Kosning varaformanns hjá Miðflokkum virðist valda ótrúlegu stressi hjá þeim sem sækjast eftir stöðunni. Það er merkilegt í ljósi þess að fram til þessa hefur ekki þótt ástæða til að hafa varaformann í flokknum en nú er ætlunin að kjósa í þá stöðu á flokksfundi sem fer fram um helgina. Þrír þingmenn flokksins sækjast eftir kosningu og ekki er annað að sjá en að nokkur skjálfti hafi gripið um sig meðal þeirra þó að embættið sé ekki merkilegra en svo að það var talið óþarft fram að þessu.
Meðal frambjóðendanna er Bergþór Ólason, einn af hinum landsfrægu Klausturdónum sem flestir hafa komið sér fyrir í Miðflokkum. Á Klausturbar í næsta húsi við Alþingi sátu þeir að stífri drykkju nokkrir þingmenn Miðflokksins þegar þingfundir stóðu yfir og menn áttu að vera við störf á þeim vettvangi sem greiðir þeim launin. Þess í stað dunduðu þeir sér við að úthúða nafngreindu fólki og þá sér í lagi kvenfólki. Bergþór vék tímabundið af þingi en kom svo aftur eins og ekkert hefði í skorist og hélt áfram að vera frekur og orðljótur en nú úr ræðustól Alþingis. Fyrir þetta telur hann að flokksmenn ættu að verðlauna hann með varaformannsembætti. Hann veit vitanlega betur en flestir hvernig söfnuðurinn er saman settur og því líklegt að mörgum þyki hann hæfilegur kostur fyrir Miðflokkinn – sem virðist vera hálfgerður þursaflokkur.
Aðrir í framboði til varaformanns eru Snorri Másson, ungur lýðskrumari og öfgahægrimaður sem hefur ekki legið á skoðunum sínum sem fæstar falla fólki í geð – nema þá þeim söfnuði sem veðjar á Miðflokkinn. Þá gefur Ingibjörg Davíðsdóttir einnig kost á sér en hún er fyrrverandi sendiherra sem nokkrar vonir voru bundnar við. Hún gengisfelldi sjálfa sig með kjánalegri framkomu í málþófi stjórnarandstöðunnar síðasta vor. Henni var enginn greiði gerður þegar fjölmiðlar birtu „ræðu“ sem hún flutti í þinginu um veiðigjaldamálið sem var glórulaust bull, meðal annars um að þingmaður hefði helt yfir sig gosdrykk og þurft að skipta um föt af því tilefni. Þá varð mörgum ljóst að Ingibjörg myndi ekki sverja sig í ættir sem stórmenni eins og ættingjar hennar frá Arnbjargarlæk í Borgarfirði. Ljóst er að eitthvað hefur rofnað í tímans rás.
Orðið á götunni er að Bergþór hafi greinilega farið á taugum vegna þess að kosning hans er ekki örugg eins og hann bjóst við í upphafi. Því notaði hann pistil sem Morgunblaðið birtir í dag til að höfða til flokksmanna sinna í Þursaflokknum með því að tefla fram hreinum og grímulausum lygum og rangfærslum í anda þess sem Trump leyfir sér þegar hann er uppiskroppa með staðreyndir.
Orðrétt segir Bergþór í skrifum sínum: „Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur ákveðið að traðka á verðmætasköpun og atvinnufrelsi með því að hækka skatta, hækka gjöld og herða reglur … það er eins og ráðherrar hafi ákveðið að beita öllum tækjum ríkisvaldsins til að kreista síðustu krónuna út úr fólki og fyrirtækjum – sérstaklega þeim sem byggja á vinnu og frumkvæði í stað stöðugra styrkja.“
Þeir sem fylgjast með stjórnmálum á Íslandi vita að þessar staðhæfingar Bergþórs eru innantómt bull og væru engum þingmanni til sóma sem vildi reyna að láta taka sig alvarlega. En Bergþór er ekki að reyna að tala málefnalega. Hann notar daginn í dag til að tala til þess öfgafulla söfnuðar sem styður Miðflokkinn enn þá og mun hafa atkvæði á fundum helgarinnar hjá þeim. Sennilega gerir þessi hópur takmarkaðar kröfur til málefnalegrar umræðu og vill frekar heyra innantómar og innihaldslausar ávirðingar í anda Trumps þegar hann finnur sig í vörn. Bergþór er alveg að segja réttu hlutina við Þursaflokkinn sinn. Ætla má að hann verði kjörinn varaformaður og fái klapp á bakið fyrir alla frekjuna, dónaskapinn og bullið.
Orðið á götunni er að forystumenn Miðflokksins muni aldrei sjá þann draum sinn rætast að komast til valda í ríkisstjórn. Framkoma þeirra er með þeim hætti að aðrir flokkar treysta þeim ekki og vilja ekki vinna með þeim. Aðrir kostir koma ávallt langt á undan. Vitað er að Miðflokkurinn reyndi allt til að komast í ríkisstjórn eftir kosningarnar þann 30. nóvember á síðasta ári. En ekki var viðlit að aðrir stjórnmálamenn treystu þeim. Ekki hefur traustið aukist það sem af er þessu kjörtímabili.
Bergþór var einu sinni aðstoðarmaður samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sturlu Böðvarssonar, en Bergþór hafði verið varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Orðið á götunni er að honum hafi ekki boðist frekari frami í Sjálfstæðisflokknum og þá leitað á önnur mið og hert upp á öfgaskoðunum sínum og almennum dónaskap til að höfða til þess hluta kjósenda sem alltaf er til í að hlusta á slíkt.
Orðið á götunni er að engir hugsandi stjórnmálamenn vilji samstarf við söfnuð eins og Miðflokkinn, sjálfan Þursaflokk íslenskra stjórnmála.