Farið var um víðan völl í Silfrinu á RÚV í dag en meðal annars var rætt um kjaraviðræðurnar sem standa nú yfir. Enn ein stýrivaxtahækkunin var ekki til þess fallin að auðvelda stöðuna í samningaviðræðunum og fyrir helgi sleit VR samningaviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins.
Guðbjörg Kristmannsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, var einn af gestum þáttarins og var spurð út í stöðuna á viðræðunum. „Staðan er náttúrulega alvarleg,“ sagði Guðbjörg.
„Við erum með þetta verkefni sem er gríðarlega stórt og við þurfum að ljúka þessu verkefni. Það er bara einn endir á því, við þurfum að klára samning, það þarf að gerast. Það eru margir þættir sem koma þarna inn í sem eru að hræra upp í málunum og gera okkur erfiðara fyrir en við mátum það allavega svoleiðis að við ætlum að halda áfram að reyna til þrautar.“
Aðspurð að því hvar helstu ágreiningsefnin í viðræðunum liggja sagði Guðbjörg að það væru margir þættir en að erfitt væri að fara út í það núna. „Það er svona viðkvæmur tímapunktur til að nefna einhver ákveðin atriði. En við vorum á leiðinni og vaxtahækkun var ekki til þess að hjálpa til,“ segir hún og lýsir því svo hvernig andrúmsloftið í samningaviðræðunum var eftir að tilkynningin um vaxtahækkunina kom frá Seðlabankanum.
„Þegar ég labbaði inn í húsnæði ríkissáttasemjara eftir að það var ljóst að vextir höfðu hækkað, það var svolítið eins og að ganga inn í erfidrykkju. Það var rosalega þungt loftið þarna inni, þetta var ekki góð ákvörðun á þessum tímapunkti því við vorum í vinnu, góðri vinnu, og maður var farinn að verða bjartsýnn. Þannig þetta var svona gott kjaftshögg aftur á bak.“
Þá sagðist Guðbjörg skilja ákvörðun Ragnars Þórs Jónssonar, formanns VR, og virða hana. „Ragnar vinnur með hjartanu og Ragnar er bara að hugsa um það sem er best fyrir hans fólk og hann er náttúrulega að semja fyrir sína félagsmenn,“ sagði hún.
„Ég skil alveg að hann hafi tekið þessa ákvörðun á þessum tímapunkti en þetta voru náttúrulega vissulega vonbrigði að missa þau út, hann er góður bandamaður. En hann er ekkert farinn, hann kemur, hann þarf líka að klára sitt verkefni og hann á eftir að koma inn í þetta með okkur áfram og við höldum áfram að vinna saman.“
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kom þá með sína skoðun á stöðu mála. „Ég hef kosið að líta á þetta í aðeins víðara samhengi. Við sjáum núna hvað er að gerast, við erum búin að vera í kjaraviðræðum í einhverjar vikur og síðan nær þetta svolitlum hápunkti núna í þessari viku,“ sagði hann.
„Það eru nokkur atvik sem voru ekkert sérstaklega mikið að hjálpa okkur en hvers vegna skyldi vaxtaákvörðun Seðlabankans hafa jafn mikil áhrif inn í þetta og raun bar vitni? Ástæða þess er að núna höfum við verið í viðræðum við þessi þrjú samflot og útgangspunkturinn okkar í kjaraviðræðunum hefur verið þessi: Verðbólga er of há á Íslandi, markmið okkar er að fara í gegnum kjarasamning sem getur stutt við lækkandi verðbólgu sem þýðir þá lægri stýrivextir inn í framtíðina.“
Halldór sagði að öll vinna og markmið SA hafi miðað að þessu og að ná því samtali við verkalýðshreyfinguna að kjarasamningar hafi áhrif á verðbólgu og að þeir geti haft áhrif á vaxtastig til lengri tíma. Það sé mjög stórt mál.
„En síðan þegar við sitjum þarna og erum svona langt komin, vil ég segja, koma þessi skilaboð frá Kalkofnsvegi – að stýrivextir eigi engu að síður að hækka, jafnvel þótt að á vaxtaákvörðunarfundinum þar á undan hafi seðlabankastjóri fjór- eða fimmtekið sagt að boltinn væri núna hjá aðilum vinnumarkaðsins. Við tókum við þessum bolta, við bjuggumst við því að við myndum fá ráðrúm til þess að ganga frá kjarasamningi.“
Halldór sagði að Seðlabanki hefði frekar átt að geyma vaxtahækkanir en vara við því að þær gætu hækkað, ef nýju kjarasamningarnir myndu ekki bera þess merki að þeir gætu stemmt stigu við verðbólgunni. „Ég held að það hefði verið miklu farsælla fyrir land og þjóð,“ sagði hann.
Þá var hann mjög harðorður um ákvörðun Seðlabankans. „Mér finnst hún vera illa tímasett, mér finnst hún vera illa ígrunduð og ég held að hún hafi hleypt mjög illu blóði í þessar viðræður.“