fbpx
Laugardagur 28.maí 2022
Eyjan

Meirihlutinn segist hafa endurreist verkamannabústaðarkerfið – 807 manns á biðlista og vinstrimenn furðu lostnir

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 19. júlí 2019 16:00

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gagnbókun frá meirihlutanum í borgarstjórn á fundi borgarráðs í gær, kemur fram að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sé framsækin, róttæk og ábyrg og geri ráð fyrir endurreisn verkamannabústaðarkerfisins, sem nú þegar hafi átt sér stað.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, greinir frá því á Facebook að hún fái ekki séð að Reykjavíkurborg hafi staðið undir þeirri fullyrðingu, meðan biðlistar í félagslega leigukerfinu nálgist þúsund manns:

„Ég get ekki séð að endurreisn verkamannabústaðakerfisins hafi nú þegar átt sér stað og sé ekki hvernig róttækni og ábyrgð endurspeglast í þeirri staðreynd að í júlí 2019 voru 807 á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð í Reykjavík.“

Sanna sagði í bókun sinni í borgarráði að rekja mætti skort á hagkvæmu húsnæði til húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar, sem og stjórnvalda, sem hafi treyst á að markaðurinn leysti húsnæðiskreppuna, í stað þess að einblína á félagslegar lausnir.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tekur einnig undir orð Sönnu:

„Þvílík fullyrðing; að endurreisn verkamannabústaðakerfisins hafi átt sér stað. Er búið að láta lagtekjufólk sem pínist á leigumarkaði vita?“

VG hefur verið með það á stefnuskrá sinni að endurreisa verkamannabústaðarkerfið, sem endanlega var lagt af í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins, en síðustu tveir meirihlutar hafa legið undir harðri gagnrýni síðustu ár vegna skorts á húsnæði, ekki síst handa fólki með minna á milli handanna, meðan lúxusíbúðir ná ekki að seljast á dýrustu byggingarreitum borgarinnar.

Ódýrar íbúðir, gangi fjármögnun eftir

Í dag tilkynnti Reykjavíkurborg að ungu fólki og fyrstu kaupendum byðist ódýrar íbúðir á næstu misserum, þar sem teknar hafi verið frá lóðir fyrir hagkvæmar íbúðir. Fylgir sá böggull skammrifi, að forsenda þessa sé að fjármögnun gangi eftir.

Tilkynning Reykjavíkurborgar:

 

Ódýrari íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur

Sex aðilar munu hefja byggingu á ódýrari íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á næstu misserum ef áform og fjármögnun ganga eftir.

Þessir aðilar munu byggja á lóðum sem hafa verið teknar frá fyrir hagkvæmar íbúðir. Borgarráð hefur nú samþykkt slík lóðarvilyrði á níu reitum og hafa þrír hópar skilað gögnum um fjármögnun og fengið fullgild lóðarvilyrði. Þetta eru Frambúð sem þróar byggð í Skerjafirði, Vaxtarhús sem vinnur að verkefni á reit Sjómannaskólans og Urðarsel í Úlfarsárdal.

Því til viðbótar samþykkti borgarráð fimm vilyrði þar sem aðilum var gefinn átta vikna frestur til þess að tryggja fjármögnun eiginfjár sem nemur 20% af áætluðum byggingarkostnaði verkefnisins.

Af þessum fimm hópum hafa nú tveir þegar skilað til borgarinnar gögnum um fjármögnun og teljast þeirra vilyrði því fullgild. Þetta eru Þorpið og Hoffell sem vinna að því að þróa hagkvæmt húsnæði í Gufunesi.

Þá hefur borgarráð samþykkt að auglýsa breytingar á deiliskipulagi á tveimur reitum sem tengjast verkefninu; annars vegar á Sjómannaskólareit og hins vegar við Gufunes.

Einn hópur er enn innan tímamarka með sitt vilyrði en það er Investis sem er að þróa byggð á Kjalarnesi. Enn á eftir að ráðstafa reitum í Bryggjuhverfinu til verkefnisins og verður gengið frá því á næstunni.

Forsaga málsins er sú að í Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn í byrjun júní 2017 voru settar fram sérstakar tillögur um ódýrari íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Áhersla var lögð á uppbyggingu á ríkislóðum sem hafa gengið til borgarinnar en einnig þróunarsvæði við Ártúnshöfða og Gufunes.

Stofnaður var starfshópur til að vinna að þessum tillögum og stóð hann fyrir hugmyndaleit um hagkvæmt húsnæði. Var nokkrum aðilum sem skiluðu inn hugmyndum boðið að kynna þær opinberlega.

Í apríl 2018 samþykkti borgarráð að leggja fram lóðir á sjö stöðum fyrir verkefnið. Þetta voru ríkislóðir í Skerjafirði, við Sjómannaskólann og á Veðurstofuhæð. Auk þess lagði borgin fram þróunarlóðir við Gufunes, Ártúnshöfða, Grundarhverfi á Kjalarnesi og nýju hverfi í Úlfarsárdal.

Í maí árið 2018 var auglýst eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði í Reykjavík á þessum lóðum. Auglýst var í fjölmiðlum og á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Ákveðið var að byggingarréttur yrði auglýstur á föstu verði sem er sama upphæð og umsækjendur um stofnframlög ríkisins hafa greitt eða 45.000 kr.

Sextán teymi skiluðu upphaflega inn hugmyndum fyrir frestinn þann 8. ágúst 2018. Starfshópurinn fékk til liðs við sig ráðgjafa með sérfræðiþekkingu á arkitektúr, verkfræði og fjármálum frá Trípólí arkitektum, Verkís og KPMG. Ráðgjafar hópsins fóru yfir hugmyndirnar með starfshópnum og veittu honum ráðgjöf um stigagjöfina. Þrettán sterkustu hugmyndunum var síðan boðið að kynna sín verkefni fyrir starfshópnum. Eru nú sex aðilar líklegir til að fara alla leið með verkefnin í þessari atrennu að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis að frumkvæði Reykjavíkurborgar. Líklegt er að hagkvæmt húsnæði rísi á öllum níu lóðunum sem Reykjavíkurborg hefur tekið frá fyrir slíka uppbyggingu.

Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir á reitunum geti hafist á næstu 12 til 24 mánuðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt