Í byrjun júní síðastliðnum kynnti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur dýrtíðarráðstafanir sem beðið hafði verið með allnokkurri eftirvæntingu. Þegar þær voru loks gerðar heyrinkunnar varð ýmsum hugsað til orðskviðarins úr dæmisögum Esóps: fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús. Þarna var varla neitt markvert að finna en samt átti það ekki að koma neinum á óvart. Hinir þrír gerólíku flokkar gátu tekist á við farsóttina — það gekk bara út á að eyða sem mestu og skuldsetja ríkissjóð — en þeir eru ófærir um að ná samstöðu um raunverulegt aðhald í ríkisfjármálunum, til þess er stefna þeirra of ólík. Öllum tekjuaukanum er eytt jafnóðum og hallinn viðvarandi. Eins og sjá má af fjárlögum næsta árs er þeirri stefnu fylgt áfram og síðan væntanlega af auknum krafti með „kosningafjárlögum“ ársins 2025.
Segja má það sama um blaðamannafund ríkisstjórnarflokkanna í Eddu í gær; fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús. Þegar ætla hefði mátt að ráðist yrði í uppstokkun til að bæta „ásýnd“ alvarlega laskaðrar stjórnar varð breytingin í reynd nánast engin. „Okkur hlakkar [sic] til þess að klára þetta kjörtímabil,“ sagði formaður Framsóknarflokksins á fundinum í húsi íslenskunnar og aðrir frasar voru eftir þessu. Þarna kom ekkert nýtt fram, bara áfram tönnlast á því hvað flokkarnir væru ólíkir en hvað allt gengi nú samt vel. Kyrjaður sami söngurinn sem fyrr til að breiða yfir þann djúpstæða ágreining sem við öllum blasir.
Ýmsir hafa nefnt að með stólaskiptum innan ríkisstjórnar sé fjármálaráðherra í reynd ekki að axla ábyrgð á neinu. Þorsteinn Pálsson, fyrrv. forsætisráðherra, sagði að það yrði þá fyrsta „afsögnin án afsagnar“ í pistli hér á DV í liðinni viku. Stólaskipti væru hrókun og í manntafli væri hún „gerð til að koma kóngi í skjól. Hún er ekki fórn og sjaldgæf í endatafli“. Eitthvað sem skákmenn skilja.
Tvöfalt siðgæði
Ýmsir hafa rifjað upp að endalok hinnar skammlífu ríkisstjórnar Bjarna árið 2017 tengdust líka að nokkru Benedikt Sveinssyni, föður Bjarna. Nú mun væntanleg ævisaga afa Bjarna, Sveins Benediktssonar, stjórnarformanns Síldarverksmiðja ríkisins. Tilhlökkunarefni öllum áhugamönnum um þjóðmál og sögu tuttugustu aldar. Sveinn var sonur Benedikts Sveinssonar alþingismanns og bróðir Bjarna, prófessors, borgarstjóra og forsætisráðherra, sem við skulum til aðgreiningar kalla hér Bjarna eldri. Matthías Johannessen, fyrrv. ritstjóri, segir frá því í einum stað í hinum geysiefnismiklu dagbókum sínum að Bjarni eldri hafi eitt sinn komist svo að orði í samtali við sig að það væri „tvöfalt siðgæði í landinu. Eitt um okkur, annað um hina!“ og vísaði þar til þess gerðar væru harðari kröfur til sjálfstæðismanna en annarra. Ég held að það sé sitthvað til í því.
Ekkert bendir til annars en Bjarni yngri hafi verið grandlaus hvað varðar sölu á umræddum bréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka — það breytir þó ekki vanhæfinu. Aftur á móti vissi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mætavel hvað hún var að gera þegar hún tók ákvörðun um frestun hvalveiða í vor. Þar virðist hið minnsta hafa verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og nú styttist í niðurstöðu umboðsmanns vegna þess máls.
Hér mætti líka rifja upp þegar Svandís sem umhverfisráðherra, fyrir rúmum áratug, neitaði að staðfesta skipulag nokkurra hreppa við Þjórsá þar sem gert var ráð fyrir mjög hagkvæmri vatnsaflsvirkjun. Flestum sem til þekkja ber saman um að neitun Svandísar hafi í senn verið ómálefnaleg og til þess fallin að tefja fyrir mikilvægri uppbyggingu raforkukerfisins og þar með verðmætasköpun hér á landi. Í ljós kom að ákvörðun ráðherrans var ólögmæt og sú niðurstaða héraðsdóms var staðfest í Hæstarétti. Þegar ráðherrann hafði fengið á sig dóm á æðsta dómstigi sagði hann að uppi væri „túlkunarágreiningur“ um málið. Virðingin fyrir lögum og rétti var ekki meiri en það. Já, það er eitthvað til í orðum Bjarna gamla Ben um „tvöfalt siðgæði“ í landinu enda sitthvað álit umboðsmanns og dómur Hæstaréttar.
Skortur á fagmennsku?
Sú saga er sögð af Bjarna eldri að hann hafi einhverju sinni er hann var menntamálaráðherra 1953–1956 verið spurður hversu margir ynnu í ráðuneytinu. — „Helmingurinn,“ mun hann hafa svarað að bragði. Þetta er auðvitað hin gamalkunna saga af skorti á iðni hjá hinu opinbera, þar sem vantar upp á þann eðlislæga aga sem ríkir á frjálsum markaði. En við opinbera stjórnsýslu er ekki minna um vert að menn hafi til að bera hæfni til starfa og vinni af fagmennsku. Þar reynir ekki hvað síst á löglærða starfsmenn.
Þorsteinn Pálsson nefndi í greininni sem vísað var til að framan að vísbendingar væru uppi um veikleika í stjórnsýslunni hafi fjármálaráðherra verið ráðlagt að ekki þyrfti að gæta að hæfisreglum stjórnsýslulaga við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þorsteinn benti enn fremur á að fjármálaráðherra væri, þrátt fyrir álit umboðsmanns, þeirrar skoðunar að stjórnsýslulög hafi ekki átt við og að niðurstaða umboðsmanns væri röng — ástæða þess að hann yfirgæfi fjármálaráðuneytið væri að „skapa frið“ um störf þess. Og þar með væru sjálfstæðismenn búnir að koma Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra „í öruggt skjól“.
Ekki þarf einasta að skoða pólitískan þátt málsins heldur líka hina æðstu stjórnsýslu. Sá sem hér skrifar hefur ítrekað kynnst ófaglegum vinnubrögðum ýmissa opinberra stofnana sem sinna ekki erindum, misvirða margvíslegar reglur stjórnsýslu- og upplýsingalaga, virða að vettugi úrskurði, halda gögnum leyndum og þar fram eftir götunum og þetta er allt önnur og verri staða en í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við. En kannski er ekki að undra að slík sé staðan ef skortir á fagmennsku í æðstu stjórnsýslu — líkt og komnar eru fram vísbendingar um.
Og úr því að Bjarni yngri er orðinn utanríkisráðherra er ekki úr vegi að rifja upp orð Bjarna eldri, sem var utanríkisáðherra 1947–1949 og 1950–1953, þess efnis að virðing smáþjóða standi yfirleitt „í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna“. Ýmsir forystumenn þjóðarinnar hefðu mátt hafa þetta hugfast á umliðnum árum.