fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Jóhann Páll gefur lítið fyrir skoðun Óla Björns: Segir Sjálfstæðisflokkinn vilja óbreytt ástand í heilbrigðismálum

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 4. október 2023 17:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir nýkynnta stefnu Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og öldrunarmálum harkalega í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir þjóðarmarkmiðin fimm, sem eru sett fram í nýjum bæklingi Samfylkingarinnar, vera almenns eðlis og svo sjálfsögð að draga verði í efa að það finnist Íslendingur sem setur sig upp á móti þeim.

Hann sakar Samfylkinguna um að ætla að beita „gamalkunnugum aðferðum vinstrimanna“ sem sé að auka útgjöld og hækka skatta og segir markmiðin um að hækka framlög til málaflokksins um 1-1,5 prósent af vergri landsframleiðslu á næstu árum kalla á 38-57 milljarða árlega útgjaldaaukningu.

Óli Björn segir að hafi markmiðið með þessu útspili Samfylkingarinnar verið að bjóða upp á skýra valkosti eigi flokkurinn langt í land.

Sjá Einnig: Óli Björn tætir í sig bækling Samfylkingarinnar: Telur að þetta muni gerast komist flokkurinn til valda

Jóhann Páll Jóhannsson er fulltrúi Samfylkingarinnar í velferðarnefnd Alþingis. Hann segir það ekkert nýtt að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur séu ósammála um heilbrigðiskerfið, hvernig eigi að reka það og á hvaða forsendum.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn í tíu ár, vill meira af því sama og boðar óbreytt ástand.

Við vitum hvernig það hefur gefist, þetta er ástandið þar sem gamalt og veikt fólk þarf að bíða vikum saman á spítalagöngum eftir því að fá pláss á hjúkrunarheimili, þar sem helmingi færri eru með fastan heimilislækni en á hinum Norðurlöndunum, þar sem fólk í dreifðum byggðum upplifir öryggisleysi og skort á aðgengi, þar sem börn með þroskaskerðingu eru látin bíða meira en ár eftir nauðsynlegri þjónustu, þar sem fjarar undan stoðþjónustu og sífellt meiri tíma heilbrigðisstarfsfólks er varið í skriffinnsku.

Svona getur þetta ekki gengið lengur og ég held að fólkið í landinu finni það og viti það. Við verðum að skipta um kúrs.“

Jóhann segir Samfylkinguna hafa mótað skýra sýn um eflingu heilbrigðiskerfisins og sett fram fimm þjóðarmarkmið sem raunhæft sé að ná á tveimur kjörtímabilum:

„Að fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi, að ráðist verði í þjóðarátak í umönnun eldra fólks með stóraukinni heimaþjónustu og fullfjármagnaðri uppbyggingu hjúkrunarrýma, að stigin verði afgerandi skref til að tryggja öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu um allt land, að heilbrigðistæknin og sjúkraskrárkerfin verði á forsendum sjúklinga og starfsfólks en ekki tæknifyrirtækja, að starfsfólki verði gert kleift að verja auknum tíma með sjúklingnum, og loks að fjárstýring og eftirlit verði stórbætt. Í bæklingnum okkar er fjallað ítarlega um hvert og eitt markmið og hver hugsunin er.

Áherslurnar eru sóttar til almennings á hátt í 40 opnum fundum um land allt en jafnframt af fundum á vinnustöðum, með fólkinu af gólfinu og sérfræðingum um heilbrigðismál.“

Jóhann Páll segir sumt af því sem Samfylkingin leggi til muni útheimta aukið fjármagn til heilbrigðismála og telur að það eigi ekki að koma neinum á óvart þar sem við Íslendingar verjum umtalvert lægra hlutfalli vergrar landsframleiðslu til heilbrigðisþjónustu en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Annað snúist um að nýta takmarkaða fjármuni betur og auka skilvirkni í kerfinu.

„Það kemur mér ekkert á óvart að Sjálfstæðisflokknum hugnist ekki þessi stefna og þessar áherslur. Kannski eru valkostirnir að verða skýrari en nokkru sinni fyrr.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast