Þetta kemur fram í viðtali við Jón í Fréttablaðinu í dag. Segir Jón þetta sýna að verndarkerfið hér á landi sé stjórnlaust. Allir þessir nítján umsækjendur hafi fengið fulla málsmeðferð hér á landi og notið aðstoð löglærðs talsmanns. Að lokum hafi niðurstaðan verið sú að þeim var synjað um alþjóðlega vernd.
Upphaflega stóð til að senda 35 úr landi með sömu flugvélinni. „Þegar til kastanna kom náðist bara að senda 19 þeirra úr landi, en 16 gátu falið sig. Þessir 19 eru núna allir komnir til baka, búnir að endurnýja umsókn sína og komnir á framfæri íslenskra skattgreiðenda,“ segir Jón í viðtalinu.
„Þetta er stjórnleysi. Þetta er hringavitleysa. Við erum komin í ógöngur sem þjóð á þessu sviði,“ segir hann einnig og bætir við að þessi vandi sé heimatilbúinn. Rót hans sé að löggjöfin hér á landi sé linari en í löndunum í kringum okkur. „Og sú fiskisaga flýgur víða sem ýtir undir að hingað koma hópar umsækjenda til að reyna fyrir sér í íslenska kerfinu,“ segir hann einnig.
Hann segir að þetta bitni á þeim sem síst skyldi, fólkinu sem uppfyllir skilyrði um alþjóðlega vernd og búsetu hér á landi. „Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna er einhver fegursti sáttmáli sem saminn hefur verið. Við viljum geta rækt skyldur okkar með sóma á þeim vettvangi. En þá mega innviðirnir ekki bila af völdum þeirra sem eiga ekki rétt á vernd,“ segir hann.