fbpx
Laugardagur 30.ágúst 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Átök í þingflokki Sjálfstæðismanna – gefa höfuðborgarsvæðið upp á bátinn

Eyjan
Laugardaginn 30. ágúst 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Loksins tókst Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Sjálfstæðisflokksins, að losa sig við Hildi Sverrisdóttur úr sæti þingflokksformanns, vonum seinna. Hildur tilheyrir þeirri fylkingu í þingflokknum sem hefur staðið gegn hinum nýja formanni flokksins. Þá varð Hildur, eins og raunar fleiri þingmenn flokksins, þ.m.t. formaðurinn og varaformaðurinn, sér til háborinnar skammar í málþófinu gegn leiðréttingu veiðigjalda í vor og sumar.

Orðið á götunni er að mikil átök hafi verið bak við tjöldin í þingflokki Sjálfstæðismanna allar götur frá því að Guðrún bar sigurorð af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í formannskjörinu snemma á þessu ári. Í tilkynningu Hildar á Facebook í gær um að hún myndi hætta sem þingflokksformaður til að forða átökum í þingflokknum mátti hæglega lesa milli línanna að átökin séu einmitt í hámarki nú. Svo tók það þingflokkinn hátt í tvo klukkutíma að afgreiða einfalda tillögu frá formanni um nýjan þingflokksformann. Ekki bendir það til þess að mikill friður og einhugur ríki í þingflokknum.

Orðið á götunni er að þessi þingflokksformannsskipti Sjálfstæðismanna séu stórpólitísk tíðindi. Nú hefur það gerst í fyrsta sinn í sögu Sjálfstæðisflokksins að í forystu flokksins er ekki einn einasti fulltrúi höfuðborgarsvæðisins þar sem milli 70 og 80 prósent þjóðarinnar búa. Sjálfstæðisflokkurinn er, líkt og Framsóknarflokkurinn, orðinn hreinn landsbyggðarflokkur og hefur í raun gefið höfuðborgarsvæðið upp á bátinn.

Fram til þessa hefur jafnan verið fulltrúi höfuðborgarsvæðisins í forystu flokksins. Formennirnir voru gjarnan fyrrum borgarstjórar. Má þar nefna Bjarna Benediktsson eldri, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson. Ólafur Thors var í Reykjaneskjördæmi og áður fyrir Gullbringu- og Kjós, sem telja má til höfuðborgarsvæðisins. Þorsteinn Pálsson var, líkt og Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti flokksins á Suðurlandi en varaformenn hans voru úr Reykjavík.

Orðið á götunni er að upp á ásjónu Sjálfstæðisflokksins hefði verið mun skynsamlegra hjá Guðrúnu að gera tillögu um reynslumikinn þingmann af höfuðborgarsvæðinu sem nýja þingflokksformann. Þar hefðu komið sterkast til greina Guðlaugur Þór Þórðarson, reynslumesti þingmaður flokksins, sem er í Reykjavík norður. Einnig hefði verið klókt hjá Guðrúnu að fá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur í þingflokksformennskuna. Hún hefur drjúga þingreynslu og er oddviti flokksins í Kraganum. Þess í stað kaus Guðrún að gera tillögu um Ólaf Adolfsson, nýgræðing á þingi. Ætla má að þingflokksformennska í Sjálfstæðisflokknum, sem er klofinn í fylkingar, verði mjög krefjandi starf ó komandi þingi sem búist er við að verði mikið átakaþing.

Orðið á götunni er að nú, þegar formaður flokksins er úr Suðurkjördæmi, varaformaðurinn úr Norðaustur og þingflokksformaðurinn úr Norðvestur hafi talsamband flokksins við þau 70-80 prósent þjóðarinnar sem búa á höfuðborgarsvæðinu nær rofnað og fá merki sjáist um að flokkurinn, sem jafnan var í kringum 40 prósent en er nú komin niður fyrir 20 prósent í fylgi, mundi sig til að ná vopnum sínum á nýjan leik.

Orðið á götunni er að öldur í þingflokki Sjálfstæðismanna hafa hvergi nærri lægt við þessar mannabreytingar. Innanmeinin eru enn til staðar þótt ljóst sé að Guðrún og Ólafur muni ganga betur saman í takt en Guðrún og Hildur gerðu.

Orðið á götunni er að bilið milli fylkinga í þingflokki Sjálfstæðismanna sé svo breytt að flokkurinn geti fátt annað en reynt að leggja alla áherslu á mál sem flestir þingmenn hans geti verið sammála um. Þau eru ekki mjög mörg. Eitt er að rífast og skammast út í ríkisstjórnina út af öllum mögulegum og ómögulegum hlutum. Gallinn við þá aðferðafræði er að ríkisstjórnin er mjög vinsæl og Sjálfstæðisflokkurinn mjög óvinsæll og slíkt nöldur fælir kjósendur frá flokknum.

Í málþófinu gegn leiðréttingu veiðigjalda höfðu flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sig mjög í frammi og varð það þeim og flokknum lítt til framdráttar enda sýna skoðanakannanir að mikill meirihluti þjóðarinnar, líka í sjávarplássunum sem Sjálfstæðismenn sögðust vera að verja, styður veiðigjöldin.

Orðið á götunni er að málið sem Sjálfstæðisflokkurinn muni leggja alla áherslu á á komandi þingi verði andstaða við allt sem evrópskt er, að ekki sé minnst á að þjóðin fái sjálf að ráða því hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram. Tónninn hefur verið gefinn í sumar. Þó er fólk í þingflokki Sjálfstæðismanna sem er ekki haldið algerri fóbíu gagnvart Evrópu eins og flestir þingmenn flokksins. Áhugavert verður að sjá hver einingin verður í þingflokknum í vetur og hver áhrifin verða á fylgi flokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hótel Saga: Hver ber ábyrgð á óráðsíunni?

Hótel Saga: Hver ber ábyrgð á óráðsíunni?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hótel Saga: Pólitísk hrossakaup – rándýrt menningarslys á Melunum

Hótel Saga: Pólitísk hrossakaup – rándýrt menningarslys á Melunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru