fbpx
Laugardagur 09.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Eyjan
Fimmtudaginn 17. október 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar komst einhvern veginn þannig að orði að stjórnarslitin væru besta ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Vel má vera að þessi ummæli hafi að hluta til verið hugsuð sem kerskni. Samt sem áður þykir mér trúlegt að meginþorri kjósenda stjórnarflokkanna jafnt sem stjórnarandstöðuflokkanna líti einmitt þannig á málið í fullri alvöru.

Að skilja við og skilja eftir sig

Málefnalega hefur ríkisstjórnin verið í öndunarvél allt þetta kjörtímabil. Þjóðinni hefur lengi verið ljóst það sem ráðherrar VG og Sjálfstæðisflokks viðurkenndu fyrst í byrjun þessa mánaðar.

Pétur Benediktsson bankastjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins komst þannig að orði um slit vinstri stjórnar 1958:

„Hún er talin hafa verið lánminnsta stjórn þessa lands síðan á tímum Friðriks 6., og má gefa henni hið sama eftirmæli sem Þorsteinn Erlingsson gaf honum: „Þú sefur nú vært, og sofðu í eilífri ró.“ En þótt ríkisstjórnin skildi við skildi hún vandamálin eftir sig.“

Samseta ekki samstarf

Sama má segja um þessa stjórn. Eftir sjö ár skilur hún vandamálin eftir sig fyrir næstu stjórn að leysa.

Sum eru óleyst af því að tveir stjórnarflokkanna hafa drepið helstu mál hvor fyrir öðrum.

Önnur eru óleyst vegna þess að flokkarnir allir þrír eru á móti nauðsynlegum kerfisbreytingum. Raunvaxtahækkun í kjölfar fallandi verðbólgu í byrjun þessa mánaðar er dæmi um það.

Ríkisfjármálin eru svo alvarlegur efnahagsvandi af því að ágreiningur hefur verið leystur með því að auka útgjöld að kröfu VG og lækka skatta að kröfu sjálfstæðismanna. Báðir flokkar segjast svo hafa náð miklum árangri.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð í upphafi var einungis horft á samanlagða tölu þingsæta flokkanna þriggja en litið fram hjá málefnum. Þetta var því samseta við ríkisstjórnarborðið en ekki samstarf.

Þrásetan gróf undan traustinu

Stjórnarslit eru nauðsynleg þegar ekki er samstaða um strikið sem sigla á eftir. Það er þrásetan sem grafið hefur undan málefnalegu trausti stjórnarflokkanna.

Helsti lærdómurinn sem af þessari þrásetu má draga er sá að næstu ríkisstjórn þarf að byggja á sterkari málefnalegum grunni.

Það getur aftur á móti orðið þrautin þyngri. En vegna þrásetunnar hafa fráfarandi stjórnarflokkar lítinn trúverðugleika í þeirri umræðu.

Mælingar síðustu kannana benda til þess að málefnalega verði erfitt að finna sameiginlegan flöt á markvissri stjórnarstefnu. Fyrsta hættan er að yfirborðið en ekki dýptin ráði umræðunni á þeim fáu vikum sem fram undan eru til kosninga.

Núna við upphaf kosningabaráttunnar er Samfylking í lykilstöðu. Hún virðist geta valið að mynda stjórn til vinstri eða inn á miðjuna og jafnvel til hægri.

Vinstri stjórn

Kannanir hafa í langan tíma sýnt hreinan þingmeirihluta Samfylkingar, VG, Pírata, Flokks fólksins og Sósíalista.

Það yrði eins og að drekka vatn fyrir þessa flokka að ná saman um stærsta mál Samfylkingar. Aukin útgjöld til velferðarmála með sjötíu milljarða skattahækkun ásamt því að leggja kerfisbreytingu í gjaldmiðlamálum á hilluna.

Á móti kemur að Samfylking hefur opnað á raunhæfari viðhorf en hingað til í orkumálum og útlendingamálum. Væntanlega yrði hún að setja þau nýju viðhorf á hilluna í samstarfi af þessu tagi.

Miðjustjórn

Samfylkingin gæti líka myndað stjórn inn á miðjuna og jafnvel til hægri. Næsta víst er að Samfylkingin yrði í slíku samstarfi að gefa eftir í skattamálum.

Aftur á móti ættu ný viðhorf í útlendingamálum og orkumálum að auðvelda Samfylkingu að ná saman með Viðreisn, Framsókn og jafnvel Sjálfstæðisflokki.

Miðflokkurinn heldur sig enn yst á hægri jaðrinum. Fróðlegt verður að sjá hvort hann færir sig málefnalega nær miðjunni í kosningabaráttunni til þess að opna á stjórnarmöguleika.

Raunveruleg miðjustjórn hlýtur líka að byggjast á málamiðlun í Evrópumálum. Hún gæti falist í þjóðaratkvæðagreiðslu í byrjun kjörtímabils um framhald aðildarviðræðna. Sjálfstæðisflokkurinn féllst á slíka lausn 2017.

Líklegasta undirstaðan

Eins og sakir standa virðast aðrir kostir vera málefnalega fjarlægari.

Stjórnarmyndun getur orðið snúin. En eftir það sem á undan er gengið er sterk miðja líklegasta undirstaða málefnalega sterkrar stjórnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sisona

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sisona
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
27.09.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri