

David Bowie var einstakur tónlistarmaður, textahöfundur og listamaður á sviði. Fáir túlkuðu tíðaranda áranna milli 1970 og 1980 eins og hann – og mótuðu um leið viðhorfin, listina og tískuna. Bowie fór alltaf sína leið.
Stuttu fyrir andlátið gaf hann út plötuna Blackstar. Hún mun hljóma öðruvísi, öðlast aðra merkingu, nú þegar fréttist að krabbamein sem hann hefur glímt við hefur dregið hann til dauða á aðeins átján mánuðum. Bowie gerði flest með stæl – og hann kveður með stæl.
Ég sá Bowie á tónleikum í Marseille 1978. Lagalistann á tónleikunum er að finna á netinu – þetta er máski magnaðasta tímabil Bowies – lögin eru af plötum sem höfðu gríðarlega þýðingu fyrir mína kynslóð. Það fer eiginlega hrollur um mig þegar ég hugsa að þarna hafi ég verið sem unglingur – góður hrollur.
Takk fyrir tónlistina – og snilldina. Nú sest Kári við píanóið og spilar fyrir mig Space Oddity.
