fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið

Eyjan
Laugardaginn 2. mars 2024 13:15

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsjárhyggja hefur verið leiðarstef í íslenskri samfélagsgerð um árabil – og raunar svo lengi að elstu menn hafa ekki um frjálst höfuð strokið. Fyrir vikið hefur myndast sú hefð í landinu að valdastéttin taki einstaklingsfrelsinu fram í einu og öllu.

Kemur hér tvennt til. Annars vegar hefur ríkisvaldið litið svo á að það eigi að ráða yfir einstaklingum í landinu og setja þeim ríkar skorður. Hins vegar hefur íhaldssöm klíka helstu valdaflokka landsins staðið einkaframtaki og frjálsri samkeppni fyrir þrifum, svo innmúraðir geti áfram hirt þann gróða sem þeim einum er ætlaður.

Afleiðing þessarar fyrirhyggju og samtryggingar hefur haldið aftur af frjálsræði og frumkvæði í landinu og á vissan hátt bundið hendur alþýðunnar. Afturhaldið hefur verið sem myllusteinn um hálsinn á almúganum.

Ein birtingarmynd þessara tálmana af öllu tagi er bjórbannið sem lúbarðir landsmenn voru orðnir svo vanir á síðustu öld að engum heilvita manni kom það til hugar að hann fengi nokkurn tíma að dreypa á þeim veikasta vökva sem til er af áfengi í heimi hér. Það gæti reynst einkar skeinuhætt. Gott ef lýðurinn legðist ekki í eitt samfellt ölæði, jafnt í leik og starfi. Þá væri nú betra að hann skvetti bara í sig um helgar, en til þess hefði hann nú tvöfaldan brennivín og kóki. Eins og það nægði honum ekki.

Og þar við sat. Svo áratugum skipti. En svona væri bara Ísland. Þar drykkju menn með báðum höndum ef þeir ætluðu að fá sér. Það væri enginn bölvaður bjórbragur á eyjarskeggjum. Þeir drykkju til þess að verða fullir, ef ekki ofurölvi, en til þess væri vínið að verða sér til skammar.

„Forræðishyggja og íhaldssemi, þar sem búið er að úthluta auði og valdi til frambúðar, hefur engan áhuga á breytingum.“

Það merkilegasta við bjórbannið og alla þá ómenningu sem það leiddi yfir þjóðina í skemmtanalífi hennar, var að almenningur hreyfði litlum sem engum mótbárum við vitleysunni. Og það sýndi einmitt þá raunalegu mynd af íbúum eyjunnar að þeirra var ekki valdið. Þeir voru orðnir svo samdauna afturhaldinu og þrjóskunni sem henni fylgir, að það varð bara að sætta sig við þetta. Og hvað ætti svo sem aumur einstaklingurinn að vera að æsa sig út af þessu?

En hímin þjóð í þessum vanda fór samt að prófa sig áfram í vínfræðunum eftir að einangrun landsins vék fyrir opnara samfélagi. Eftir miðja síðustu öld fór hún nefnilega að sækja sér vit og þekkingu utan úr Ameríku og Evrópu. Og fyrir vikið varð að finna til ráð svo vínmenningin á Íslandi gæti í einhverjum mæli líkst því sem gerðist á meðal gamalla menningarþjóða sem drukku það sem þeim sýndist.

Eftir að hafa reynt sig við bollur og glögg af öllu tagi, oft og tíðum með uggvænlegum afleiðingum, kom bjórlíkið til sögunnar. Kláravíni var sullað út í pilsner. Flatara gat það ekki verið. Og engin þjóð á jörðinni hefur lagst svo lágt í viðleitni sinni til að líkjast öðrum byggðum bólum.

En ástæðan var æði kunn. Bjórbannið kom að ofan. Forræðishyggja og íhaldssemi, þar sem búið er að úthluta auði og valdi til frambúðar, hefur engan áhuga á breytingum. Og það hefur fylgt þjóðinni inn í nýja öld, enda er einangrunarhyggjunni að vaxa fiskur um hrygg. Það illa kemur enn sem fyrr að utan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund
EyjanFastir pennar
08.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi