Katrín Jakobsdóttir á rétt á fullum forsætisráðherralaunum í kosningabaráttu sinni til embættis forseta Íslands. Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarkona Katrínar sem forsætisráðherra, á einnig rétt á þriggja mánaða biðlaunum en hún mun stýra forsetaframboði Katrínar. Þær hafa þó báðar afsalað sér laununum til 1. júní og munu því líkt og aðrir frambjóðendur sem starfa hjá hinu opinbera fara í ólaunað leyfi á meðan kosningabaráttunni stendur.
Uppfært: Í upphaflegu fréttinni kom fram að Katrín og Bergþóra ættu rétt á biðlaunum á meðan kosningabaráttunni stóð og gert ráð fyrir því að þær hyggðust þiggja launin líkt og lesa mátti út úr frétt Heimildarinnar á dögunum. Þær hafa hins vegar báðar ákveðið að afsala sér laununum, eins og áður segir, og er það hér með leiðrétt.
Heimildin greindi frá því fyrir skemmstu að Katrín yrði á fullum biðlaunum í sex mánuði og myndi hún þiggja full forsætisráðherralaun að meðtöldu þingfararkaupi. Mánaðarlegar launagreiðslur eru 2.680.000 krónur á mánuði.
Biðlaun þessi reiknast eftir því hvað ráðherra hefur verið starfandi lengi. Ef í eitt ár eða lengur eru biðlaunin sex mánuðir.
Bergþóra Benediktsdóttir, fyrrverandi aðstoðarkona Katrínar í forsætisráðuneytinu, mun stýra kosningabaráttu hennar á einnig rétt á biðlaunum. Eins og Samstöðin greindi frá fyrir skemmstu, nema þau einni og hálfri milljón króna á mánuði.
Framboð Katrínar er nú að verða skýrara. Auk Bergþóru mun Unnur Eggertsdóttir, fyrrverandi kosningastjóri Vinstri grænna í Reykjavík, starfa sem samskiptastjóri framboðsins.
Óvíst er hvort eða hvaða hlutverki Lára Björg Björnsdóttir, önnur fyrrverandi aðstoðarkona Katrínar, gegnir í baráttunni. En hún, ásamt Bergþóru, sá um kynningu á framboði Katrínar fyrir skemmstu. Eins og Bergþóra á Lára Björg rétt á biðlaunum.
Fram hefur komið að nokkrir aðrir opinberir starfsmenn sem eru í framboði eru í launalausu leyfi á meðan framboðinu stendur.
Á meðal þeirra má nefna Höllu Hrund Logadóttur, orkumálastjóra, sem tilkynnti framboð sitt á sunnudag. Í gær var greint frá því að hún væri komin í launalaust leyfi frá störfum sínum hjá Orkustofnun.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona er önnur sem fær ekki fjármagn frá hinu opinbera á meðan kosningabaráttunni stendur. Í síðustu viku greindi hún frá því að hún væri komin í tveggja mánaða launalaust leyfi frá störfum sínum í Þjóðleikhúsinu á meðan hún býður sig fram til forseta.
Á meðal annarra frambjóðenda sem starfa hjá hinu opinbera má nefna Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, og Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Uppfært: Samkvæmt Bergþóru Benediktsdóttur hefur Katrín afsalað sér biðlaunum til 1. júní næstkomandi til þess að koma í veg fyrir að hún nyti aðstöðumunar. Það sama á við um Bergþóru sjálfa.