Stjórnarandstaðan hjó mjög ómaklega í garð forseta Alþingis á síðasta þingdegi. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur lagt sig í líma við að vera forseti alls þingsins en varaforseti hefur ekki leyfi til að slíta þingfundi án heimildar frá þingforseta. Harkan í þinginu nú var meiri en áður hefur verið og stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma eigin málum að í þinglokasamningum heldur reyndi allt til að koma í veg fyrir að stjórnarmál kæmu til atkvæðagreiðslu. Málþófi og töfum var beitt í fjölda mála, ekki bara veiðigjaldamálinu. Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan Sigmar Gudmundsson 1
„Ég held að það hafi verið meiri átök núna á þessu þingi heldur en um langt árabil á Alþingi Íslendinga. Það er svo sem eðlilegt að þarna sé oft tekist mikið á en það var mikil harka í pólitíkinni núna þannig að ég held að það séu allir ánægðir með að komast í frí svona eins og gengur. Við auðvitað stóðum frammi fyrir því að þurfa að horfa á alveg yfirgengilegt málþóf í 160 klukkutíma og það litaði bæði niðurstöðu þinglokanna og bjó til þessa hörku líka,“ segir Sigmar.
Maður hefur ekki séð þetta áður. Ég hef fylgst með pólitík í mjög langan tíma, marga áratugi. Hingað til hefur verið skilningur hjá þeim sem eru í minnihluta, jú, menn geta þvælst aðeins fyrir, neytt ríkisstjórn til þess að forgangsraða málum, en á endanum er það ríkisstjórnin sem nær í gegn þeim málum sem hún virkilega ætlar að ná í gegn. Þarna virðist það bara ekki vera viðurkennt af stjórnarandstöðunni.
„Nei, ég þekki þetta hinum megin frá. Ég var þingflokksformaður í einum þinglokum og var varaformaður þingflokksins á síðasta kjörtímabili þannig að ég kom nú eitthvað að þessu. Bara svo ég útskýri hvernig við í Viðreisn nálguðumst okkar þinglok – við vorum oft að leggja áherslu á að ná bara í gegn einhverju þingmannamáli, einhverju máli sem við lögðum fram. Núna síðast var það hins vegar þannig að stjórnarandstaðan virtist hafa það efst í kollinum að allra náðarsamlegast ætla að hleypa einhverjum málum ríkisstjórnarinnar í atkvæðagreiðslu.“
Sigmar segir það mjög sérstakt að stjórnarandstaða stilli sér svona upp. Málþóf hafi verið í veiðigjöldunum en það sé ekki eina málið. „Við erum líka að tala um að það var málþæft mikið í Bókun 35 og það var talað mjög lengi í fullt af öðrum málum, óvenju lengi, það má nefna fríverslunarsamning sem var nokkra klukkutíma í umræðu, það var verið að ræða orkumál þar sem allir voru sammála, endalaus andsvör og ræður þar sem menn voru í tvo daga að tala um hvað þeir væru rosalega sammála málinu.“
Þetta er náttúrlega ein tegund af málþófi, þetta er tafaleikur.
„Þetta er ekkert annað heldur en það og þetta var bara viðvarandi í þinginu í allan vetur því miður. Það náði svo hápunkti í þessu veiðigjaldamáli. Svo gerist auðvitað alls konar á leiðinni sem býr til mikla hörku. Það strauk okkur stjórnarliðum mjög illa þegar Hildur Sverrisdóttir sleit þingfundi án þess að hafa til þess umboð frá forseta Alþingis.“
Það bara eru engin dæmi um slíkt.
„Nei, og mér fannst nú stjórnarandstaðan höggva ómaklega í forseta þingsins núna á síðasta deginum. Þórunn var mjög sáttfús eftir þetta. Við sáum það hvernig hún kom fram í fjölmiðlum daginn eftir og vildi ekki að það yrðu miklir eftirmálar af þessu, sem segir auðvitað það að hún er að reyna að vera forseti alls þingsins. Þeir forsetar sem eru á stóli slíta auðvitað ekki fundi þvert gegn vilja forseta þingsins.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.