Í síðustu ríkisstjórn hafði VG tögl og hagldir á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og forystu, í víðum skilningi. Það var þó ekki eina ástæða þess að stefna og málflutningur Sjálfstæðisflokksins sveigði af braut. Stjórnmálaflokkar eru tæki en ekki tilgangur í sjálfu sér og í Sjálfstæðisflokknum var þetta farið að líkjast trúarbrögðum eða íþróttafélagi, segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, sem er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Sigridur Andersen - 3
„Ég var ekki í framboði í þingkosningunum 2021. Svo fylgdist maður bara með þessum þingstörfum, m.a. lagasetningu, sambærilegri þeirri sem við erum búin að vera að ræða hér dágóða stund, og ýmsu öðru – og málflutningi Sjálfstæðismanna, vina minna og félaga þar. Þannig að ég sleit mig aldrei frá, ég var alltaf að fylgjast með þó að ég væri að sinna öðru,“ segir Sigríður.
Hún segir að þegar svo Miðflokkurinn hafi leitað til hennar um að fara fram fyrir flokkinn hafi henni fundist það að minnsta kosti einnar messu virði láta reyna á það og reyna að hjálpa Miðflokknum. Hún segist hafa fylgst vel með störfum Sigmundar Davíðs og Bergþórs Ólasonar á síðasta kjörtímabili og hafi viljað leggja þeim og öðru svipað þenkjandi fólki lið. reyna að berja í brestina m.a. í lagasetningu, vera ekki endalaust að setja lög heldur miklu frekar að stöðva þann stríða straum af misráðinni löggjöf frá Alþingi.
Hún segist ekki bera neinar sérstakar tilfinningar gagnvart Sjálfstæðisflokknum. „Ég hef margoft sagt: Stjórnmálaflokkar eru tæki en ekki tilgangur í sjálfu sér. Eitt af því sem mér fannst vera farið að brenna yfir um hjá félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum var að menn eru farnir að hugsa þetta sem trúarbrögð eða íþróttafélög. Menn bara voru hættir. Menn neituðu að horfast í augu við málflutninginn og stefnuna sem flokkurinn var að taka, beint og óbeint, í síðasta ríkisstjórnarsamstarfi, sem var ekki hægt að öllu leyti bara að kenna ríkisstjórnarsamstarfinu um, eða VG. Auðvitað var mjög mikið þannig þar sem VG hafði tögl og hagldir á Sjálfstæðisflokknum og á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og forystumönnum, í víðum skilningi. Það var nú bara þannig.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.