fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

„Ekki ráðast á slökkviliðið á meðan allt brennur á bak við ykkur“

Eyjan
Fimmtudaginn 4. júlí 2024 10:31

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hvetur Sjálfstæðisflokkinn til að líta í eigin barm fremur en að kenna öðrum um stöðuna sem flokkurinn er kominn í samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum. Miðflokkurinn hafi staðið vaktina á meðan Sjálfstæðisflokkur sofnaði á verðinum en í stað þess að viðurkenna að flokkurinn hafi gefið of mikið eftir í stjórnarsamstarfinu við Framsókn og Vinstri Græna, þá sé nú reynt að réttlæta eftirgjöfina og ráðast á Miðflokk sem hafi þó ekki gefist upp.

Framangreint kemur fram í grein sem Sigmundur ritar á Vísi en þar skorar hann á bæði Sjálfstæðismenn og „trausta framsóknarmenn af gamla skólanum“ til að slást í för með Miðflokk í baráttunni fyrir „gömlu góðu grundvallargildunum og framtíð Íslands“.

Allt Miðflokkinum að kenna

Sigmundur segir að Miðflokkurinn virðist vera hugleikinn forsprökkum Sjálfstæðisflokksins þessa daganna. Hann kallar reyndar Sjálfstæðisflokkinn Nýhaldið. Hildur Sverrisdóttir, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi skrifað grein í Morgunblaðið þar sem hún fjallaði um gagnrýni Miðflokksins á nýstofnaða Mannréttindastofnun Íslands. Hildur furðaði sig í greininni á gagnrýninni enda hafi allir sex þingmenn Miðflokksins samþykkt þingsályktunartillögu árið 2019 þar sem Alþingi samþykkti að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samhliða skuldbatt þingið sig til að starfrækja sjálfstæða eftirlitsstofnun með mannréttindum sem varin eru í stjórnarskrá.

„Þingflokkur Miðflokksins er því búinn að venda kvæði sínu í kross og kannast alls ekkert við að þeir sem tóku þátt í að skuldbinda Alþingi til að setja stofnunina á fót séu þeir sjálfir,“ skrifaði Hildur.

Sigmundur segir þetta vera megin nálgun Sjálfstæðisflokks þessa daganna: „Að allt sem þeir gera af sér geri þeir vegna þess að Miðflokkurinn hafi ekki komið í veg fyrir það“.

Vissulega hafi Miðflokkurinn árið 2019 samþykkt að lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. En það þýði ekki að af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að stofna „enn eina mannréttindastofnunina“.

Sjálfstæðisflokki hafi verið bent á að það væri ekki nauðsynlegt að stofna mannréttindastofnun, sem sé hugmynd frá Vinstri Grænum til að „stjórna hugarfari og tjáningu landsmanna“, til að uppfylla skuldbindingar gagnvar fötluðu fólki. Ísland sé þegar með nóg af mannréttindastofnunum, svo sem Mannréttindaskrifstofu Íslands, mannréttindastofnanir sveitarfélaga og mannréttindastofnun Háskóla Íslands.

Fórnarlambið Sjálfstæðisflokkurinn

Þessari nýju stofnun séu veittar yfirgengilegar valdheimildir. Hildur Sverrisdóttir réttlæti það með að Jafnréttisstofa hafi mun meiri valdheimildir til að krefjast gagna og sé þar með í raun að gefa til kynna að fólk þurfi ekki að hlýða valdheimildum sem þessari nýju stofnun voru veittar.

Sigmundur segist hafa áhyggjur af stöðu Sjálfstæðisflokks sem virðist hafa gleymt grundvallargildum íhaldsins. Það hafi aðrir flokkar og gert. En Sjálfstæðisflokkurinn sé þó sá sem grætur mest yfir gagnrýninni.

„En aðeins Nýhaldið lýsir sér sem hjálparvana fórnarlambi sögunnar. Það á ekki bara við um þau tilvik þar sem þeim gremst að Miðflokkurinn hafi ekki stoppað þá af. Einnig er nefnt að flokkurinn hafi lent í slæmum félagsskap og geti ekkert í því gert en auk þess virðast forsprakkarnir álíta sig þræla þess að hafa innleitt alls konar vitleysu á fyrri stigum og hana þurfi að klára.“

Sigmundur víkur máli sínu eins að Birni Bjarnasyni, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokks. Sigmundur segir Björn hafa orðið illkvittnari með árunum og jafnvel mætti segja að hann sé að reka eins manns skrímsladeild. Hann sé duglegur að kenna Miðflokki og Framsókn um vandræði Sjálfstæðisflokksins.

Takið ykkur tak

Þar sem Sigmundur er, að eigin sögn, maður friðar og framfara, ætlar hann þó ekki að gefast upp á að Sjálfstæðismenn nái aftur jarðtengingu.

„Sem maður friðar og framfara ætla ég þó að halda áfram tilraunum til að reyna að veita forsprökkum Sjálfstæðisflokksins, nýjum og gömlum, góð ráð. Það er mér líklega að útgjaldalausu því þeir fara ekki eftir góðum ráðum ótilneyddir.

Ráðin eru þessi: Takið ykkur tak. Hættið að einblína á Miðflokkinn og kenna honum um vandræði ykkar. Hugið að Sjálfstæðisflokknum. Verið stoltir af því góða í stefnu flokksins í gegnum tíðina og árangrinum sem af því hlaust. Finnið aftur prinsippin.

Eða leit flokkurinn ekki á sig sem eins konar varðlið borgaralegra gilda? Hví að eyða tímanum í að réttlæta eftirgjöf flokksins og ráðast á þá sem ekki hafa gefist upp.

Ekki ráðast á slökkviliðið á meðan allt brennur á bak við ykkur og borgaraleg gildi eiga í vök að verjast.

Ég segi við ykkur það sama og ég segi við við trausta framsóknarmenn af gamla skólanum og annað skynsemishyggjufólk: Komið með okkur í baráttuna fyrir gömlu góðu grundvallargildunum og framtíð Íslands. Það ætti að vera forgangsverkefni allra.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“