Orðið á götunni er að sorg og eftirsjá sumra fyrrverandi ráðherra, sem nú eru í áhrifalítilli stjórnarandstöðu sé áþreifanleg þessa dagana. Með harmrænum hætti horfa þeir brostnum augum aftur til fortíðar og grípa hvert tækifæri til að tjá sig opinberlega um um eftirmenn sína á ráðherrastólum og finna þeim allt til foráttu.
Einna mest áberandi í þessum hópi fyrrverandi forystumanna þjóðarinnar eru Sigurður Ingi Jóhannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson sem hafa gengið fram af jafnvel yfirvegaðasta fólki með hvers kyns upphlaupum og yfirlýsingum, sem oftar en ekki eru í góðri fjarlægð frá staðreyndum.
Orðið á götunni er að menn sem láta svona séu komnir á endapunkt síns stjórnmálaferils og að menn á borð við Guðlaug Þór hljóti að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að enda ferilinn á jákvæðari nótum, á eigin forsendum og með reisn frekar en að hrökklast nöldrandi og þvaðrandi af sviðinu.
Það er vel þekkt að þeir sem missa ráðherrastóla engjast yfirleitt í þinginu, svekktir í stjórnarandstöðu og sakna valdanna, aðstöðunnar, aðstoðarfólksins, bílstjórans og ferðalaganna til að hitta valdamenn heimsins og annað áhugavert fólk. Mörg eru dæmin um íslenska stjórnmálamenn sem þjáðust í þinginu eftir ráðherrastólsmissi. Eitt dæmi um það er Jón Baldvin Hannibalsson. Margir hafa gripið til þess ráðs að forða sér á eigin forsendum til að taka ekki út þessi leiðindi í þinginu. Dæmi um það eru Árni Mathiesen, Geir H. Haarde, Steingrímur Hermannsson, Halldór Ásgrímsson, Jóhanna Sigurðardóttir og núna Bjarni Benediktsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Telja mætti upp fleiri.
Pólitískur ferill Guðlaugs Þórs er orðinn langur. Hann hefur verið þingmaður frá 2003, í 22 ár, ráðherra í níu ár, formaður SUS, setið í borgarstjórn og verið formaður þingflokks um tíma. Hann hefur lagt sitt af mörkum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þjónað lengi. Hann gaf kost á sér til formennsku en tapaði með nokkrum naumindum fyrir sitjandi formanni. Orðið á götunni er að ólíklegt sé að hann reyni það aftur, ólíklegt sé að hann „nenni“ að sitja í valdalausri stjórnarandstöðu eftir svo langan og farsælan feril, en Guðlaugur Þór verður sextugur á yfirstandandi kjörtímabili.
Alkunna er að milli stjórnmálaflokkanna er þegjandi samkomulag um að vilji fyrrverandi forsætis- eða utanríkisráðherra fá framgang á vegum stjórnvalda, t.d. embætti sendiherra eða stuðning til embættis á alþjóðlegum vettvangi þá er slíkt í boði án nokkurra hindrana. Um slíkt eru fjölmörg dæmi, t.d. Jón Baldvin Hannibalsson sem varð sendiherra í Washington og síðar Helsinki. Nýrri dæmi eru Geir H. Haarde, sem Framsókn skipaði sem fulltrúa íslands í framkvæmdastjórn Alþjóðabankans, Árni Mathiesen, sem varð einn æðsti stjórnandi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna i Róm með stuðningi Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem komst til æðstu metorða innan Sameinuðu þjóðanna eftir að hún lét af störfum sem utanríkisráðherra. Nýjasta dæmið er reyndar það sem aldrei varð. Gunnar Bragi Sveinsson mun hafa handsalað það við Sjálfstæðismenn að hann yrði gerður að sendiherra en svo brá hann sér á Klaustur og á barinn sem frægt er.
Orðið á götunni er að það væri vel til fundið hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að skipa Guðlaug Þór sendiherra Íslands í Washington. Miklar blikur eru á lofti í alþjóðamálum og sendiráðið í Washington er stærsti og mikilvægasti pósturinn sem utanríkisþjónustan ráðstafar. Mikilvægt er að þar sitji þungavigtarmaður með víðtæka reynslu en svo er málum ekki háttað nú. Með slíkri ráðstöfun yrðu tvær flugur slegnar í einu höggi. Guðlaugi Þór yrði bjargað úr leiðindunum í valdalausri stjórnarandstöðu og Ísland fengi verðugan fulltrúa í Washington.
Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór væri vel sæmdur af því að taka við sendiráðinu í Washington og ekki sé við öðru að búast en að Þorgerður Katrín myndi taka vel í þetta.