fbpx
Þriðjudagur 09.ágúst 2022
Eyjan

Braggamálið: Borgarstjóri rannsakaði sjálfur eigin tölvupósta – Fann ekkert athugavert

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 8. febrúar 2019 15:07

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, hefur svarað fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins í borgarráði um af hverju svör hans um rannsókn á tölvupóstum sínum um braggamálið  voru á skjön við skýrslu innra eftirlits Reykjavíkurborgar, í viðtali við DV Sjónvarp.

Dagur var spurður af DV sama dag og braggaskýrsla innri endurskoðunar kom út, hvort farið hefði verið yfir hans tölvupósta, í samskiptum hans við Hrólf Jónsson, yfirmann skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar, sem fór með braggamálið. Játti Dagur því.

Þegar Eyjan hafði samband við innri endurskoðun til þess að staðfesta orð borgarstjóra, reyndist fullyrðing borgarstjóra röng, að því leyti að innri endurskoðun hafði ekki rannsakað tölvupósta borgarstjóra, líkt og fram kom í skýrslunni.

Sjá nánar: Braggamálið:Svör borgarstjóra á skjön við skýrslu Innra eftirlits Reykjavíkurborgar

Rannsakaði sjálfan sig

Nú hefur Dagur skýrt út hversvegna hann komst svo að orði. Í svari Dags við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins segir:

„Í kjölfar þess að málefni Nauthólsvegar 100 komust í hámæli fór borgarstjóri yfir öll gögn og samskipti varðandi verkefnið og aftur í aðdraganda viðtals við innri endurskoðun vegna undirbúnings skýrslu hennar. Borgarstjóri var að vísa til þessa í ofangreindu viðtali.“

Semsagt, til áréttingar, þá var Dagur að meina í viðtalinu við DV Sjónvarp, að hann sjálfur hefði farið yfir sína eigin tölvupósta, er vörðuðu samskipti hans við Hrólf Jónsson.

Skilningur borgarstjóra Reykjavíkur á spurningu blaðamanns, daginn sem braggaskýrsla innri endurskoðunar kom út, um hvort farið hefði verið yfir hans tölvupósta um málið, var sem sagt ekki sá hvort innri endurskoðun hefði farið yfir hans tölvupósta, heldur hvort hann sjálfur hefði gert það. Og því svaraði hann játandi.

Væntanlega má slá því föstu að borgarstjóri hafi ekki séð neitt athugavert við sín eigin samskipti við Hrólf Jónsson, sem lítur að framúrkeyrslu braggans, því þá hefði hann ugglaust tilkynnt um það, í nafni gegnsærrar stjórnsýslu og heiðarlegra vinnubragða.

Hingað til eru aðeins orð borgarstjóra höfð fyrir því að hann hafi ekki vitað um neitt óeðlilegt við braggann fyrr en það hafi verið orðið of seint. Það staðfestir skýrsla innri endurskoðunar:

„Að sögn borgarstjóra vissi hann ekkert um framvindu framkvæmdanna að Nauthólsvegi 100 eftir að hann undirritaði leigusamninginn við HR í september 2015 að öðru leyti en því sem upplýst var í borgarráði en það var einungis í tengslum við fjárfestingaráætlanir.“

Þess vegna hafa borgarfulltrúar og fjölmiðlar kallað eftir því að tölvupóstar borgarstjóra verði einnig rannsakaðir, svo hægt sé að taka af allan vafa í málinu.

Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, hefur sagt að meirihlutinn sé boðinn og búinn til þess að láta óháðan aðila, innri endurskoðun Reykjavíkur, skoða alla þá tölvupósta sem þurfa þykir til að komast til botns í málinu:

„Það gæti auðvitað verið tæknilega erfitt en það er verið að skoða það. Og okkar vilji er alveg hundrað prósent í því að það gæti verið gott að gera það, til þess að hafa þetta alveg á hreinu,“

sagði hún í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Aðspurð í þættinum Þingvellir á K100 hvort það væru þá ekki hæg heimatökin að Dagur léti skoða sína tölvupósta, fyrst að svo mikill vilji væri til þess, sagði Dóra hinsvegar að hún gæti ekki svarað fyrir borgarstjóra.

Þá sagði Dóra Björt einnig nokkuð áhugavert um tölvupósta í þættinum:

„Tölvupóstarnir sem fóru þarna á milli Dags, verkefnastjórans og skrifstofustjórans (Hrólfs) eru náttúrulega þeir sem eru áhugaverðir, hvort sem að þú skoðir þá í gegnum Dags pósthólf eða hinum megin frá skiptir náttúrulega engu máli.“

Þarna virðist um reginmisskilning hjá Dóru Björt að ræða, um hvernig tölvupóstur virkar í reynd. Það skiptir nefnilega öllu máli að boðleiðirnar séu skoðaðar frá öllum endum.

Því þó svo engir tölvupóstar hafi fundist í pósthólfi Hrólfs frá borgarstjóra um braggamálið, útilokar það ekki að borgarstjóri hafi sent Hrólfi tölvupóst um braggamálið. Hafi hann gert það, gæti tölvupósturinn ennþá verið í innhólfi borgarstjóra.

Nema auðvitað ef borgarstjóri hafi eytt póstinum.

Það er einmitt þess vegna sem kallað hefur verið eftir því að tölvupósthólf borgarstjóra verði rannsakað, til að taka af allan vafa um málið og staðfesta orð hans.

Einhverra hluta vegna hefur það ekki ennþá gerst og því ekki hægt að slá því föstu að Dagur hafi ekki vitað neitt um málið.

Eyjan hefur sent innri endurskoðun fyrirspurn um hvort til standi að rannsaka innhólf og tölvupósta borgarstjóra vegna málsins.

 

Í skýrslu IE um upplýsingagjöf til borgarstjóra segir orðrétt:

„Samskipti milli SEA og borgarstjóra eru mikil og regluleg, um það ber fyrrverandi skrifstofustjóra SEA og borgarstjóra saman um. Samskiptin eru bæði í gegnum fjármálahóp borgarstjóra og undirbúningsfundi borgarráðs sem gjarnan eru notaðir til að undirbúa mál sem SEA leggur fyrir borgarráð. Enn fremur áttu þeir reglulega fundi en það sem fram fer á slíkum fundum er ekki skráð, enda ekki hefð fyrir því á samráðsfundum borgarstjóra með sínum næstráðendum.“

 

Svar borgarstjóra í borgarráði í heild sinni:

„Viðtalið sem vísað er til var tekið daginn sem skýrsla innri endurskoðunar var kynnt og tók óneitanlega mið af því að blaðamaður DV taldi fréttir blaðsins um að öllum tölvupóstum skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar hafi verið eytt vera réttar. Sem kunnugt er reyndist það ekki vera og náði skoðun innri endurskoðunar til tölvupósthólfs skrifstofustjórans og verkefnisstjóra verkefnisins, þar með talið til tölvupóstsamskipta við borgarstjóra og aðra frá september 2017 og fram á árið 2018 þegar framúrkeyrslan átti sér stað.

Sá hluti viðtalsins sem vísað er til var eftirfarandi, orðrétt:

Blaðamaður DV: „Voru sérstaklega skoðaðir tölvupóstar Hrólfs eins og DV birti þá var þeim öllum eytt eftir að hann yfirgaf…“

Borgarstjóri: „Já það var farið yfir…“

Blaðamaður DV: „…Voru þínir tölvupóstar skoðaðir?“

Borgarstjóri: „Það hefur verið farið yfir þá og það sem áður hefur komið fram í þessu er að ég fékk ekki upplýsingar og borgarráð fékk ekki upplýsingar. Skýrslan staðfestir þá niðurstöðu.“

Blaðamaður DV: „Þannig að það var ekki hægt að skoða þá tölvupósta i skýrslunni.“

Borgarstjóri: „Tölvupóstar sem eru ekki sendir er auðvitað ekki hægt að skoða og ég fékk engan tölvupóst um…“

Blaðamaður DV: „og þú fékkst engan tölvupóst…“

Borgarstjóri: „Nei nei.“

Blaðamaður DV: „Og það er ekkert hægt að skoða þessa eyddu tölvupósta frá Hrólfi.“

Borgarstjóri: „Það kemur fram umfjöllun um þetta í skýrslunni.“

Blaðamaður DV: „Ókei, þá svona að lokum…“

Í kjölfar þess að málefni Nauthólsvegar 100 komust í hámæli fór borgarstjóri yfir öll gögn og samskipti varðandi verkefnið og aftur í aðdraganda viðtals við innri endurskoðun vegna undirbúnings skýrslu hennar. Borgarstjóri var að vísa til þessa í ofangreindu viðtali.

Hins vegar liggur einnig fyrir í málinu að innri endurskoðun hafði tölvupóstsamskipti milli skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og allra þeirra sem hann var í tölvupóstsamskiptum við, þar með talið borgarstjóra til skoðunar en bæði inn og úthólf skrifstofustjórans voru skoðuð frá því tímabili sem framkvæmdin við Nauthólsveg 100 fór fram úr áætlun. Sem hluta af rannsókn sinni tók innri endurskoðun afrit af tölvupósthólfum þeirra sem ábyrgð báru á verkefninu við Nauthólsveg: verkefnisstjóra þess og skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar. Innri endurskoðun hefur tekið saman sérstakt minnisblað um athugun sína á tölvupóstum, dagsett 17. janúar 2019. Tölvupóstar skrifstofustjórans, inn- og úthólf, liggja fyrir á öllu því tímabil sem framúrkeyrslan í verkefninu varð, þar með talin samskipti við borgarstjóra, borgarritara og aðra. Í skýrslu innri endurskoðunar segir: „Í tölvupóstum skrifstofustjórans fundust engin póstsamskipti skrifstofustjóra og borgarstjóra þar sem Nauthólsvegur 100 var nefndur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur segir landlæga þrjósku valda því að Ísland gengur ekki í ESB – „Ís­lenska krónan er fíllinn í stofunni“

Ólafur segir landlæga þrjósku valda því að Ísland gengur ekki í ESB – „Ís­lenska krónan er fíllinn í stofunni“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sniðganga Trump á gamla heimavellinum hans

Sniðganga Trump á gamla heimavellinum hans
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Biden um Trump – „Hann hafði ekki kjark“

Biden um Trump – „Hann hafði ekki kjark“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ólafur hjólar í borgina fyrir seinagang og biður Einar um að klára málið

Ólafur hjólar í borgina fyrir seinagang og biður Einar um að klára málið