Orðið á götunni er að fáir botni nú mikið í stjórnarandstöðunni sem í stað þess að hvíla lúin málbein eftir strangt þing og Íslandsmet í málþófi hefur áfram allt á hornum sér og sér samsæri í hverju horni.
Flestir hristu höfuðið í vantrú þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar hófu að teikna upp þá samsæriskenningu að heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, til landsins í síðustu viku væri hluti af lævísum áformum myrkraafla hér á landi og í Brüssel um að lauma Íslandi bakdyramegin inn í ESB.
Sigurður Ingi Jóhannsson úr Framsókn og Diljá Mist Einarsdóttir ruku til og kröfðust þess að fundur yrði tafarlaust boðaður í utanríkismálanefnd Alþingis vegna þeirra grafalvarlegu tíðinda að Ursula hefði komið hingað og fundað með forsætis- og utanríkisráðherra. Skikka þyrfti utanríkisráðherra til að sitja fyrir svörum og útskýra hvað væri eiginlega í gangi.
Fundurinn var haldinn og Sigurður Ingi ku hafa mætt þar til að hlusta á utanríkisráðherra. Það gerði Diljá Mist hins vegar ekki. Í hennar stað mætti Guðlaugur Þór Þórðarson á fundinn. Orðið á götunni er að það heyri til tíðinda að þingmaður, sem sjálfur krefst fundar í þingnefnd vegna þess sem nefnt er „brýnt og aðkallandi“ mál, skrópi svo á fundinum.
Sigurður Ingi mætti svo í Morgungluggann á Rás 2 á þriðjudagsmorgun til að ræða um fundinn og Evrópumál almennt. Orðið á götunni er að málflutningur hans hafi vakið almenna furðu og gefi tæplega til kynna að lýðræðisástin þvælist mikið fyrir formanni Framsóknarflokksins.
Helgi Seljan þráspurði Sigurð Inga út í það hvort hann væri á móti því að þjóðin fengi að ákveða framhaldið með aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig sem Helgi reyndi fékk hann ekki annað en orðhengla og útúrsnúninga frá þingmanninum sem þrástagaðist á því að stíga yrði varlega til jarðar og ekki mætti kljúfa þjóðina en svaraði engu efnislega.
Orðið á götunni er að greinilegt sé að eftir að veiðigjaldamálið tapaðist sé stjórnarandstaðan búin að velja sér nýtt baráttumál gegn ríkisstjórninni. Nú skuli keyrt af öllu afli gegn öllu því sem flokka megi sem Evrópumál og öllum meðulum beitt í þeim tilgangi, líkt og gert var í veiðigjaldamálinu.
Orðið á götunni er að stjórnarandstaðan eigi vísan stuðning bandamanna sinna úr veiðigjaldaslagnum í þessum nýja slag. Þegar sjást þess skýr merki að Morgunblaðið lætur ekki sitt eftir liggja við samsæriskenningarsmíðina og ekki hefur farið fram hjá neinum að Morgunblaðið stendur og situr eins og sægreifarnir vilja, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn og raunar öll stjórnarandstaðan.
Orðið á götunni er að vænta megi þess að barátta stjórnarandstöðunnar gegn því að þjóðin fái að ráða för í Evrópumálum reynist henni viðlíka hagsæl og baráttan gegn leiðréttingu veiðigjaldanna. Einkennilegt hvað þessi stórfurðulega stjórnarandstaða bregst aldrei vondum málstað.