fbpx
Miðvikudagur 23.júlí 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Staksteinar tilkynna um flokksmálgagn

Eyjan
Miðvikudaginn 23. júlí 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni ert að Staksteinum sé æði oft kastað úr glerhúsi. Staksteinar er ritstjórnardálkur hjá Morgunblaðinu og flytur því boðskap ritstjórnar blaðsins. Í gær útnefndi þessi ritstjórnardálkur miðilinn DV sem „flokksmálgagn Viðreisnar.“ Þetta fannst okkur á DV skemmtilegt enda kannast enginn á ritstjórn DV eða stjórn útgáfufélags okkar við að DV sé flokksmálgagn eins eða neins. En vilji menn benda á „flokksmálgögn“ þá blasir við að sjálft Morgunblaðið hlýtur að hafa talist flokksmálgagn þeirra flokka sem stóðu að vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur síðustu sjö árin.

Ætla hefði mátt að þeirri ríkisstjórn hefði verið styrkur í stuðningi þessa aldna dagblaðs. Annað kom á daginn í Alþingiskosningunum þann 30. nóvember 2024 þegar kjósendur höfnuðu ríkisstjórninni gjörsamlega – þrátt fyrir dyggan stuðning Morgunblaðsins. Örlög Vinstri grænna urðu þau að flokkurinn féll út af þingi og virðist nú vera úr sögu stjórnmála á Íslandi.

Það gerðist þrátt fyrir allan stuðning Morgunblaðsins við formanninn Katrínu Jakobsdóttur, fyrst í embætti forsætisráðherra og síðar í forsetakosningum sem hún tapaði, eins og alþjóð veit. Fylgi Vinstri grænna í kosningunum fór úr 10 prósentum niður í tvö prósent um leið og átta þingmenn flokksins féllu. Sjálfstæðisflokkurinn mátti sætta sig við lökustu niðurstöðu Alþingiskosninga frá upphafi og fékk 19 prósent greiddra atkvæða en var til skamms tíma með 35 til 40 prósent fylgi í öllum kosningum. Síðast 37 prósent árið 2007 þegar Geir Haarde leiddi flokkinn til sigurs. Framsókn galt afhroð, hlaut stuðning 7,8 prósenta kjósenda, fékk fimm menn kjörna en tapaði 8 þingsætum.

Ekki er að sjá annað en að Morgunblaðið sé enn þá flokksmálgagn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þótt flokkarnir hafi misst völdin og engist nú í óvinsælli stjórnarandstöðu. Til viðbótar við þetta sinnir blaðið linnulausum erindrekstri fyrir sægreifanna í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá er einnig hægt að líta þannig á að Bændablaðið, mest lesna blað þjóðarinnar, þjóni einnig sem flokksmálgagn Framsóknar og jafnvel Sjálfstæðisflokksins.

Orðið á götunni er að það sé mikið umhugsunarefni að helsti sigurvegari kosninganna, Samfylkingin, skuli ná sínum mikla árangri án þess að njóta stuðnings flokksmálgagns. Samfylkingin varð stærsti flokkur þjóðarinnar í kosningunum, fékk 21 prósent fylgi, 15 menn kjörna á Alþingi og bætti við sig 9 þingsætum. Viðreisn náði einnig glæsilegum árangri í kosningunum þann 30. nóvember sl. Flokkurinn hlaut 16 prósent fylgi, fékk 11 menn kjörna á þing og meira en tvöfaldaði þannig þingmannafjölda sinn frá síðustu kosningum.

Litið var þannig á að Viðreisn styddist ekki við flokksmálgagn – en nú hefur ritstjórn Morgunblaðsins úrskurðað að DV sé „flokksmálgagn Viðreisnar.“ Þó að okkur á DV sé ekki kunnugt um það þá hlýtur það að teljast góður árangur í ljósi þess mikla sigurs sem Viðreisn vann í kosningunum. Flokkur fólksins náði einnig glæsilegum árangri í kosningunum og bætti við sig fjórum þingsætum án þess að vitað sé um stuðnings flokksmálgagns. Þessir þrír sigurvegarar kosninganna mynda nú öfluga og samstiga ríkisstjórn sem hefur stuðning 36 þingmanna á bak við sig og mikinn hljómgrunn hjá þjóðinni.

Af þessu tilefni er full ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hlutverki og mikilvægi fjölmiðla í stjórnmálastarfi á Íslandi. Menn ættu að hrökkva við þegar við blasir að unnt er að vinna stóra kosningasigra án stuðnings „flokksmálgagna“ og að sama skapi blasir við að flokkar bíða ósigra, og gjalda jafnvel afhroð, þrátt fyrir dyggan stuðning slíkra málgagna.

Orðið á götunni er að svara við þessu sé að leita í þeirri staðreynd að ríkisfjölmiðilinn hefur fengið að dafna og þenjast út ár frá ári með ómældum skattpeningum frá ríkinu. Með átta milljörðum árlega skekktist samkeppnisstaða hinna fjölmiðlanna vitanlega úr öllu hófi. Þeir hafa týnt tölunni hver af öðrum. Það er helst að Morgunblaðið standi af sér storminn en það hefur ekki gerst hjálparlaust. Blaðið virtist njóta svo mikils álits í ríkisbanka á árunum 2009 og 2011 að Íslandsbanki, sem þá var í eigu íslenska ríkisins, felldi niður skuldir Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, að fjárhæð 10 milljarðar króna á núverandi verðlagi. Aðrir hefðu alveg getað notað slíkar fjárhæðir í samkeppninni ef þær hefðu verið í boði fyrir fleiri en Morgunblaðið!

Tíu milljarðar króna er vitanlega ótrúleg fjárhæð. Hreint lygileg. En hér er um staðreyndir að ræða. Í bók Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sem nú er alþingismaður Samfylkingarinnar, Í stríði og friði fréttamennskunnar, sem kom út haustið 2023, er greint frá því á bls. 72 að árið 2009 hafi Morgunblaðið fengið niðurfelldar skuldir að fjárhæð 4,5 milljarðar króna á verðlagi þess tíma hjá Íslandsbanka og árið 2011 hafi Morgunblaðið fengið niðurfelldar skuldir að fjárhæð 1,0 milljarður króna hjá sama ríkisbanka. Framreiknað til verðlags núna er þetta meira en 10 milljarðar króna. Sigmundur Ernir fjallar um þetta hrikalega mál á bls. 72 til 75 í fyrrnefndri bók sinni. Þar kemur m.a. fram að forystumenn Sjálfstæðisflokksins beittu sér gagnvart ríkisbankanum til að Árvakur fengi þessar gríðarlegu niðurfellingar skulda.

Orðið á götunni er að þetta geri það að verkum að unnt er að halda því fram með rökum að Mogginn hafi verið og sé ríkisrekinn! Ríkisfjölmiðlarnir séu því tveir en ekki einn!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gefur í skyn að formenn stjórnarandstöðunnar hafi lekið trúnaðarsamtölum formanna beint í SFS

Gefur í skyn að formenn stjórnarandstöðunnar hafi lekið trúnaðarsamtölum formanna beint í SFS
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan taldi sig hafa neitunarvald – hélt þinginu í gíslingu

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan taldi sig hafa neitunarvald – hélt þinginu í gíslingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vísar á bug sögum um ESB-baktjaldamakk – „Stórar ákvarðanir eru ekki teknar nema með aðkomu þings og þjóðar“

Vísar á bug sögum um ESB-baktjaldamakk – „Stórar ákvarðanir eru ekki teknar nema með aðkomu þings og þjóðar“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vaka stýrir COLLAB

Vaka stýrir COLLAB