
Borgarstjórninni í Reykjavík eru vægast sagt mislagðar hendur þessa dagana. Hún þarf að glíma við hvert vandræðamálið á fætur öðru.
Borgarbúar pósta myndum af yfirfullum ruslageymslum, í fjölbýlishúsum eru íbúar hvekktir vegna nýrra reglna um sorphirðu. Almennt má segja að sú þjónusta sé orðin bæði verri og dýrari – en viðkvæðið er svosem alltaf að þetta sé gert í nafni umhverfisins. Nýju reglurnar tóku gildi um áramót, einmitt þegar mest er af rusli á heimilum. Það er enn eitt dæmið um klaufaganginn.
Skipulagsslys í miðborginni, fyrirhugaðar byggingar sem ganga fram af borgarbúum bæði hvað varðar stærð og útlit, auka á vandræðin. Það er fátt um svör hjá borgarstjórninni – bara að svona sé þetta og varla neinu hægt að breyta. Verktakar og spákaupmenn ráða ferðinni.
Borgin virðist vera að tapa slagnum um svokallaða „neyðarbraut“ á Reykjavíkurflugvelli. Það hefur reyndar aldei verið til neitt sem heitir „neyðarbraut“, þetta orð varð bara til í áróðursskyni. En borgarstjórnin hefur beðið lægri hlut í áróðursstríðinu og getur lítið gert við því.
Það birtast fréttir af gömlu fólki sem fær ekki að borða á dvalarheimilum – það er sérlega pínlegt að fylgjast með því.
Skólastjórnendur lýsa yfir áhyggjum vegna lélegrar fjárhagsstöðu grunnskólanna. Þar er stöðugur niðurskurður.
Fjárhagsáætlun borgarinnar var heldur ekki beysin og skuldastaðan hefur versnað. Það sem gæti helst verið borginni til afbötunar er að hugsanlega sé vitlaust gefið – að sveitarfélögum séu einfaldlega ætlaðar of litlar tekjur til að sinna þeim verkefnum sem til er ætlast. Hættan er að ekkert breytist í þeim efnum á tíma þegar ríkir lítil vinsemd milli borgarstjórnarinnar í Reykjavík og ríkisstjórnarinnar.
En svo má líka spyrja hvort borgin sé máski búin að byggja upp alltof stórt skrifræðisbákn? Að yfirbyggingin sé að bera undirstöðurnar ofurliði.
Nú sjá borgarbúar fréttir um að standi til að eyða stórfé í framkvæmdir við að breyta Grensásveginum. Þetta virðist mestanpart óþarft – eða eitthvað sem mætti gera ef allir sjóðir væru fullir af peningum. Svo er ekki, og því eykur þetta bara á vantrúna á borgarstjórninni.