

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að Hafnartorgið svokallað sé skipulagsslys, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er ánægður með það. Gísli Gíslason, sem er stjórnarformaður Landstólpa, fyrirtækisins sem reisir Hafnartorgið, segist telja að byggingarnar séu í sögulegu samhengi. Sigmundur og Dagur hafa hvor sína skoðun, eins og gengur, en það sem stjórnarformaðurinn segir stenst ekki. Það er verður aldrei hægt að fullyrða að þarna sé samhengi, hvað þá sögulegt. Eina samhengið er í raun við byggingabóluna sem er núna og kröfuna um hámörkun arðs og nýtingar. Mætti jafnvel segja að þetta sé „gróðærislegt“ – þar er kannski ákveðið samhengi líka.

Ég skrifaði grein hér á vefinn í gær sem nefndist Gámaarkitektúr? – óskaði eftir viðbrögðum við byggingaáformunum þarna við austurhöfnina. Þau létu ekki á sér standa og voru flest heldur gagnrýnin. Einn sagði reyndar að þetta vær „fínn, ný fúnkís“, en flest svörin voru á hinn veginn. Það er nefnt að peningaöflin ráði ferðinni.
Trausti Valsson, prófessor í skipulagsfræði við Háskóla Íslands, skrifaði:
Það er alveg skelfilegt að sjá þetta. Ýmislegt ágætt hefur verið gert í byggingu nýrra húsa í gamla bænum þar sem reynt er að laga nýju byggðina að því sem fyrir er. En nú virðist búið að henda þeirri hugsun – sem þó er ráðandi út um allan heim – út um gluggann. Og ekki aðeins þarna, heldur t.d. með hóteltillögu á horni Vonarstrætis og Lækjargötu og með nýrri vestur-götuhlið á Frakkastíg, móts við gamla Franska spítalann.
Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifaði að Hafnartorg kallaðist „arkitektroniskt hvorki á við höfnina né gamla bæinn“, og ennfremur:
Eitt það mikilvægasta sem arkitekt þarf að hafa er tilfinning fyrir staðnum. Staðnum sem hann hyggst byggja sitt hús á. Þessar myndir sem Egill sýnir á vef sínu eru af byggingum sem gætu verið hvar sem er í víðri veröld. Við þekkjum svona hús víða að úr heiminum. Það sem einkennir þau er skortur á höfundar- og staðareinkennum. Þau eru alþjóðleg og leiðinleg. Miðborg Reykjavíkur á betra skilið en þetta.
Fyrst talað er um sögulegt samhengi er gott að staldra við og skoða hvernig þetta svæði leit út áður en það varð að skelfilega ljótu bílastæði. Því eitt sinn var þarna byggð sem hafði sinn þokka og samsvaraði sér afar vel. Þessi hús voru öll rifin – og lengi vel kom ekkert í staðinn, ekki fyrr en nú að farið er að grafa grunn að Hafnartorginu.
Andri Snær Magnason rithöfundur skrifaði um þetta pistil snemma árs 2009. Þá birti hann þessa mynd af svæðinu:

Þetta er skelfing ljótt, eins og eyðiland. Við borgarbúar létum okkur lynda að svona væri þetta um áratuga skeið. En Andri birti líka myndir af byggðinni eins og hún var á árum áður. Þarna er horft af sama stað ofan af Arnarhóli.

Við getum svo farið aðeins lengra inn í myndina.

Grein Andra Snæs sem fylgdi með þessum myndum kallaðist Hvað á að gera við miðborgina? Hún er þeirrar gerðar að full ástæða er til að birta hana í heild sinni. Andri leggur til að byggt verði upp aftur í anda þess sem sést á gömlu myndunum. Leggur jafnvel til að Árbæjarsafn yrði flutt þangað niðureftir, þetta eigi ekki að líta út eins og Kringlan eða Vallahverfið:
Víkin sem Reykjavík er kennd við liggur undir bílastæði.
Margir spyrja sig þessa dagana þegar allt er hrunið og ekki verður byggt á lóð Landsbanka Íslands á stóra malarplaninu milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu. Malarplanið ljóta var ekki alltaf svona ljótt og tilgangslaust. Það var einu sinni fullt af húsum. Og það var ekki aðeins fullt af húsum heldur var þarna einu sinni Vík. Og hvað er svona merkilegt við Víkina sem hefur verið fyllt upp í? Jú – hún er líklega sú Vík sem Reykjavík er kennd við.
Og hvað er svona merkilegt við það? Jú undir malarplaninu er þá væntanlega fjaran forna þar sem Ingólfur fann súlur sínar – ef tekið skal mark á fornum sögum. Þannig að malarplanið er hvorki meira né minna en sögustaður – upphaf byggðar á Íslandi og okkur hefur ekki borið gæfa til að rækta staðinn. Ég held að besta tillagan væri að byggja svæðið upp eins og það er á þessari mynd. Ekki eins og Borgartún, ekki eins og Kringluna, ekki eins og Smáralind, Korputorg – ekki eins og Vallarhverfið eða Norðlingaholt, ekki eins og við myndum gera það heldur með því að færa höfnina aftur nær Hafnarstræti og hafa lágreist hús í kringum höfnina. Þarna má sjá sjóinn ná langleiðina inn að Eimskipafélagshúsinu. Það mætti jafnvel flytja Árbæjarsafn niðureftir. Miðborgin er ekki borg – hún er þorp, eins og Seyðisfjörður, Hafnarfjörður, Ísafjörður og Stykkishólmur. Þorpið þarf höfn – sem sæmir þorpi.