fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Ólafur Þ. Harðarson: Hefði aldrei trúað því að maður hefði raunverulegar áhyggjur af því að lýðræðið í Bandaríkjunum kynni að líða undir lok

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 11. janúar 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðræða þjóðernislýðhyggjumanna á borð við Donald Trump er óhuggulega lík því sem var hjá nasistum og fasistum í Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar og bandaríski Repúblikanaflokkurinn er gjörbreyttur frá því sem var fyrir 20-30 árum, segir Ólafur Þ. Harðarson, fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann telur samt að pendúllinn í Evrópu sé að einhverju leyti farinn að sveiflast frá þeirri nýfrjálshyggju sem var ríkjandi fyrir nokkrum árum þegar menn vildu helst græða á daginn og grilla á kvöldin. Ólafur er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Eyjan - Ólafur Þ. Harðarson - 5.mp4
play-sharp-fill

Eyjan - Ólafur Þ. Harðarson - 5.mp4

Maður heyrir ekki mikið af þessum röddum núna þótt auðvitað heyrist þær eitthvað. Meginstraumurinn í þjóðfélaginu hefur færst frá þessum áherslum. Það hefur líka gerst í mörgum hægri flokkum og hægri popúlistarnir, eins og t.d. Trump, er náttúrlega alls ekki nýfrjálshyggjumenn. Þeir eru í rauninni ríkisafskiptasinnar og vilja alls konar verndarstefnu,“ segir Ólafur.

Það er ekkert úr vegi  að kalla þá þjóðernissósíalista, er það?

Ja, það eru þín orð, þjóðernislýðhyggjumenn myndi ég nú nota en ég skil alveg hvað þú átt við,“ segir Ólafur og skellir upp úr.

Ég var að hlusta á mjög áhugaverða bók á dögunum; The Rise and Fall of the Third Reich eftir William Shirer, mjög merkileg bók …

Já, og með þekktustu bókum um þetta.“

Já, og hún er nú skrifuð á ensku og þar kemur fram að eitt af helstu slagorðum Hitlers, þegar hann var að berjast til valda var „Make Germany Great Again“.

Já, var það, já, já, þetta vissi ég ekki. Það er nú reyndar þó að það sé nú réttilega sagt að þegar menn fara að líkja einhverjum nútímamönnum við Hitler sé umræðan komin á villigötur eða lokið, en það er nú samt óþægilega margt sem er líkt með Trump og hans áherslum, sem eru náttúrlega með miklum ólíkindum, og ógna í raun lýðræðinu í Bandaríkjunum. Ég hefði aldrei trúað því, þegar ég var yngri, að maður myndi hafa raunverulegar áhyggjur af því að lýðræði í Bandaríkjunum kynni að líða undir lok,“ segir Ólafur.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér :

Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google:

Hann bætir því við að enn sem komið er hafi hann ekki miklar áhyggjur af því. „Ég er svo mikil Pollýanna, en samt sem áður, ég heyri að margir bandarískir vinir mínir, t.d. háskólaprófessorar, þeir hafa þessar áhyggjur. Og það er auðvitað margt í gerðum Trumps og í hans orðfæri sem vekur bara upp hjá manni angist og hræðslu vegna þess að hann talar á köflum, eins og menn hafa nú verið að benda á undanfarið, hann talar bara á svipuðum nótum og nasistar og fasistar gerðu á fjórða áratug síðustu aldar.“

Orðræðan er óhuggulega lík.

Já, orðræðan er óhuggulega lík og auðvitað er það með fádæmum að maður sem stjórnar uppreisnartilraun, eins og ég held að sé nú óhætt að segja að árásin á þinghúsið í janúar 2021 hafi verið, það er náttúrlega með fádæmum að slíkur maður skuli enn njóta yfirburðafylgis í sínum flokki – meðal repúblikana – það er okkur eiginlega alveg óskiljanlegt. En í rauninni má segja um Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum að hann hefur þróast þannig síðustu 20-30 árin að flestir Evrópumenn – og líka hægri menn í Evrópu – eiga mjög erfitt með að skilja hvað menn eru eiginlega að fara þar,“ segir Ólafur.

„Hins vegar er það svo að eftir að menn fengu Trump þá eru forsetar eins og gamli Bush og litli Bush bara eins og hófsamir miðjumenn og flokkaðir undir svona „decent republicans“ af elítunni,“ segir Ólafur og hlær.

Repúblikanaflokkurinn er alls ekki sami flokkur og hann var hér fyrir fjörutíu árum …

Aldeilis ekki, alveg gjörólíkur. Og þegar ég var að stúdera þetta í kringum 1970 það var það sem gerði bandaríska stjórnkerfið sérstaklega ólíkt evrópskum kerfum að atkvæðagreiðslur í þinginu í Bandaríkjunum voru gjarnan þannig að kannski var 2/3 repúblikana með málinu og 1/3 demókrata þannig að flokkarnir skiptust ekki í fylkingar eins og var miklu algengara í Evrópu. En núna er að alger undantekning ef einhver í fylkingum demókrata eða repúblikana í þinginu skerst undan merki. Það gerist reyndar frekar í öldungadeildinni heldur en í fulltrúadeildinni en það hefur orðið grundvallarbreyting og þessi skautun, eða pólarisering, í Bandaríkjunum er mikið áhyggjuefni – þegar þjóð skiptist í svo hatrammar fylkingar að menn geta varla talast við,“ segir Ólafur Þ. Harðarson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
Hide picture