Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins olli fjaðrafoki eftir að hún sleit þingfundi í gærkvöldi án umboðs forseta Alþingis.
Hildur segir í yfirlýsingu sem hún sendi fréttastofu RÚV að hún hafi verið í góðri trú.
„Sæll, almennt eru langir þingfundir til miðnættis. Forseti á ekki að gefa ræðumanni orðið heldur slíta fundi ef fullur ræðutími hans með andsvörum myndi ekki nást fyrir þann tíma. Hvorki forseti né nokkur annar hafði tjáð mér að til stæði að halda fund lengur en til miðnættis og því taldi ég mig vera að fylgja reglunum með því að að gefa ræðumanni ekki orðið sem hefði verið lengra en til miðnættis.“
Hildur hefur eins birt færslu á Facebook þar sem hún harmar að fundarstjórn hennar sem varaforseti hafi verið túlkuð sem valdránstilraun eða álíka. Hún segist eins harma að hafa valdið uppnámi en þvertekur fyrir að um samantekin ráð hennar og Bergþórs Ólasonar, Miðflokksmanns, hafi verið um að ræða.
„Mér þykir innilega leiðinlegt að fundarstjórn mín sem varaforseti í gærkvöldi sé túlkuð sem tilraun til valdaráns eða hvað það er sem ég heyri víða þennan morguninn. Í stuttu màli var það að sjàlfsögðu alls ekki ætlun mín.
Fyrir áhugasama um þetta fyrirkomulag þá eru langir þingfundir almennt til miðnættis. Varaforseti á ekki að gefa ræðumanni orðið heldur slíta fundi þegar fullur ræðutími hans með andsvörum myndi ekki nást fyrir þann tíma. Forsætisnefnd hefur ekki verið kölluð saman í vikunni og forseti hefur ekki haft samráð við varaforseta um lengd þingfunda. Hvorki forseti né nokkur annar hafði tjáð mér í gær að til stæði að halda fund lengur en til miðnættis. Því taldi ég mig vera að fylgja réttu fyrirkomulagi með því að slíta fundi í stað þess að gefa ræðumanni orðið sem hefði verið lengra en til miðnættis. Ég sumsé taldi mig vera að fylgja venjum þar sem næturfundir eru algjör undantekning og ég var ekki með neinar upplýsingar eða fyrirmæli forseta um annað. En ég hefði eftir á að hyggja að spyrjast fyrir í ljósi aðstæðna og þykir leitt að hafa ollið öllu þessu uppnámi.
Ég sé líka að Bergþór Ólason ku hafa rétt mér blað með fyrirmælum þessa efnis. Til upplýsinga þá var á því blaði dagskrártillaga stjórnarandstöðunnar um óundirbúnar fyrirspurnir svo stjórnarandstaðan geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Ég ótrúlegt en satt tek ekki við fyrirmælum frá Bergþóri Ólasyni, eins ágætur og hann er, heldur tek mínar ákvarðanir sjálf – sem eru svo misfarsælar eins og gengur.
Ljós og friður. “
Til umræðu voru veiðigjöldin og næstur í pontu samkvæmt mælendaskrá var Þorsteinn B. Sæmundsson með sína 3. ræðu. Ræðutími 3. ræðu er fimm mínútur samkvæmt þingskaparlögum og ekki er gert ráð fyrir andsvörum. Hildur sleit fundi klukkan 23:39 og því hefði Þorsteinn líklega getað klárað 3. ræðuna sína og jafnvel hefði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson náð að troða inn sinni 22. ræðu og Jens Garðar Helgason sinni 51. ræðu.
Uppfært: 13:00: Til að gæta sanngirni þá fengu aðrir þingmenn að veita andsvör eftir 3. ræðu Þorsteins á Alþingi í dag. Blaðamaður byggði ályktun sína af þingskaparlögum þar sem aðeins er fjallað um andsvör eftir 1. og 2. ræðu , sbr. 100. gr. um reglur um ræðutíma.
Stjórnarliðar hafa þar að auki ítrekað tekið fram á Alþingi í dag að Hildur hafi ekki haft umboð til að slíta fundi, enda var áætlað að fundað yrði fram á nótt.