fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Eyjan
Sunnudaginn 24. mars 2024 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fólk er mjög mismunandi örlátt og einnig er margbreytilegt hvernig það sýnir sig. Sumir eru gjafmildir á peninga, muni, mat og önnur gæði en aðrir eru örlátir á tíma sinn, eru hjálpsamir og greiðviknir. En það þarf sterkar manneskjur til að gleðjast einlæglega með öðrum þegar þeir eignast, hljóta eða geta gert eitthvað sem þú þráir hefur aldrei fengið. Ég kalla það örlæti andans.

Ég hef kynnst nokkrum manneskjum um ævina sem hafa til að bera þessa tegund höfðingsskapar. Sjálf finn ég oft til öfundar en reyni að fremsta megni að láta hana ekki ná tökum á mér. Til dæmis hefur mig alltaf langað til að geta búið til eitthvað fallegt í höndunum og hef oft reynt. Útkoman er hins vegar jafnan þannig að ég legg það ekki neinn sem mér þykir vænt um að ganga í eða fá í hendurnar þau ósköp. Ég tilheyri tveimur saumaklúbbum og í öðrum eru margar mjög handlagnar manneskjur. Eitt sinn komum við saman og föndruðum engla fyrir jólin. Þeirra höfðu engilblíðan svip og upphafið sakleysi en minn leit út eins og vændiskona sem misst hefur tökin á eyelinernum í rigningu eða slyddu.

Önnur vinkona mín er starfandi listamaður og það er alveg sama hvað hún tekur sér fyrir hendur það verður allt fullkomið að formi og útliti. Við bökuðum einu sinni smákökur saman og hennar voru bústnar, fallega kringlóttar, með súkkulaðibita nákvæmlega staðsettum í miðju hverrar köku og nákvæmlega jafnstórar. Mínar voru frjálslegar í laginu, súkkulaðibitinn staðsettur hér og þar en þær voru ekki síðri á bragðið en hennar, huggaði ég mig við. En ég fann vissulega fyrir öfund þegar hún tók enn eina plötu af fullkomnu bakkelsi út úr ofninum meðan ég stakk mínum inn og horfði á þær renna í allar áttir.

Mig hefur líka alltaf langað til að geta sungið og ég öfunda sárlega fólk sem opnar bara munninn og út streyma dásamlegir tónar. Ég hefði svo ekkert haft á móti því að geta dansað eða verið góð í íþróttum eða, eða, eða. Líklega væri endalaust hægt að telja upp þá hæfileika sem maður hefði viljað hafa en verður að sætta sig við að voru manni ekki gefnir í vöggugjöf. En þótt ofurlítill öfundarstingur af þessu tagi grípi mann af og til er hann ekkert hjá þeirri sáru tilfinningu sem grípur mann þegar einhverjum er hrósað fyrir eitthvað sem manni finnst að maður sjálfur geri betur.

Þetta gerist stundum í vinnunni. Allir hafa lagt hart að sér, verkefninu er lokið og þér finnst þitt framlag bera af. Þá birtist yfirmaðurinn og hrósar samstarfsmanni þínum fyrir eitthvað mun síðra. Þá þarf maður að taka á honum stóra sínum og reyna að horfa hlutlaust á málin, gleðjast með þeim sem fékk hrósið og hugsa mitt mun hljóta viðurkenningu þótt síðar verði. Sömuleiðis er erfitt að tilheyra hópi fólks þar sem allir njóta mikillar velgengni nema þú. Það er sama hvað þú reynir, hversu hart þú leggur að þér hinir sigla alltaf fram úr þér. Í hvert sinn finnst þér þeir ekkert þurfa að hafa fyrir sínu, stundum voru þeir svo heppnir að vera á réttum stað á réttum tíma og þess á milli þekktu þeir rétta fólkið. Mikið er þá erfitt að óska til hamingju og gleðjast í raun og sann yfir því að þessi kæri vinur hafi notið alls þessa. Auðvitað átti hann það skilið. Að sjálfsögðu hafði hann líka unnið mikið og lagt sig fram. En þótt manni takist að breyta hugarfarinu, gleðjast og fagna innilega, þá breytir það ekki því að eftir situr sú tilfinning að tími manns muni bara alls ekki koma. You can‘t hurry love! sungu The Supremes og í Predikaranum segir að öllu sé afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.

Kannski er afskaplega mannlegt að finna fyrir tilfinningum af þessu tagi og fáir undanþegnir þeim en eins og ég sagði í upphafi hef ég kynnst nokkrum manneskjum um ævina sem alltaf eru einlæglega glaðar þegar öðrum gengur vel. Þær eru sáttar í eigin skinni, þekkja sína hæfileika og sín takmörk og hafa einhvern veginn sætt sig fullkomlega við eigin ófullkomleika. Þess vegna veitist þeim létt að brosa glaðlega við þér, faðma og hrópa af einlægni: En frábært. Þú átt þetta svo skilið. Ég dáist að og elska þessar manneskjur í lífi mínu umfram aðrar, einmitt vegna þessa örlætis andans sem er svo sjaldgæfur og verðmætur eiginleiki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar