fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Eyjan
Laugardaginn 20. apríl 2024 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er svo komið í íslenskri pólitík að heldur ámátlegt ákall berst  úr innsta búri Sjálfstæðisflokksins, sem er, að minnsta kosti enn sem komið er, stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi Íslendinga. Og ber að ávarpa sem slíkan. En það er af bænakvakinu að heyra að borgaralegu öflin í landinu eigi nú að taka höndum saman svo varhugaverðir vinstrimennirnir hrifsi ekki völdin og haldi þeim til langframa.

Það er hægrimönnum hræðileg tilhugsun að flokkar, sem kunna bara að hækka skatta, fjölga ríkisstarfsmönnum, fyrir nú utan að halda aftur af nauðsynlegri orkuöflun, nái undirtökunum í þjóðfélaginu, þótt raunar liggi fyrir að helsti og stærsti flokkur þeirra sjálfra, hafi einmitt í eigin krafti slegið met í stækkun báknsins á síðustu árum, aukið álögur og stöðvað virkjanaframkvæmdir.

Það eitt hefur hreyfst að einhverju ráði, á tíma sjö ára kyrrstöðu, að opinberum starfsmönnum hefur fjölgað gríðarlega, vel yfir tuttugu prósent frá 2015, þegar fjölgunin á almennum markaði hefur verið innan við fimm prósent.

Þetta er arfleifð þrálátrar þaulsetu hægriaflanna við stjórnvölinn.

Fyrir vikið þarf hið opinbera á Íslandi, ríki og sveitarfélög, að hirða vel yfir fjörutíu prósent af vergri landsframleiðslu í eigin hít, svo þau hafi efni á þessum rándýra rekstri, á meðan sambærileg smáríki á borð við Lúxemborg taka þrjátíu prósent af þegnum sínum, og Írland, sem er álíka eyland og Ísland að stærð, heimtar ekki nema tuttugu prósent af þjóð sinni í sameiginlegan rekstur.

Þjóðarauðlindir þessara tveggja landa, Lúxemborgar og Írlands, eru þó hvergi í námunda við þau náttúruauðæfi sem Íslendingar geta státað af. Og raunar er hugvitið það eina sem Lúxemborgarar hafa upp á að bjóða eftir að jarðefnavinnsla leið undir lok í landinu.

„Það eitt hefur hreyfst að einhverju ráði, á tíma sjö ára kyrrstöðu, að opinberum starfsmönnum hefur fjölgað gríðarlega.“

En svona er þá komið fyrir hægrisinnaða Íslandinu. Einmitt eftir að einn og sami flokkurinn hefur farið þar með völdin í áttatíu prósent tímans frá því landið varð lýðveldi undir miðja síðustu öld.

Og nú kallar hann á hjálp. Foringjar hans vita sem er að þjóðin er orðin leið á honum. Og koma þar ekki aðeins til spillingarmál af ýmsu tagi, sem óþarft er að rekja hér, svo ofarlega sem þau eru í minni landsmanna, heldur hin augljósu vinslit hans við sjálfan sig.

Sú var nefnilega tíðin að sítuðandi smáflokkarnir á Íslandi, uppfullir af sjálfum sér og ólundinni hver í annars garð, öfunduðu Sjálfstæðisflokkinn fyrir þá breiðu ásýnd og þjóðmálaþokka sem stafaði af honum, að minnsta kosti í orði kveðanda. Þegar hann gekk svo að segja að vísu kjörfylgi sínu, einatt í námunda við fjörutíu prósent á landsvísu, áratugum saman, og jafnvel yfir sextíu prósent í höfuðborginni fyrir rífum þremur áratugum, var flokkurinn boðberi víðsýni og vestrænnar samvinnu og barðist af öllu afli gegn ríkisvæðingu af hvaða tagi sem var. En þannig talaði hann að minnsta kosti. Og stétt skyldi vera með stétt, eins og heitið var í hátíðarræðunum.

Hann var breiðfylking. Að sönnu.

En núna vill hann loka landinu, hefur ímugust á frekari samvinnu við önnur lönd og setur Íslandsmet í ríkisrekstri. Svo það fer auðvitað betur á því að hann ákalli sjálfan sig, frekar en aðra flokka í kring.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!