fbpx
Miðvikudagur 18.maí 2022
EyjanFastir pennar

Að vera vitsmunalega niðurlægður af barni

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 15. apríl 2022 11:00

Björn Þorfinnsson ritstjóri DV og alþjóðlegur skákmeistari. Í baksýn má greina stjórnmálamann og stórmeistara.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu, sem bar nafn aðalstyrktaraðilans Kviku banka, lauk nú í vikunni. Sá er þetta skrifar tók þátt í mótinu, meira af kappi en forsjá, og satt best að segja verð ég nokkrar vikur að jafna mig eftir að hafa mátt þola ólýsanlegar niðurlægingar gegn börnum.

Allir velkomnir – börn og brjálæðingar

Eitt það skemmtilegasta við skákina er að það mega allir taka þátt. Persónugallerýið er því á köflum lygilegt. Atvinnumenn, byrjendur, konur, karlar og kynsegin fólk, snillingar, allnokkrir vitleysingingar, eitthvað brjálæðingum, fólk í hæstu stigum þjóðfélagsins og hinum lægstu og svo börn. Heill hellingur af börnum sem helst allir vilja forðast að mæta.

Til að byrja með gekk mér ágætlega í mótinu eða allt þar til í 5. umferð þegar ég mætti undrabarninu Abhimanyu Mishra frá Bandaríkjunum.  Mishra þessi skráði nafn sitt á spjöld sögunnar í fyrra þegar hann var sá yngsti í sögunni til þess að verða stórmeistari í skák. Hann var aðeins tólf ára og fjögurra mánaða þegar sá áfangi náðist og líklegt má telja að í framtíðinni verði hann einn af allra bestu skákmönnum heims.

Mér var samt alveg sama hvort að Mishra væri undrabarn eða ekki. Það eina sem blasti við að ef ég myndi vinna hann þá hafði ég knésett barn og ef ég tapaði þá hafði ég jú verið niðurlægður af barni. Að sjálfsögðu lenti ég í verri möguleikanum.

Augnaráð sem nísti inn að beini

Skákin hófst þannig að ég reyndi að gera einhverja vitleysu strax í byrjun til þess að koma barninu úr jafnvægi (já, ég er ekki betri maður en þetta). Það virkaði að einhverju leyti og sá stutti viðurkenndi eftir skákina að hann hafi ekkert skilið hvað ég var að bjástra. Ekki veit ég hvort að það sé eitthvað sem ég get verið stoltur af.

Staðan mín varð samt ágætt en nokkuð reglulega kom sá stutti mér á óvart með leikjum sem ég hafði ekki spáð mikið í en svo áttaði ég mig á því að þeir voru þrususterkir. Virðing mín fyrir barninu jókst sem var áhyggjuefni.

Að endingu fannst mér ég vera að lenda í vandræðum og lagðist í þunga þanka. Ég reiknaði fjölmarga leiki fram í tímann, taldi mig finna leið sem bjargaði málunum og byrjaði að dúndra út leikjum sem litla karlinn svaraði að bragði – hann hafði líka séð þetta allt saman.

Þetta var líka besta leiðin og hefði átt að duga til jafnteflis ef ekki hefði verið fyrir hvatvísi mína. Ég lék hróksleik í hvelli en um það bil sem ég sleppti manninum þá fattaði ég að leikurinn var slakur og ég hefði átt mun betri möguleika. Ég leit upp og þá blasti við mér þessi erfiða sjón sem mun seint líða mér úr minni.

Augnaráð Mishra sem nísti inn að beini

Stingandi augnaráðs 13 ára barns sem vissi að hann hafði náð yfirhöndinni í blóðugum bardaganum. Það sem var enn verra var einmitt sú staðreynd að ég tapaði ekkert strax. Staðan mín varð bara erfið og svo hófst sá stutti handa við að murka úr mér líftóruna í endatafli. Á tungumáli skákarinnar heitir það að vera sviðinn og er nákvæmlega eins og vont og það hljómar.

Niðurlægður gafst ég að lokum upp eftir rúmlega fjögurra klukkustunda baráttu og þá hófst Mishra litli handa við að segja mér hvað betur hefði mátt fara hjá mér og honum og niðurstaðan var sú að ég hefði nú bara teflt ágætlega þó það hefði ekki dugað til. Einhvern veginn var sú lexía verst af öllum.

Barnaharmleiknum var ekki lokið

Eftir þessa raun gegn undrabarninu Mishra fór mótið gjörsamlega í hundana hjá mér en niðurlægingin gegn börnum var rétt að byrja.

Í síðustu umferð mótsins mætti ég fimmtán ára gömlum Þjóðverja. Sá var mun stigalægri en ég og þar með var ég mun sigurstranglegri.

Þennan dag var mikið að gera í vinnunni (afar mikilvægt að hafa afsakanir á reiðum höndum) og því hafði ég ákveðið að bjóða krakkanum jafntefli eftir nokkra leiki, sem yrði örugglega samþykkt, og snúa svo aftur til vinnu og reyna að gleyma þessu móti.

Skákin hófst en eftir nokkra leiki bauð krakkinn mér jafntefli að fyrra bragði. Þvílík vanvirðing! Það var að sjálfsögðu ekki hægt að taka því boði þannig að nú blasti við að ég þurfti að pakka drengnum saman.

Það eru óskrifaðar heiðursreglur í skákinni að maður bíður í mesta lagi 1-2 jafntefli í hverri skák. Þegar andstæðingurinn hefur hafnað jafntefli einu sinni er hugur hans í raun ljós og boltinn hjá honum varðandi næsta boð. Andstæðingurinn minn var þó algjörlega ómeðvitaður um þetta og bauð mér þrisvar sinnum í viðbót jafntefli á meðan skákinni stóð.

Í hvert skipti varð ég pirraðri og pirraðri og sérstaklega af því þrátt fyrir betri stöðu þá var algjörlega óljóst hvernig ég ætlaði að vinna skákina. Að endingu þá lagði ég allt í sölurnar, tók gríðarlega áhættu og upp kom staða þar sem ég gat tryggt mér jafntefli. Það var þó ekki sjéns og frekar tók ég enn meiri áhættu sem endaði með því að ég tapaði viðureigninni.

Með brotna sjálfsmynd rétti ég fram höndina til uppgjafar og þá blasti við mér brosandi barn sem sagði hlæjandi: „Þú hefðir átt að taka jafnteflinu.“

Þá var mér öllum lokið, hreytti einhverju í drenginn og gekk síðan bugaður á braut. Í þrjá daga hefur veröldin verið dekkri en áður. En upprisan einkennir nú páskana og ég hef tekið gleði mína á ný. Ég mun læra af mistökum mínum og guð almáttugur hjálpi þeim hvítvoðungi sem ég mæti næst við skákborðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum
Framtíð menntunar

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Aðsendar greinarFastir pennar
11.04.2022

Öfgar skrifa: Afleiðingar ofbeldis sem fjórða valdið beitir þolendur

Öfgar skrifa: Afleiðingar ofbeldis sem fjórða valdið beitir þolendur
EyjanFastir pennar
10.04.2022

Björn Jón skrifar: Norrænt varnarsamstarf

Björn Jón skrifar: Norrænt varnarsamstarf
EyjanFastir pennar
20.03.2022

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga
EyjanFastir pennar
13.03.2022

Björn Jón skrifar: Evrópumálin eru aftur á dagskrá

Björn Jón skrifar: Evrópumálin eru aftur á dagskrá
EyjanFastir pennar
14.02.2022

Björn Jón skrifar: Skylda okkar að verja fullveldi Úkraínu

Björn Jón skrifar: Skylda okkar að verja fullveldi Úkraínu
EyjanFastir pennar
06.02.2022

Björn Jón skrifar: Framhaldsskólanemar þurfa að skemmta sér

Björn Jón skrifar: Framhaldsskólanemar þurfa að skemmta sér
EyjanFastir pennar
23.01.2022

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira
EyjanFastir pennar
23.01.2022

Björn skrifar: Ótrúleg upplifun úr stúkunni í Búdapest – Íslendingar heilluðu alla í höllinni

Björn skrifar: Ótrúleg upplifun úr stúkunni í Búdapest – Íslendingar heilluðu alla í höllinni