fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
Eyjan

Eigendur skræla HS Orku að innan en heimilin látin borga varnargarðinn

Ólafur Arnarson
Þriðjudaginn 14. nóvember 2023 14:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eigendur HS-Orku hafa greitt sér 33 milljarða út úr fyrirtækinu á síðustu sex árum en þingheimur samþykkti í gærkvöldi að leggja sérstakan fasteignaskatt á heimilin í landinu til að borga fyrir 2,5 milljarða framkvæmdir við varnargarða til að verja mannvirki HS Orku við Svartsengi.

Alþingi samþykkti í gærkvöldi með samhljóða atkvæðum 57 þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu að skattleggja allar húseignir í landinu næstu þrjú árin um 0,008 prósent viðbótarskatt til að borga fyrir gerð varnargarða sem verja eiga mikilvæga innviði á Reykjanesskaga, sér í lagi mannvirki HS Orku við Svartsengi og aðstöðu Bláa lónsins á svipuðum slóðum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu í gær ágreining um að reikningurinn fyrir þessum framkvæmdum yrði sendur heimilum landsins með þessum hætti en fyrirtækjunum sjálfum, sem í hlut eiga, ekki gert að taka þátt í kostnaði vegna framkvæmda sem ætlað er að verja eignir þeirra og fjárhagslega hagsmuni eigenda þeirra. Þegar til kom samþykkti stjórnarandstaðan engu að síður þessa skattlagningu.

Ljóst er að mikilvægt er að verja innviði á borð við raforkuframleiðslu í þágu íbúanna á svæðinu og orkuöryggis þjóðarinnar, en engu að síður blasir við að fjárhagslegir hagsmunir eigenda fyrirtækjanna sem í hlut eiga eru miklir. Þessi fyrirtæki eru í einkaeigu og þau hafa á liðnum árum skilað eigendum sínum miklum og góðum arði.

Eigendur HS Orku eru tveir. Jarðvarmi slhf., sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, á helming hlutafjár á móti breska sjóðafyrirtækinu Ancala Partners LLP.

Árin 2017-2022 nam samanlagður hagnaður HS Orku, eftir skatta, ríflega 29 milljörðum þegar reiknað er til núvirðis í dag. Á sama tíma hefur félagið greitt eigendum sínum 33 milljarða króna í gegnum arðgreiðslur og endurkaup hlutafjár. Eigendurnir hafa þannig markvisst unnið að því að lækka hlutafé félagsins og tekið meira út úr því en sem nemur hagnaði á þessu tímabili.

Á síðasta ári veittu Jarðvarmi slhf. og Ancala Partners LLP HS Orku víkjandi lán að verðmæti samtals 5,5 milljarða króna. Lánið er til sjö ára og greiðir HS Orka eigendum sínum vexti af því. Eiginfjárhlutfall HS Orku hefur skroppið saman úr 73 prósent í árslok 2017 í 41 prósent í lok síðasta árs.

Nú í haust var hlutafé HS Orku svo aukið um 5,6 milljarða sem varið var til kaupa á tveimur litlum orkufyrirtækjum.

Áætlað er að kostnaður við gerð varnargarða til að verja eignir einkafyrirtækisins HS Orku nemi um 2,5 milljörðum króna. Meðalhagnaður HS Orku síðustu sex ár hefur numið 4,8 milljörðum á ári og eigendurnir hefa greitt sér út að jafnaði um 5,5 milljarða á ári. Fyrirtækinu ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að greiða sjálft fyrir þessar framkvæmdir sem varða sérstaklega fjárhagslega hagsmuni eigenda þess.

Athyglisvert er að forsætisráðherra, ríkisstjórnin og raunar allt Alþingi skuli ákveða að láta heimili landsins greiða fyrir þessa framkvæmd með sérstakri skattheimtu í ljósi þess að kostnaður við varnargarðana er áþekkur þeim kostnaði sem talið er að hafi fallið til þegar nýtt ráðuneyti var búið til við myndun þessarar ríkisstjórnar fyrir tveimur árum. Þá þótti ekki ástæða til að leggja sérstakan skatt á heimilin til að fjármagna nýja ráðuneytið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt