

Nú er spurning – hvað á manni að finnast um þetta?
Svona líta þau út byggingaráformin út hjá Austurhöfninni, milli Hafnarstrætis og Sæbrautar – gegnt Arnarhóli.
Þar er stór reitur sem hefur lengi verið óbyggður og er sannarlega ekki til prýði. En það er ekki þar með sagt að við viljum byggja „bara eitthvað“ á þessum stað – eða hvað?
Nú er lagt til að þessar nýbyggingar kallist Hafnartorg. Raunar er ekkert þarna sem minnir á Höfnina, nálægð við hana eða tengsl við hana – eða yfirleitt tengsl við nokkurn skapaðan hlut í nágrenninu. Slíkt samræmi vantar alveg.
Þetta er í anda arkítektúrs sem er í tísku núna og sést hvarvetna – sumir hafa kallað það gámaarkitektúr. Formin eru kassalaga, byggingamagnið virðist ansi mikið – maður spyr hvort muni nokkurn tíma sjá til sólar inn á „Hafnartorgið“?
Þetta er semsagt mjög bundið tíðarandanum sem ríkir nú á tíma byggingabólu, þegar spákaupmenn hafa flykkst yfir í byggingabransann og láta mikið til sín taka við mótun borgarmyndarinnar – stundum, að manni sýnist, án þess að yfirvöld fái rönd við reist.
Eða hvernig líst lesendum síðunnar á? Kurteislegar og málefnalegar umræður væru vel þegnar.



