fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Hefndarþorsti kvenna

Eyjan
Þriðjudaginn 24. október 2023 16:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gamlar goðsögur af hefndarþorsta og langrækni kvenna. Gyðjurnar á Olympstindi voru til að mynda þekktar fyrir móðgunargirni og gjarnar á að leita hefnda. Þær Guðrún Gjúkadóttir og Medea drápu börnin sín til að ná sér niður á eiginmönnum sínum og Hera, eiginkona Seifs, refsaði harðlega þeim konum sem karlinn hennar hélt fram hjá henni með. En eru konur raunverulega hatrammari en karlar og gjarnari á að leita hefnda?

Það er hins vegar erfitt að samræma þessa trú þeim tölum og niðurstöðum sem rannsóknir á ofbeldi í nánum samböndum og eftirleik sambandsslita sýna. Byrjum kannski á að skilgreina hefnd. Hún er skaðandi aðgerð unnin í þeim tilgangi að ná sér niður á öðrum vegna sársauka, móðgunar eða öðru tjóni sem maður telur að viðkomandi hafi valdið sér. Í breskri rannsókn voru þrjú hundruð og fimmtíu manneskjur, karlar og konur, á mismunandi aldri spurð hvað þau myndu gera í tilteknum aðstæðum. Gefin voru nokkur dæmi þar sem ýmist ástvinur, vinur, kunningi eða samstarfsmaður var sagður hafa gert eitthvað ákveðið á hlut viðkomandi og hann látinn velja milli nokkurra kosta og þeir voru einnig fjölbreytilegir, allt frá því að hefna sín grimmilega yfir í að fyrirgefa og halda óbreyttu sambandi við viðkomandi.

Ungir karlar reyndust samkvæmt þeim langlíklegastir til að hefna sín ef eitthvað var gert á hlut þeirra. Þessi hópur beitir einnig oftar ofbeldi en aðrar manneskjur. Næst á eftir þeim voru miðaldra karlar, því næst eldri menn og næst þeim ungar konur. Karlar reyndust einnig almennt eiga erfiðara með að fyrirgefa ávirðingar en konur. Nokkuð breytilegt var einnig eftir því hvers konar tengsl þeir höfðu við þann sem gerði á hlut þeirra hve líklegt væri að þeir leituðu hefnda; ef um var að ræða maka eða samstarfsmann var hefndin sæt og mun sennilegra að þeir væru heiftræknir en ef um vini eða kunningja var að ræða. Sambærilegar rannsóknir í Bandaríkjunum, Ástralíu og Svíþjóð gefa svipaða niðurstöðu.

Karlmenn gerast oftar eltihrellar en konur og fjórir af hverjum fimm sem ofsóttir eru af slíkum hrellum er konur. Karlar eru í meirihluta þeirra sem myrða maka sína, en þegar kemur að barnsmorðum er hlutfallið jafnt. Börn deyja hins vegar oftar í höndum karla af völdum ofbeldis en vegna vanrækslu þegar konur eiga hlut að dauða barna sinna. Færri konur eru fylgjandi dauðarefsingu en karlar og það á við alls staðar í heiminum þar sem slíkar rannsóknir hafa verið gerðar og sama niðurstaða fæst ef fólk er spurt sem misst hefur náinn ástvin af völdum ofbeldis.

„Heaven has no rage like love to hatred turned, nor Hell a fury like a woman scorned,“ segir í leikritinu The Mourning Bride frá árinu 1697 eftir William Congreve. Án efa hefur oftar verið vitnað í seinni hluti þessarar setningar en nokkra aðra tilvitnun og hún jafnframt nær ávallt  kennd röngum rithöfundi. Hún hefur gert konum mikið ógagn því lengi hefur verið viðloðandi sú trú að konur í hefndarhug kæri menn fyrir ofbeldi, ljúgi upp á þá nauðgunum og standi í vegi fyrir að þeir fái notið umgengni við börn sín af tómu hefndaræði.

Að þessu sögðu er alls ekki verið að halda fram að konur séu ófærar um hefnd eða ofbeldi yfirleitt. Þær beita sannarlega ofbeldi, eru eltihrellar og eiga til að koma illa fram við fólk sem þær telja að hafi gert eitthvað á hlut þeirra. En hefndarþorsti virðist hins vegar alls ekki meira ríkjandi í eðli kvenna en karla. Þær hafa einnig lengi búið við meira valdaleysi og ekki langt síðan að konur urðu einfaldlega að taka því ef makar þeirra komu illa fram við þær, beittu þær ofbeldi, yfirgáfu þær og börnin eða sýndu þeim virðingarleysi. Við færumst hins vegar nær því að uppræta kynbundið ofbeldi og metoo-byltingin svokallaða var frábært skref í þá átt. Það er gaman að sjá hvernig hún endurspeglast í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en stundum er skrefið stutt milli valdeflingar og hreinnar hefndar og áhugavert að velta mörkunum fyrir sér.

https://lifdununa.is/grein/konur-hefna-sin/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!