fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Þorsteinn Víglundsson: Ekki gott að ríkið reyni að ákveða hvað Grindvíkingum er fyrir bestu – lán í óláni að þetta gerðist nú en ekki fyrir tveimur árum

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 26. janúar 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikilvægt er að reyna ekki að leysa vanda Grindvíkinga í húsnæðismálum með miðstýrðum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins. Slíkt gefst ekki vel. Betra er að gera Grindvíkingum sjálfum kleift að taka ákvarðanir um búsetu fyrir sig. Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, Björgunar og Sementsverksmiðjunnar) og fyrrverandi ráðherra, segir óvissuna mikla og öfundar ekki það fólk sem þarf að taka ákvarðanir um hvað gera skal. Þorsteinn er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.

Markaðurinn - Þorsteinn Víglundsson - 1.mp4
play-sharp-fill

Markaðurinn - Þorsteinn Víglundsson - 1.mp4

„Maður hefur samúð með því fólki sem stendur í þeim sporum að þurfa að taka ákvörðun um hvað eigi að gera þegar staðan er jafn óljós og hún er en það er engu að síður að teiknast upp mjög hratt sú staða núna að í Grindavík verður vart búið næstu misserin hið minnsta og það veit enginn á þessum tímapunkti hvort eða hvenær bærinn gæti orðið íbúðarhæfur að nýju,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að leysa verði úr þeirri stöðu með þeim hætti að íbúar geti sjálfir valið sér hvert þeir vilji halda. Þorsteinn segir það oft vilja gleymast í umræðunni um fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu hversu mikil byggð sé orðin í kringum höfuðborgarsvæðið og nefnir Reykjanesið, Suðurland, Árborgarsvæðið, Þorlákshöfn og Hveragerði. Þá sé Akranes hluti svæðisins.

Hann segir allt þetta svæði vera orðið eitt atvinnusvæði og fólk velji sér stað til að búa á út frá tilteknum forsendum og stað til að vinna á út frá öðrum. gríðarlega mikill vöxtur hafi orðið t.d. á Selfossi og í Reykjanesbæ og mikilvægt sé að telja þá uppbyggingu sem þar hefur orðið með í jöfnunni við mat á því hvað markaðurinn ráði við á þessum tímapunkti.

Þorsteinn segir það hafa verið mjög óvenjulega stöðu hér á landi þegar vextir fóru niður úr öllu valdi í Covid og hægt var að taka óverðtryggð fasteignalán á þrjú prósent breytilegum vöxtum, sem einhvern tíma hefðu þótt afbragðsgóð kjör á verðtryggðum lánum.

Hann segir að með sama hætti og þessir lágu vextir juku eftirspurn hafi mjög hátt vaxtastig nú áhrif í gagnstæða átt. Þetta gefi okkur hins vegar ákveðið svigrúm til að mæta þeirri stöðu sem skapast hefur vegna ástandsins í Grindavík.

„Í þessari skelfilegu stöðu sem er uppi í Grindavík er það lán í óláni að við séum þó miklum mun betur í stakk búin núna en fyrir kannski tveimur árum eða þremur til að mæta þessari óvæntu eftirspurn. Ég er enginn aðdáandi þess að fulltrúar ríkisins setjist niður og ætli sér að taka einhverja upplýsta ákvörðun um hvað eigi að byggja eða hvar eigi að byggja eða hvernig eigi að byggja það.“

Í hlaðvarpinu ræðir Þorsteinn m.a. um stöðuna á vinnumarkaði, gjaldmiðilinn, stöðugleika og vaxtaálagið sem íslensk fyrirtæki og heimili greiða, auk þess að skoða hver áhrif geta orðið af því að meira en þúsund fjölskyldur frá Grindavík bætast nú inn á fasteignamarkaðinn á stórhöfuðborgarsvæðinu. Hlaðvarpið í heild verður aðgengilegt hér á Eyjunni í fyrramálið, laugardaginn 27. janúar, kl. 8.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Hide picture