fbpx
Þriðjudagur 17.september 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Loðna hlið samgöngusáttmálans

Eyjan
Fimmtudaginn 29. ágúst 2024 06:00

Undirritun samgöngusáttmálans 2019.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er merkilegt skjal fyrir margra hluta sakir.

  • Hann snýst um stórtækustu ríkisframkvæmdir í samgöngumálum, sem um getur.
  • Í honum felst gott jafnvægi milli fjárfestingar fyrir einkabíla og almenningssamgöngur þvert á það sem umræðan gefur til kynna.
  • Pólitískur stuðningur við sáttmálann er óvenju breiður en móthaldið líka óhefðbundið.
  • Tekjuöflunarhlið ríkissjóðs eftir endurskoðun er að því leyti loðnari en fyrir fimm árum að nú er formlega gert ráð fyrir því að næsta eða jafnvel þar næsta ríkisstjórn leysi erfiðasta hnútinn.

Ríkisframkvæmd

Þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var gerður fyrir fimm árum var umræðan þannig að halda mátti að um væri að ræða einhvers konar framkvæmdaáætlun borgarstjórnarmeirihlutans til að útrýma einkabílum í Reykjavík.

Nú þegar búið er að endurskoða sáttmálann er umræðan að hluta til enn á því plani.

Veruleikinn er hins vegar sá að hann felur í sér mjög gott jafnvægi milli fjárfestinga í umferðarmannvirkjum í þágu einkabíla og almenningssamgangna. Og ríkissjóður kostar nærri 90% framkvæmdanna með beinum framlögum og nýjum sköttum.

Ábyrgðarleysi

Fyrir rúmu ári og tveimur fjármálaráðherrum síðan hafði þáverandi fjármálaráðherra frumkvæði að umræðu um að sáttmálinn væri sprunginn og hefði frá upphafi verið byggður á kolröngum áætlunum.

Umræðunni var hagað þannig að flestir töldu að Reykjavíkurborg væri sökudólgurinn. Hún hefði selt ríkissjóði bíllausa dagdrauma á fölskum forsendum.

Í ljós kom hins vegar að ríkið sjálft bar ábyrgð á allri áætlanagerð. Það sem meira var. Mistökin voru skýrð með því að áætlunargerð af þessu tagi hafi verið regla hjá ríkinu árum saman. Fjármál Vaðlaheiðarganga, hringavitleysan við fjármögnun framkvæmda við Hornafjarðarfljót og tafirnar á nýju Ölfusárbrúnni eru til marks um það.

Umræðan um endurnýjun samgöngusáttmálans hófst sem sagt með flugeldasýningu um ábyrgðarlausa áætlanagerð, sem reyndist vera á ábyrgð ríkisins sjálfs. Nú hefur ríkið tvöfaldað allar tölur hans án þess að nokkur hafi verið dreginn til ábyrgðar fyrir ábyrgðarleysið.

Í ljósi þess hvernig endurskoðunarumræðan hófst er óskiljanlegt að nú sé henni lokað með því að loka augunum fyrir sjálfsgagnrýni ríkisstjórnarinnar.

Burðarásinn

Frá pólitísku sjónarhorni er Sjálfstæðisflokkurinn langstærsti aðilinn að sáttmálanum í gegnum fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og fimm bæjarstjóra.

Framsókn kemur að honum í gegnum innviðaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og borgarstjóraembættið, VG í gegnum forsætisráðuneytið, borgarstjórn og innviðaráðuneytið og svo Samfylking, Viðreisn og Píratar í gegnum borgarstjórn.

Það athyglisverða er að pólitíski burðarás sáttmálans skuli bæði fyrir og eftir endurskoðun hans tala jöfnum höndum með honum og á móti. Tvískinnungurinn gæti skýrst af popúlískri afstöðu Miðflokksins. Engu er líkara en burðarásinn telji pólitískt klókt að hálfur flokkurinn endurómi hana.

Þrátt fyrir breiða samstöðu sýnir tvískinnungurinn bresti í pólitískum undirstöðum sáttmálans.

Skattahækkun aldarinnar

Bein framlög ríkisins verða um 7 milljarðar króna á ári. Ellefu árum eftir að samningurinn tók gildi á svo þar til viðbótar að koma sérstök ný árleg skattlagning upp á 14 milljarða króna. Það er mesta skjalfesta skattahækkun aldarinnar.

Ríkisstjórnin hefur unnið sleitulaust að endurskoðun umferðarskatta í sjö ár án niðurstöðu. Nú er ætlunin að næsta eða þar næsta ríkisstjórn eigi að klára verkið. Það er loðnari niðurstaða af endurskoðun sáttmálans en nokkurn gat órað fyrir.

Við endurskoðunina féllst ríkið á að greiða þriðjung af kostnaði almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á móti bæjarfélögum og farþegum. Gott mál. En engin grein er gerð fyrir fjáröflun til þessa viðfangsefnis. Og engin rekstraráætlun gerð. Það verður næstu ríkisstjórnar.

Ofan á mikil skattahækkunaráform

Framkvæmdir af þessari stærðargráðu kalla óhjákvæmilega á nýja skatta. Engin útskýring er hins vegar gefin á því hvernig ellefu ár geta liðið af framkvæmdatímanum án þess að ný tekjuöflun komi til. Það er loðin framsetning. Ætlast mátti til meiri ábyrgðar.

Svo má ekki gleyma hinu að nýju umferðarskattarnir koma til viðbótar sambærilegum skattahækkunum, sem Samfylkingin boðar til að auka velferðarútgjöld.

Ekkert mat var lagt á það hvort heimilin geti borið báðar þessar áformuðu ríflegu skattahækkunarlotur.

Niðurstaða: Fín stefna með of loðnum fjáröflunarhugmyndum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Bubbi, vextir og kosningar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Bubbi, vextir og kosningar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Kúvendingar á hægrivængnum

Sigmundur Ernir skrifar: Kúvendingar á hægrivængnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: „Multifunktional og multikultural“

Óttar Guðmundsson skrifar: „Multifunktional og multikultural“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Full í vinnunni

Óttar Guðmundsson skrifar: Full í vinnunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi
EyjanFastir pennar
15.08.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?
EyjanFastir pennar
10.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Baráttan um hægra fylgið

Sigmundur Ernir skrifar: Baráttan um hægra fylgið
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Æstir lýsendur

Óttar Guðmundsson skrifar: Æstir lýsendur