fbpx
Föstudagur 12.ágúst 2022
EyjanFastir pennar

Forneskjulegar hugmyndir í kosningabaráttu

Eyjan
Sunnudaginn 19. september 2021 17:00

Á sjötta áratugnum voru lagðir á háir stóreignaskattar sem dómstólar töldu að stæðust stjórnarskrá.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

 

Þær eru margar þversagnirnar í málflutningi frambjóðenda fyrir alþingiskosningarnar. Í auglýsingum Samfylkingarinnar er meðal annars notast við vígorðið „Minna vesen: Styðjum við lítil og meðalstór fyrirtæki.“ Erlendur Magnússon hagfræðingur benti á það í gær á fésbókarsíðu sinni að þessi sami flokkur mælti fyrir 1,5% eignaskatti sem umfram allt legðist á eigendur þessara litlu og meðalstóru fyrirtækja. Hér færi því ekki saman hljóð og mynd.

En það er margt skrýtið sem heyrist í umræðunni í aðdraganda kosninga. Einn frambjóðenda Samfylkingar hélt því fram að hár eignaskattur leiddi til aukinna fjárfestinga í nýsköpun. Erlendur ritaði af þessu tilefni:

„Það síðasta sem fjárfestar gera þegar þeim er ljóst að þeir þurfa að greiða 15% af eigum sínum á næstu 10 árum í sérstakan eignaskatt er að binda það fjármagn í mjög áhættusömum verkefnum til fjölda ára. Þvert á móti þá leitast þeir við að tryggja að þeir eigi nægt laust fé til þess að geta staðið undir skattskuldbindingum sínum og draga sig því fremur út úr áhættusömum verkefnum. Samfélagið allt tapar á því. Það ætti a.m.k. enginn að kjósa Samfylkinguna sem vill styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki.“

Bitur reynsla af eignasköttum

Eignaskattar eiga sér langa sögu hérlendis. Tíundarlög voru samþykkt á Alþingi 1096 en tíund var 1% eignaskattur. Helmingur skattsins rann beint til höfðingja en David Friedman og fleiri fræðimenn hafa sett fram tilgátur um að sú stórfellda eignaupptaka sem þarna átti sér stað hafi raskað valdajafnvægi þjóðveldisins sem síðan braust út í borgarastyrjöld sem við þekkjum sem Sturlungaöld.

Eignaskattar voru ekki endanlega afnumdir fyrr en árið 2005. Eignaskattur var fram til þess tíma lagður á eignir fyrirtækja umfram skuldir en um var að ræða almennan eignaskatt sem nam 1,20% og sérstakan eignaskatt upp á 0,25%. Þegar betur fór að ára í efnahagslífinu undir lok síðustu aldar varð skatturinn sífellt meiri byrði á fyrirtækin. Blessunarlega opnuðu stjórnmálamenn augun fyrir því ranglæti sem fólst í þessum skatti en eignaskattar leggjast aftur og aftur á sömu eignina. Þeir draga úr vilja fyrirtækja og einstaklinga til að fjárfesta í varanlegum eignum og hvetja í staðinn til neyslu.

Einn hinna gömlu sérstöku eignaskatta var svokallaður Þjóðarbókhlöðuskattur. En sem dæmi má nefna að árið 2000 greiddi eitt fyrirtæki, Olíufélagið hf., um 2,5% af álögðum Þjóðarbókhlöðuskatti en þetta samsvaraði einum tíunda af eigin fé fyrirtækisins. Skatturinn miðaðist við fasteignamat sem oft var mun hærra en raunvirði eigna utan höfuðborgarsvæðins en Olíufélagið átti miklar fasteignir hringinn í kringum landið. Skattahópur Samtaka atvinnulífsins sýndi fram á í skýrslu sem birt var árið 2001 að hefði Olíufélagið verið undanþegið þessum skatti og öðrum eignasköttum þess tíma og ávaxtað fjármunina sjálft hefði mátt ætla að skattgreiðslur til ríkissjóðs hefðu á endanum orðið hærri. Þannig að ríkissjóður naut ekki góðs af umræddum skatti þegar öllu var á botninn hvolft.

Það er nefnilega svo að eignaskattar skila almennt litlu en þeir leggjast líka aðeins á þær eignir sem eru skilgreindar; verðbréf, bankareikninga og fasteignir. Allar þessar eignir hafa þegar verið skattlagðar. Það sýndi sig líka þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði á eignaskatt 2009 (sk. auðlegðarskatt) að þeir efnuðustu voru í góðum færum til að flytja til útlanda og þar með rýrnaði heildarauður innanlands. Skatturinn lagðist annars vegar þungt á aldraða sem höfðu komið sér upp stórum fasteignum á langri ævi en voru með litlar sem engar tekjur og hins vegar á eigendur áðurnefndra lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Hvað með mannréttindin?

Því má velta upp hvort ítrekuð álagning auðlegðarskatts ásamt fjármagnstekjuskatti á neikvæðar fjármagnstekjur hafi ekki beinlínis falið í sér eignaupptöku. En dómstólar hafa verið tregir til að telja skattalög í heild sinni andstæð stjórnarskrá. Í dómi Hæstaréttar nr. 116/1958 sem reis út af innheimtu stóreignaskatts taldi Hæstiréttur að 25% eignaskattur sem greiða ætti á 10 árum teldist ekki það hár að jafnaðist á við eignaupptöku. Samt sem áður gat Hæstiréttur þess í forsendum dómsins að yrði slíkur skattur lagður á ítrekað á eignir manna með stuttu millibili gæti það farið í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Sömuleiðis reyndi á lögmæti auðlegðarskatts fyrir dómstólum og var hann talinn samrýmast kröfum stjórnarskrár í öllum meginatriðum.

Eignaskattar heyra til undantekninga í vestrænum lýðræðisríkjum og hafa verið á hröðu undanhaldi. Samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar voru eignaskattar lagðir á í 12 ríkjum árið 1990 en 2018 voru aðeins fjögur eftir. Samkvæmt sömu skýrslu hafa eignaskattar almennt skilað litlum tekjum. Í þessum samanburði Efnahags- og framfarastofnunarinnar eru fasteignagjöld undanskilin en þau eru samt í eðli sínu eignaskattar.

Mikið hefur verið rætt um stjórnarskrárbreytingar hér á landi og mörgum er umhugað um virkari mannréttindavernd. Í þeirri umræðu hefur skort á hugmyndir um það hvernig megi ljá friðhelgi eignarréttar aukið inntak en það mætti til dæmis gera með almennu þaki á skattheimtu og banni við eignasköttum í stjórnarskrá. Flest öll ríki Evrópusambandsins hafa aflagt eignaskatta en við búum enn við fasteignagjöld sem hækka með sjálfvirkri reikniformúlu og eru í mörgum tilfellum verulega íþyngjandi fyrir skattborgarann. Og nú eru aftur komnar á kreik hugmyndir um stóreignaskatt eins og áður sagði.

Ég hygg að flestir séu sammála um að það eigi að vera keppikefli okkar að vera ríki meðal ríkja álfunnar og fylgja meginstraumum í framþróun mannréttinda. Það felur þá meðal annars í sér að ljá ekki máls á nýjum eignasköttum og afnema þá sem fyrir eru. En af tali frambjóðenda um skattamál að dæma má ætla að mörgum þeirra sé fyrirmunað að skilja að skattur á einn er skattur á alla. Ef skattur er lagður á verslunarfyrirtæki er eina leið kaupmannsins til að borga skattinn að taka hann af viðskiptavinunum. Þaðan koma hans tekjur.

Málflutningur sumra frambjóðenda nú um álagningu eignaskatta vekur upp spurningar um hvað þeim gangi til með að vilja leggja á skatta sem sýnt er að skila litlu í ríkiskassann, koma illa við lítil og meðalstór fyrirtæki og hafa að mestu verið afnumdir hjá þeim ríkjum sem við helst berum okkur saman við. Fróðlegt væri að fá svör við þessum spurningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fastir pennarFókus
23.06.2022

Var Charles Manson útsjónarsamur költ leiðtogi eða bara örlítið sjarmerandi óþokki?

Var Charles Manson útsjónarsamur költ leiðtogi eða bara örlítið sjarmerandi óþokki?
Fastir pennarFókus
20.06.2022

Poppsálin: Gerir ástarsorgin okkur klikkuð?

Poppsálin: Gerir ástarsorgin okkur klikkuð?
EyjanFastir pennar
19.06.2022

Birgir Dýrfjörð skýtur föstum skotum að formanni SÁÁ – ,,Mögulegt fjársvikamál“

Birgir Dýrfjörð skýtur föstum skotum að formanni SÁÁ – ,,Mögulegt fjársvikamál“
EyjanFastir pennar
14.06.2022
„Þú líka Brútus“
EyjanFastir pennar
12.06.2022

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga
EyjanFastir pennar
05.06.2022

Björn Jón skrifar: Af heimsóknum bresks kóngafólks hingað til lands

Björn Jón skrifar: Af heimsóknum bresks kóngafólks hingað til lands
EyjanFastir pennar
15.05.2022

Björn Jón skrifar: Stjórnarmynstrið gengur ekki upp

Björn Jón skrifar: Stjórnarmynstrið gengur ekki upp
EyjanFastir pennar
13.05.2022
Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
12.05.2022

Endurreisn Sovétríkjanna á íslenska húsnæðismarkaðnum

Endurreisn Sovétríkjanna á íslenska húsnæðismarkaðnum
EyjanFastir pennar
07.05.2022

Kjósum borgarstjóra beinni kosningu

Kjósum borgarstjóra beinni kosningu
Aðsendar greinarFastir pennar
20.04.2022

Alls ekki tala um Bjarna

Alls ekki tala um Bjarna
EyjanFastir pennar
17.04.2022

Björn Jón skrifar: Hreinsanirnar í Eflingu

Björn Jón skrifar: Hreinsanirnar í Eflingu