og er um 630 fm og á þremur hæðum. Það hefur verið í eigu Skúla síðan árið 2016.
Verðlaunaarkitektar Granda Studio hönnuðu húsið og voru Selma Ágústsdóttir og Gríma Björg Thorarensen innanhúshönnuðir hússins.
Í húsinu eru fimm baðherbergi, þrjú svefnherbergi, tvær stofur, fjölskylduherbergi og skrifstofa. En lúxusinn endar ekki þar, það er einnig kvikmyndasalur, líkamsræktarsalur, tveir nuddpottar og gufubað í húsinu.
Kaupverð er ekki gefið upp á síðunni né hverjir standa að sölunni. Stundin greindi frá því í desember 2018 að Skúli hafi veðsett húsið á tæplega 360 milljónir.
Sjáðu myndir af húsinu frá OceanVillaIceland.com.