fbpx
Laugardagur 02.mars 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Hvenær ætlum við að rísa á fætur?

Eyjan
Föstudaginn 2. febrúar 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í vikunni sem leið sat Bjarni Benediktsson fyrrum fjármálaráðherra fyrir svörum varðandi sölu Íslandsbanka. Athygli vakti hversu geðstirður ráðherra var þegar hann var inntur svara um álitamál við útdeilingu auðæfa í útboðinu á síðasta ári. Mál sem leiddu vegna siðbrests ráðherra til „afsagnar“ hans. Fyrirgefiði, sem varð til þess að hann fann sig knúinn til að fá sér göngutúr yfir í Utanríkisráðuneytið.

Sannleikanum er hver sárreiðastur og framkoman á fundinum lítt til þess fallin að endurheimta traust almennings á hinum vængstýfða fálka og vekur efasemdir um að formaðurinn hafi yfirleitt hugarró til yfirvegaðrar og ígrundaðrar ákvarðanatöku. Og það veit ekki endilega á gott þegar við, þessi örþjóð, höfum nú eignast okkar eigin hershöfðingja í Bjarna, sem ber stoltur aldeilis fyrirséð amerískt sverð og skjöld. Í stríðum stórvelda þykir nefnilega óbilgirni mannkostur og sjálfsréttlæting dyggð. Og við vitum nú þegar, að þægur mun hann fylgja, í einu og öllu utanríkisstefnu BNA að máli. Guð blessi Ísland.

En það gilda greinilega ekki sömu lög um vanhæfa og vanstillta ráðherra og vanstillt börn, því unglingur nokkur kveikti í flugeldi innandyra í Austurbæjarskóla í vikunni, engan sakaði, en ástæða þótti til að kalla umsvifalaust á lögreglurannsókn vegna málsins. Hvar er lögreglan þegar þjóðin þarf á henni að halda? Nú vitum við það … í grunnskólum landsins að yfirheyra börn.

Ég legg til að barninu sé þegar í stað búið betra skólaumhverfi, því fengið verðug og skemmtileg verkefni og fái í það minnsta ráðherraembætti.

Fjölskylda Lúðvíks Péturssonar sem jörðin gleypti í Grindavík vill svör og þau svör viljum við öll. Hvers vegna var hann einn við vinnu, á þessum stað, þar sem ekkert var aðkallandi að laga, svo að fór sem fór? Við sem búum hérna verðum að  krefjast þess að fólk sem stýrir aðgerðum í náttúruhamförum kunni að forgangsraða og fulltingi allra mögulegra sérfræðinga við allar framkvæmdir. Hér þarf engan að hengja, þetta er ekki glæpur af yfirlögðu ráði. Þetta sýnir svart á hvítu vanhæfi okkar sem þjóðar í aðstæðum sem þessum.  Af þessum hræðilega atburði verðum við hins vegar að læra, svo aldrei þurfum við að sjá samskonar harmleik endurtaka sig. Fjölskyldumaður á besta aldri horfinn.

Allt ber þetta að sama brunni. Við þurfum stórhreingerningu hérna heima hjá okkur. Þar sem við horfumst í augu við það, hvar skórinn kreppir. Ég held að barnæska íslands sé kannski loks á enda runnin og nú verði þjóðin að verða fullorðin með tilheyrandi átaki og ábyrgð hvers og eins. Sú tíð er liðin, þó hún búi í beinmergnum, að einhver annar komi okkur til bjargar, við verðum einfaldlega að bjarga okkur sjálf. Innviðir landsins eru í molum og grunnstoðirnar veikar. Alþingismenn ýmist geispandi á Alþingi eða í óskiljanlegum hrókasamræðum við sjálfa sig.

Í samfélagi okkar er fjarlægð við þarfir almennings orðin sláandi og svo komið að raunveruleg vellíðan og lífsöryggi er aðeins þeim ríkustu og frekustu tryggt.

Ef einn líður, þá líðum við öll og við getum sem samfélag gert svo miklu, miklu betur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Trúin — menningin — móðurmálið  

Björn Jón skrifar: Trúin — menningin — móðurmálið  
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Lindarhvoll er svarið

Svarthöfði skrifar: Lindarhvoll er svarið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Er ríkismiðlinum haldið í stöðugri gíslingu?

Svarthöfði skrifar: Er ríkismiðlinum haldið í stöðugri gíslingu?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Horft á heiminn í spegli

Björn Jón skrifar: Horft á heiminn í spegli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nú er hún Valhöll varla annað en stekkur

Sigmundur Ernir skrifar: Nú er hún Valhöll varla annað en stekkur
EyjanFastir pennar
27.01.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin afskrifa Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin afskrifa Evrópu
EyjanFastir pennar
27.01.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Júróvisjón

Óttar Guðmundsson skrifar: Júróvisjón