fbpx
Mánudagur 06.október 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Hreinsanir í borgarstjórn – konur áfram í valdastöðum

Eyjan
Mánudaginn 6. október 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flest bendir til þess að líkja megi breytingum í borgarstjórn Reykjavíkur næsta vor við hreinsanir. Þegar liggur fyrir að ýmsir munu hætta að eigin ósk og enn fleiri falla út, ýmist vegna ákvarðana flokka þeirra eða í kosningunum sjálfum.

Orðið á götunni er að helmingur borgarfulltrúanna tuttugu og þriggja sé nær óþekktur og hafi sig lítið sem ekkert í frammi í störfum borgarinnar og í opinberri umræðu. Sífellt betur kemur í ljós að misráðið var að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23 á sínum tíma. Sú breyting hefur engu skilað öðru en kostnaði og auknu flækjustigi. Ekki er á neinn hallað þótt nefnd séu nöfn þeirra sem minnst hefur farið fyrir: Frá Framsókn hefur lítið heyrst í Aðalsteini Sverrissyni, Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur og Margréti Gná Jóhannsdóttur. Píratann Kristinn Jón Ólafsson hafa fáir orðið varir við, ekki frekar en sósíalistann Andreu Helgadóttur. Guðný Maja Riba í Samfylkingunni er fáum kunn og sama gildir um Björn Gíslason, Ragnhildi Vilhjálmsdóttur og Mörtu Guðjónsdóttur frá Sjálfstæðisflokki. Þá hefur Helga Þórðardóttir frá Flokki fólksins verið týnd eftir að hún tók við af Kolbrúnu Baldursdóttur, sem hafði reyndar verið óþarflega fyrirferðarmikil án sýnilegs erindis. Framangreindur hópur er tæpur helmingur núverandi borgarfulltrúa.

Ætla má að allt þetta fólk hverfi úr borgarstjórn, ásamt þeim borgarfulltrúum sem hafa þegar lýst því yfir að þeir gefi ekki kost á sér eins og Þórdís Lóa frá Viðreisn og Dóra Björt Guðjónsdóttir pírati. Þá eru ótaldir þeir sem margir telja að muni annaðhvort ekki ná stuðningi innan sinna flokka eða þá að kjósendur hafni þeim í kosningum. Hér er átt við Einar Þorsteinsson frá Framsókn, Hjálmar Sveinsson frá Samfylkingu, Kjartan Magnússon Sjálfstæðisflokki og Líf Magneudóttur frá hinum dauða flokki Vinstri grænum.

Orðið á götunni er að helstu forystumenn í meirihluta og minnihluta borgarstjórnar á næsta kjörtímabili verði einungis konur. Mikil ólga er í Sjálfstæðisflokknum varðandi forystuna í borginni. Þó að nefndir séu til sögunnar nokkrir gamlir og núverandi alþingismenn flokksins má ætla að Hildur Björnsdóttir, núverandi leiðtogi minnihlutans, verði í forsvari og taki með sér stuðningsmann sinn, Friðjón Friðjónsson en losi sig við flesta hinna og taki inn yngra og ferskara fólk til setu á listanum. Hildur verður áfram leiðtogi minnihlutans. Þá er gert ráð fyrir að Heiða Björk leiði Samfylkinguna áfram, haldi í Skúla Helgason en tefli fram nýju og ferskara fólki en nú er.

Viðreisn stillir upp nýju og öflugu liði undir forystu Bjargar Magnúsdóttur, þjóðþekktrar fjölmiðlakonu og rithöfundar. Ekki kæmi á óvart þótt Aðalsteinn Leifsson, fyrrverandi ríkissáttasemjari og núverandi aðstoðarmaður formanns flokksins, yrði í öðru sæti. Flokkur fólksins mun finna nýjan leiðtoga fyrir sinn lista og Sanna Magdalena Mörtudóttir finnur sér nýjan vettvang en hún verður alltaf endurkjörin hvar sem hún velur að bjóða sig fram, enda vinsæl meðal borgarbúa. Ætla má að Miðflokkurinn fái mann kjörinn í borgarstjórn. Vitað er að Vigdísi Hauksdóttur langar að ganga þar aftur en hún hrökklaðist út úr borgarstjórn síðast og þar áður af Alþingi. Minni kjósenda er hins vegar skammvinnt og nú telja margir að tími Vigdísar sé runninn upp á nýjan leik. Hún gæti alveg náð kjöri til setu í borgarstjórn ef Miðflokkurinn veðjar á hana að nýju.

Orðið á götunni er að þegar litið er til þeirra miklu vinsælda sem núverandi ríkisstjórn nýtur – á kostnað veikrar stjórnarandstöðu – megi ætla að það muni hafa talsverð áhrif á úrslit sveitarstjórnarkosninganna næsta vor. Í ljósi þess er því spáð að úrslit kosninganna í Reykjavík verði sem hér segir:

Samfylkingin fái sjö menn kjörna, Sjálfstæðisflokkur sex, Viðreisn fjóra, Píratar tvo, Sanna Magdalena tvo menn, Flokkur fólksins einn og Miðflokkurinn einn.

Orðið á götunni er að næsta borgarstjórn verði að líkindum skipuð meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins – þeirra sömu og mynda nú ríkisstjórn.

Eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík virðist því engan veginn lokið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Daði Már Kristófersson: Flokkarnir eru þrír og ólíkir en starfa saman eins og einn samhentur flokkur

Daði Már Kristófersson: Flokkarnir eru þrír og ólíkir en starfa saman eins og einn samhentur flokkur
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þórkatla skilar 18 milljarða tapi – Endurskoðendur segja óvissu ríkja um rekstrarhæfi félagsins

Þórkatla skilar 18 milljarða tapi – Endurskoðendur segja óvissu ríkja um rekstrarhæfi félagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

VG býður fram í eigin nafni í borginni – Svandís fer ekki aftur í borgarmálin

VG býður fram í eigin nafni í borginni – Svandís fer ekki aftur í borgarmálin
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Ólíkt hafast þeir að Guðmundur í Brim og Binni blanki

Orðið á götunni: Ólíkt hafast þeir að Guðmundur í Brim og Binni blanki
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orka hlýtur alþjóðleg markaðsverðlaun

Orka hlýtur alþjóðleg markaðsverðlaun
Eyjan
Fyrir 1 viku

Daði Már Kristófersson: Samsköttun hjóna vinnur gegn jöfnuði og nýtist fáum

Daði Már Kristófersson: Samsköttun hjóna vinnur gegn jöfnuði og nýtist fáum