Ný og stór skoðanakönnun Maskínu sem tekin var eftir að málþófinu um veiðigjöldin lauk sýnir að kjósendur vilja refsa stjórnarandstöðunni fyrir hið innihaldslausa og kjánalega málþóf sem flokkarnir stóðu fyrir og settu Íslandsmet. Fyrir þetta færa kjósendur þeim engar þakkir.
Skoðanakönnunin sýnir áframhaldandi gríðarlegt flug á fylgi Samfylkingarinnar og einnig að fylgi Viðreisnar hefur aukist frá kosningunum þann 30. nóvember sl. Samfylkingin mælist nú með 31,2 prósent fylgi í stað 20,8 prósenta í kosningunum sem er 50 prósent fylgisaukning. Það er stórkostlegur árangur í ljósi alls þess sem gengið hefur á, ekki síst gagnvart formanni flokksins og forsætisráðherra sem hefur mátt þola miklar og ómálefnalegar árásir. Fylgi Viðreisnar hefur einnig aukist frá kosningunum. Hins vegar hefur Flokkur fólksins tapað miklu enda hefur mikið gengið á hjá þeim. Fylgi Samfylkingar og Viðreisnar núna myndi væntanlega skila þeim samtals 34 þingmönnum ef þetta yrðu úrslit kosninga.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi frá kosningunum, fer úr 19,4 prósent í 18 prósent en flokkurinn hafði vænst þess að snúa af braut fylgishruns með formannsskiptum. Það er öðru nær. Miðflokkurinn fer úr 12,1 prósenta fylgi í kosningunum í 9,9 prósent núna. Framsókn mælist með 6,8 prósent en hafði 7,8 prósent í kosningunum sem var lang versti árangur flokksins í sögunni.
Orðið á götunni er að stjórnarandstaðan fái með þessari könnun endanlega falleinkunn vegna framkomu sinnar, málþófs og tafaleikja, sem kjósendur vilja ekki una við. Einnig má lesa út úr könnuninni að einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa virkað mjög illa í sínum kjördæmum en birt er sundurgreining á könnuninni, m.a. eftir kjördæmum. Hafi minnihlutaflokkarnir á þingi reiknað með því að málþófið yrði þeim til fylgisaukningar hlýtur niðurstaða þessarar vönduðu könnunar að vera þeim mikið áfall. Enn eitt. Nú er spurning hvort fólkið muni nota sumarleyfi til að endurmeta stöðu sína og flokka sinna í ljósi þessa.
Margt er mjög athyglisvert þegar litið er á sundurgreiningu könnunarinnar eftir fylgi flokka í kjördæmum. Þá kemur á daginn að Samfylkingin og Viðreisn eru samtals með meira en 50 prósent fylgi í Reykjavík. Það lofar sannarlega góðu fyrir þessa flokka í borgarstjórnarkosningum næsta vor, eftir 9 mánuði. Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur eru Samfylkingin og Viðreisn einnig með meira en 50 prósent fylgi samtals. Það lofar vitanlega einnig góðu fyrir þessa flokka í komandi sveitarstjórnarkosningum. Í fjölmennustu sveitarfélögunum á þessu svæði, Kópavogi og Hafnarfirði, ráða Sjálfstæðisflokkur og Framsókn nú ríkjum og Sjálfstæðisflokkurinn einn í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.
Í Reykjavík mælist Sjálfstæðisflokkurinn einungis með 17 prósent fylgi og í nágrenni Reykjavíkur 19 prósent fylgi. Þessar tölur hljóta að vekja mikinn ugg hjá forystu flokksins sem hefur gert sér vonir um viðsnúning í Reykjavík og byr í sveitarstjórnarkosningum. Ekkert bendir nú til þess.
Orðið á götunni er að fylgi einstakra flokka á landsbyggðinni hljóti að sæta tíðindum eftir allt sem á undan er gengið varðandi þann áróður að hækkun veiðigjalds væri árás á landsbyggðina og sveitarfélög hringinn í kringum landið. Miðað við niðurstöðu könnunar Maskínu taka kjósendur ekki undir þennan áróður. Eitt skýrasta dæmið um þetta er að Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með einungis 8,8 prósenta fylgi á Norðurlandi en þar leiðir varaformaður flokksins, Jens Garðar Helgason, lista flokksins og hafði sig mjög í frammi í málþófinu. Hann sagðist m.a. „líta á það sem heilaga skyldu sína“ að taka þátt í tafaleikjum og málþófi í allt sumar ef það þyrfti til að stöðva veiðigjaldalögin. Flokkur hans mælist hvergi á landinu með minni stuðning en þar sem hann er í forsvari. Jens Garðar ætti að hugsa sig vel um áður en hann tekur næst við fyrirmælum utan úr bæ. Margt fleira í þessari sundurliðun vekur athygli, t.d. gríðarlegt fylgi Samfylkingarinnar á Austurlandi en það nemur 40 prósentum samkvæmt könnuninni.
Könnun Maskínu var framkvæmd í tvennu lagi, dagana 4. til 10. júlí og svo dagana 18. til 23. júlí. Niðurstöður hennar sýna því hug kjósenda nákvæmlega eins og hann er núna.