fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Andrés varpar ljósi á baktjaldarmakkið í Sjálfstæðisflokknum – Er flokkseigendafélagið að missa tökin?

Ritstjórn DV
Mánudaginn 14. febrúar 2022 12:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikillar óánægju gætir á meðal Sjálfstæðismanna í Reykjavík um þessar mundir, en þrátt fyrir að ákveðið hefur verið að halda prófkjör fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, hefur dagsetning enn ekki verið fest niður. Samfylkingin kynnti lista sinn í gær. Meira en mánuður gæti verið í að listi Sjálfstæðismanna verði ljós.

Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu, gerir þessari óánægju skil í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. „Til þessa hafa sjálfstæðismenn gumað af því að vera burðarflokkur íslenskra stjórnmála, sem kunni pólitík og kunni að stjórna. Þetta klúður með val á framboðslista virðist hins vegar segja einhverja allt aðra,“ skrifar Andrés.

Andrés segir „hringlið“ með það hvernig velja eigi á lista Sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar í maí sé sökudólgur fylgishruns í könnun Maskínu sem birtist nýliðna helgi. Samkvæmt henni mælast Sjálfstæðismenn með sex borgarfulltrúa.

„Meðal sjálfstæðismanna er þegar farið að benda á sökudólga, en þessi vandræði öll gætu orðið til þess að verulegar breytingar yrðu gerðar á skipulagi flokksins í borginni,“ skrifar Andrés áfram. Skipulagsreglurnar sem Andrés vísar í gera prófkjör að sjálfgefinni aðferð við uppröðun á framboðslista. Til þess að víkja frá henni, eða breyta, þarf aukinn meirihluta á svokölluðum fulltrúaráðsfundi.

Andrés skrifar áfram:

Flestir gerðu ráð fyrir því að efnt yrði til hefðbundins prófkjörs nú og stjórn Varðar samþykkti síðasta haust að gera tillögu um það, sem lögð yrði fyrir fulltrúaráðið. Það tafðist hins vegar að boða til þess fundar, en á stjórnarfundi í desember – eftir framboð Hildar – var óvænt samþykkt breyting á fyrri samþykkt (í óþökk Jóns Karls Ólafssonar, formanns Varðar), um að leggja til að umrætt prófkjör yrði leiðtogaprófkjör, en uppstillingarnefnd réði öðrum sætum.

„Þetta mæltist afar illa fyrir og þótti flestum ljóst að einhverjar vélar byggju að baki. Hefðbundnar fylkingar í flokknum sóru þetta þó af sér og fljótlega bárust böndin að borgarfulltrúum, sem ekki kærðu sig neitt sérstaklega um prófkjör og myndu trauðla styðja Hildi. Þar hafa nokkrir verið nefndir en enginn þeirra vill kannast við þetta þó að bent hafi verið á tengsl þeirra við þá stjórnarmenn í Verði, sem lögðu fram tillöguna.“

Eftir því sem heimildir DV herma munu nokkrir sitjandi borgarfulltrúar sem sögulega hafa átt erfitt með að vekja athygli á sér í prófkjörum hafa átt frumkvæði að bæði tillögu um að halda leiðtogaprófkjör, og svo síðar að flokksskránni yrði lokað tveim vikum fyrir kjördag – eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei gert og flestir innmúraðir töldu algjört stílbrot á „lýðræðisveislunni,“ sem flokkurinn gerði mikið úr í prófskjörsvertíðinni fyrir þingkosningarnar sem fram fóru síðasta vor.

Þá er um það rætt innan Sjálfstæðisflokksins að sumar dagsetningar henta þessum andlitslausa hulduher sem Andrés Magnússon nefnir, betur en aðrar. Þannig vildu stuðningsmenn Hildar fyrst halda í prófkjörsdagsetninguna sem Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur stakk fyrst upp á, 26. febrúar. Svo vildi hópurinn halda í aðra dagsetningu sem Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur stakk upp á, 12. mars. En nú er útlit fyrir, að því er heimildir DV herma, að prófkjörinu gæti verið frestað til 19. mars. Þannig yrði framboðslisti Samfylkingarinnar klár heilum fimm vikum á undan lista Sjálfstæðisflokksins sem gefur um leið Degi B. Eggertssyni, höfuðandstæðingi Sjálfstæðismanna í borginni, gríðarlegt forskot. Margir sjálfstæðismenn munu eiga erfitt með að sætta sig við það.

Herma heimildir DV að um skipulagða herferð sé að ræða til þess að seinka prófkjörinu eins og hægt er.

Hugmyndirnar um að loka flokkskrá tveim vikum fyrir kosningar var þá jafnframt kolfelld á fundi fyrir helgi. Hafði einn sem DV ræddi við um helgina orð á því að engu líkara væri en að umrædd öfl vilji frekar sjá flokkinn tapa í kosningum, en vinna án sín.

Andrés gerir þetta jafnframt að umtalsefni sínu og skrifar:

Vegna þess í hvílíkt óefni var komið treysti fundurinn sér þó ekki til að samþykkja ákveðinn prófkjörsdag, heldur að það yrði annaðhvort 12. eða 19. mars og yfirkjörstjórn falið að ákveða endanlega dagsetningu. Mikill kurr er meðal almennra sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna alls þessa róts á framboðsmálum flokksins og hafa þeir verið ófeimnir við að láta skoðanir sínar í ljós á ýmsum spjallhópum sínum á netinu.

Hvernig sem þessu öllu líður liggur fyrir að Samfylkingin kláraði sitt prófkjör um helgina þar sem 16 gáfu kost á sér en eftir að hafa hrist sigurvisst framboð Guðmundar Inga Þórodssonar af sér hlupu 15 yfir endamarkið í gær. Niðurstaðan var svo til óbreyttur listi frá því í kosningunum 2018, sem tryggði Samfylkingunni um 26% atkvæða á móti 31% Sjálfstæðismanna undir Eyþóri Arnalds.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gagnrýnir skuldaaukningu Hafnarfjarðarbæjar – „Lántökur aukast umtalsvert milli ára“

Gagnrýnir skuldaaukningu Hafnarfjarðarbæjar – „Lántökur aukast umtalsvert milli ára“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta hafði þjóðin að segja um kappræður forsetaframbjóðendanna sex – „Er ekki best að allir 12 frambjóðendur fái einn mánuð á ári í embætti?“

Þetta hafði þjóðin að segja um kappræður forsetaframbjóðendanna sex – „Er ekki best að allir 12 frambjóðendur fái einn mánuð á ári í embætti?“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þeir slá úr og í

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þeir slá úr og í
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Sömu gildi og byggðu upp Ísland eru lykillinn að framtíðinni

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Sömu gildi og byggðu upp Ísland eru lykillinn að framtíðinni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Áhugafólk um okur á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Áhugafólk um okur á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagur hlessa á Guðlaugi Þór – Hafi nú tekið skoðun Dags upp á sína arma sem hann hafi skammast yfir lengi

Dagur hlessa á Guðlaugi Þór – Hafi nú tekið skoðun Dags upp á sína arma sem hann hafi skammast yfir lengi