fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Eyjan

Braggamálið: „Áfellisdómur yfir stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, fyrrum skrifstofustjóra SEA og ekki síst borgarstjóra“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 20. desember 2018 14:03

Borgarstjóri dróst inn í Braggamálið eftir að hann gaf afar ónákvæm svör um hvenær hann hefði fyrst vitað af framúrkeyrslunni. Sagði hann við DV að pósthólfið sitt hefði verið rannsakað, en síðar kom í ljós að það hafði ekki verið gert, nema af honum sjálfum. Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa fordæmt vinnubrögðin í Braggamálinu í kjölfar útgáfu skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um málið í dag. Er skýrslan sögð draga upp dekkri mynd en þá óraði fyrir og sögð áfellisdómur yfir stjórnkerfi borgarinnar og borgarstjóra.

„Borgarstjóri, sem starfaði sem næsti yfirmaður skrifstofustjóra SEA, hefði átt að gegna þeirri stjórnunarlegu skyldu að fara yfir veruleg frávik í verkefnum skrifstofunnar. Þess var ekki gætt og skýrslan því ákveðinn áfellisdómur yfir borgarstjóra,“

segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur:

„Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar, og öllu framanrituðu, virðist ótalmargt hafa farið úrskeiðis við framkvæmdina. Skýrslan er áfellisdómur yfir stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, fyrrum skrifstofustjóra SEA og ekki síst borgarstjóra.“

Þá er fullyrt að um brot á sveitastjórnarlögum sé að ræða þegar farið var fram úr fjárheimildum:

„Í skýrslunni kemur fram að farið hafi verið fram úr samþykktum fjárheimildum og þess ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar, sem er hvort í senn brot á sveitastjórnarlögum og reglum borgarinnar.“

Tilkynninguna má lesa hér að neðan:

Tilkynning til fjölmiðla frá borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokks vegna skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100

Skýrslan dregur upp dekkri mynd en fulltrúum Sjálfstæðisflokks í borgarráði óraði fyrir. Í skýrslunni kemur fram að farið hafi verið fram úr samþykktum fjárheimildum og þess ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar, sem er hvort í senn brot á sveitastjórnarlögum og reglum borgarinnar. Eins kemur fram að borgarráði hafi verið veittar villandi og rangar upplýsingar um verkefnið. Niðurstöður innri endurskoðunar benda til þess að kostnaðareftirliti, upplýsingastreymi og skjölun hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.

Fram kemur í skýrslunni að fyrrverandi skrifstofustjóri SEA hafi ekki sinnt sinni stjórnendaábyrgð, enda hefði honum borið að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og upplýsa sína yfirmenn og borgarráð um gang mála. Þó kemur fram í skýrslunni að þetta leysi þó ekki næstu yfirmenn skrifstofustjórans, þ.e. borgarritara og borgarstjóra, undan þeirri ábyrgð að hafa heildarsýn yfir rekstur einingarinnar og verkefni hennar. Borgarstjóri, sem starfaði sem næsti yfirmaður skrifstofustjóra SEA, hefði átt að gegna þeirri stjórnunarlegu skyldu að fara yfir veruleg frávik í verkefnum skrifstofunnar. Þess var ekki gætt og skýrslan því ákveðinn áfellisdómur yfir borgarstjóra.

Á síðustu árum hefur Reykjavíkurborg eytt fleiri hundruð milljónum í endurbætur á húsnæði fyrir veitingarekstur. Þessum fjármunum hefði verið mun betur varið í grunnþjónustu við borgarbúa.

Rétt er að taka fram að innri endurskoðandi skilaði svartri skýrslu árið 2015 um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA). Í skýrslunni, sem kynnt var í dag, kemur fram að ef brugðist hefði verið við áður gerðum athugasemdum innri endurskoðanda frá 2015, sem voru 30 talsins, þá hefði mátt koma í veg fyrir þetta klúður. Árið 2015 var skipaður starfshópur til að leysa úr ábendingum innri endurskoðenda um SEA. Það er með algerum ólíkindum að nú þremur árum síðar eigi enn eftir að leysa úr 24 þessari ábendinga af 30 í starfsemi SEA.

Í skýrslunni, sem kynnt var í dag, segir að samkvæmt skipuriti sé borgarritari næsti yfirmaður skrifstofustjóra SEA, en þó hafi mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hafi ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju.

Ljóst er að innkaupareglur Reykjavíkurborgar voru brotnar og undanþáguheimilda innkauparáðs var ekki aflað eins og skylt er að gera skv. 13. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar. Þar segir að skylt sé að afla fyrirfram samþykkis innkauparáðs fyrir beitingu undanþáguheimilda. Þetta ákvæði á m.a. við ef ætlunin er að viðhafa bein þjónustukaup án þess að notast sé við formlegt innkaupaferli. Þá er jafnframt ljóst að aðeins í einu tilviki voru til gögn frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem sýndu samanburðartilboð eða verðfyrirspurn. Jafnframt voru ekki til staðar gögn sem sýndu fram á að leitað hefði verið hagkvæmustu tilboða eins og sagði orðrétt í áliti borgarlögmanns um málið. Eins lágu engir skriflegir samningar til grundvallar framkvæmdinni þar sem engin útboð voru viðhöfð.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar, og öllu framanrituðu, virðist ótalmargt hafa farið úrskeiðis við framkvæmdina. Skýrslan er áfellisdómur yfir stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, fyrrum skrifstofustjóra SEA og ekki síst borgarstjóra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Fjármálaráð gefur verkum ríkisstjórnarinnar falleinkunn

Orðið á götunni: Fjármálaráð gefur verkum ríkisstjórnarinnar falleinkunn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla Hrund bætir enn við fylgi sitt og fylgi Katrínar minnkar

Halla Hrund bætir enn við fylgi sitt og fylgi Katrínar minnkar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?