Athygli vakti í gær að Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, birti færslu á Facebook í gær og sór af sér þátttöku í málþófi stjórnarandstöðunnar gegn veiðigjaldafrumvarpinu.
Orðið á götunni er að Halla Hrund hafi að sönnu haldið sig til hlés í samanburði við marga félaga sína í stjórnarandstöðunni en engu að síður virðist hún hafa haft ríka tjáningarþörf um veiðigjöldin því að samtals hafi hún komið í 23 skipti í ræðustól í fyrstu umræðu málsins að flytja ræður og andsvör. Í annarri umræðu kom Halla Hrund 45 sinnum í ræðustól að flytja ræður og andsvör í málinu.
Í fyrstu umræðu talaði Halla Hrund í hátt í klukkustund og í annarri umræðu, sem stóð yfir í 160 klukkustundir, talaði hún í rösklega klukkustund.
Orðið á götunni er að flokkist þessi ræðuhöld ekki undir málþóf hljóti þau hið minnsta að endurspegla mjög yfirgripsmikla umfjöllun um málið, jafnvel svo að einhver endurtekning hafi átt sér stað, líkt og henti marga stjórnarandstæðinga í þessari umræðu.
Orðið á götunni er að það sé góðra gjalda vert hjá Höllu Hrund að stíga nú fram, eftir að búið er að samþykkja frumvarpið í kjölfar þess að nauðsynlegt reyndist að beita lýðræðisákvæði þingskapalaga til að stöðva málþófið, og segjast ekki hafa tekið þátt í því en betur hefði farið á því að taka sér stöðu gegn málþófinu meðan á því stóð. Það gerði Halla Hrund ekki.
Orðið á götunni er að það séu ekki aðeins mestu orðhákarnir sem beri ábyrgð á málþófi heldur líka hinir, nytsamlegu sakleysingjarnir, sem dansa með þótt ekki skipi þeir sér í fylkingarbrjóst. Þannig sé þingmaður, sem talar í hátt í klukkutíma í fyrstu umræðu máls og sér svo ástæðu til að koma í annarri umræðu 45 sinnum upp í ræðustól til að tala í meira en klukkutíma, að öllum líkindum þátttakandi í málþófinu.
En vitaskuld má velta fyrir sér spurningunni: Hvenær tekur fólk þátt í málþófi og hvenær tekur það ekki þátt í málþófi?