fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Um sauðgrimmdina*

Eyjan
Föstudaginn 24. nóvember 2023 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það jafnast ekkert á við það þegar eitthvað kemur manni í svo opna skjöldu að maður gapir af undrun. Mig rak til dæmis í rogastans eitt sumarið þar sem ég varð vitni að, meinleysislegu að ég hélt, sauðfé í haga, leggja til atlögu við kríuhreiður og leggja sér innihald eggjanna til munns.

Það var ekki eins eitthvað væri að veðri eða að bithaginn væri rýr, síður en svo. Heiðskírt og stilla, nýsprottið gras, súrur og strá af öllum stærðum og gerðum, dýrðar hlaðborð, hefði maður haldið, það er að segja ef maður er kind.

Ég er reyndar ekki kind og ég segi það ekki, svo það megi skiljast að ég telji mig þeim æðri á nokkurn hátt, en sannleikur málsins er sá, að ég er ekki kind.

Það er því aðeins heiðarlegt að gangast við því að ályktanir mínar um allt þetta voðamál eru dregnar af því sem ég taldi mig vita um langanir kinda og þrár. Einnig af því sem ég taldi mig vita um hegðun og atferli kinda í víðum skilningi. Mér til varnar skal því líka haldið til haga að fyrrum athuganir mínar eru ekki byggðar á sandi, því þekking mín á sauðfé er töluvert yfirgripsmikil.

Ég var til dæmis barn í sveit ótal sumur á sauðfjárbúi þar sem ég dvaldi löngum í fjárhúsum við atferlisrannsóknir á sauðkindum og kenjum þeirra. Ég hef alið upp heimalninga, aðstoðað við sauðburð og náttúrlega eldað og étið umtalsvert af lamba- og kindakjöti. Er hægt að kynnast nokkrum betur en hreinlega að leggja sér viðkomandi til munns? Ég held bara ekki.

Var þetta kannski óviljaverk hjá ánni með lömbin sín tvö? Aldeilis ekki. Þetta var augljóslega ásetningsverk því ekki var skepnan að fela þetta fyrir blessuðum sakleysingjunum afkomendum sínum. Þau voru litlu skárri, innrætisins vegna væntanlega, því óhamin græðgin leyndi sér ekki þegar þau rifu í sig ófleyga ungana og jöpluðu á þeim eins og þeir væru snakk á öldurhúsi.

Allar hugmyndir mínar um grasbítanna fuku út um veður og vind og héðan af mun ég líta sauðfé gagnrýnisaugum og ekki af ástæðulausu. Þetta meinleysislega útlit, þetta kæruleysislega jórtur, þessi hlýja mjúka verönd er ekkert annað er dulargervi fyrir miskunnarlausa varpdólga.

Þegar maður er orðinn fullorðinn þykist maður vita eitt og annað og suma hluti alveg upp á hár. Að þessu leyti erum við fullkomnari en til dæmis börn sem eins og bjánar eru alltaf að skoða heiminn af undrun og gleði, eins og hann sé nýr og spennandi og lifa þar með reyndar miklu meira gefandi lífi.

Þegar við erum fullorðin þá viljum við helst ekki láta koma okkur á óvart, við erum full af vantrú og treystum því að það sem við sjáum, sé alls ekki eins og það er, því bitur reynsla okkar af tilverunni hafi sannarlega kennt okkur annað. Sjaldnast gerum við nokkuð gagnlegt við þessa upplifun okkar en við vitum betur og oftar en ekki styðjumst við þar líka við menntun okkar misgóða og þar liggur hundurinn grafinn.

Það gengur ekki að eitthvað sé ekki eins og við höldum að það sé. Að eitthvað sé hugsanlega alls ekki eins og það sem við höfum áður haldið, því hvað verður þá um okkur? Komumst við þá kannski að því að vitum ekkert í okkar haus? Það er ekki auðvelt að vera fullorðin. Það er fullt starf og ekki án ábyrgðar að leika fullorðið fólk.

Það þykir svakalega fullorðinslegt að segja: „Svona er þetta og svona hefur þetta alltaf verið og svona mun þetta alltaf verða.“ Það er líka mjög fullorðinslegt að þykjast skilja til fulls hvað aðrir eru að hugsa þó svo að iðulega hafi maður rangt fyrir sér. Ég hef til dæmis talið fullvíst að börnin mín séu að undirbúa móðurmorð þegar þau hafa bara verið með störu. Ég hélt líka einu sinni að raddsterkur leigubílstjóri, sem hváði svo ítrekað þegar ég sagði honum hvert ferðinni væri heitið, væri mér óvinveittur, en þá reyndist hann vera heyrnarskertur.

Þegar hinn víði skilningur minn á sauðfé er skoðaður er hann reyndar takmarkaður og bundinn við ýmsar hugmyndir sem ég hafði búið mér til um kindur, hugmyndir sem ég hef vitanlega staðið fast á, en vert er nú að taka til gagngerrar endurskoðunar.  Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt fyrir samfélagið allt að við skoðum nú meðvitað, í ljósi þessara upplýsinga sem ég ber hér á borð fyrir ykkur, atferli íslenska fjárstofnsins upp á nýtt. Sauðgrimmdina verður að rannsaka gaumgæfilega og með nýjum gleraugum. Við verðum að vera vakandi!

* Orðið sauðgrimmd er úr orðasmiðju Péturs Þorsteinssonar skólastjóra og fyrrum sauðfjárbónda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið