
Við lifum á tíma þegar er offramboð á skoðunum, en skortur á staðreyndum.
Á samskiptamiðlum flíka menn skoðunum sínum í tíma og ótíma. Líka á hlutum og atburðum sem þeir vita ekkert um. Einatt eru þetta ekki ígrundaðar skoðanir eða skoðanir sem byggja á góðum upplýsingum. Nei, þetta eru skoðanir sem kvikna í augnablikinu – í hita umræðunnar.
Facebook er stærsta kjaftakvörn allra tíma. Þar líðst fólki að segja hluti sem það myndi aldrei segja ef það stæði augliti til auglitis við viðmælendur sína.
Í gær voru það skoðanir á atburðum við járnbrautarstöðina í Köln, listamannalaunum og sorphirðu. Í dag verður það væntanlega eitthvað annað.
Þeir fá mesta athygli sem láta eins og brjálæðingar og fífl. Það endurspeglast svo í fréttaflutningi í fjölmiðlum sem eru með vakt 24 tíma á sólarhring. Til dæmis hefur komið í ljós að Donald Trump hefur fengið 70 sinnum meiri umfjöllun í Bandaríkjunum en Bernie Sanders.
Eftir smátíma á samskiptamiðlum ágerist hjá manni sú tilfinning að algjör glundroði ríki í heiminum. Maður finnur algjört magnleysi koma yfir sig.
En líka þörfina eftir staðreyndum, eftir alvöru upplýsingum, einhverjum grunni til að standa á, yfirsýn.
Ég var að hugleiða þetta í gær þegar inn um lúguna hjá mér kom tilboð um að endurnýja áskrift að The Economist sem ég hafði fyrir margt löngu. Ég er í alvörunni að hugsa um að slá til.